05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

41. mál, kennsluréttindi kennara í framhaldsskólum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil, með leyfi forseta, hafa aðfaraorð að fyrirspurn minni og vitna til nýútkomins félagsblaðs Bandalags kennarafélaga frá því í október, en þar segir undir fyrirsögninni Erfitt að fullmanna framhaldsskólana:

„Stjórn Hins íslenska kennarafélags hefur látið kanna ástandið í ráðningarmálum framhaldsskólanna. Gerður Guðmundsdóttir annaðist þessa athugun og við tókum hana tali af því tilefni. Gerður sagði að skólameisturum bæri saman um að álíka margir kennarar hefðu horfið frá störfum á þessu sumri og venja væri og hið sama virtist gilda um leyfi frá kennslu. Skólameistararnir óttuðust þó margir hverjir að margir þeirra sem nú væru í launalausu leyfi hygðust ekki hverfa aftur í skólana. Það virtist einnig samdóma álit meistaranna að ástandið nú væri aðeins upphafið að öðru verra. Rektorar við aldnar og virtar menntastofnanir urðu nú í fyrsta skipti fyrir þeirri reynslu að auglýsa ákveðnar stöður margoft án þess að nokkur einasta sála léti svo lítið að spyrjast fyrr um störfin. Nýráðningar gengu alls staðar illa þó ástandið væri að sönnu misjafnlega bágborið eftir námsgreinum. Verst var ástandið í stærðfræði, tölvufræði, viðskiptagreinum, rafeindagreinum og ýmsum öðrum sérgreinum í iðnfræðslu. Kennaraskorturinn gerði það að verkum að fella þurfti nokkra námshópa í skylduáfanga í tölvufræði við Menntaskólann við Hamrahlíð. Í nokkrum öðrum skólum þurfti að grípa til þess ráðs að fresta ákveðnum námsáföngum eða færa þá milli anna. Til að ráða fram úr vandanum var gripið til þriggja gamalkunnra ráða sem öll eru afar slæm: Kennarastöðum var skipt niður á þrjá til fjóra stundakennara, aðrir kennarar leystu málin með því að hlaða á sig yfirvinnu og þegar illilega rak í vörðurnar voru ráðnir réttindalausir stundakennarar með afar takmarkaða menntun, jafnvel nýstúdentar, til að bjarga í horn.“

Í framhaldi af þessum orðum og vegna umræðu sem hér hefur orðið í sumar og í haust í þjóðlífinu, þá vil ég leyfa mér að beina fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 41 um kennsluréttindi kennara í framhaldsskólum:

„Hve margar stöður í framhaldsskólum landsins eru skipaðar kennurum með kennsluréttindi og hve margar réttindalausum kennurum miðað við

a. full stöðugildi,

b. fjölda kennara?"