09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

365. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Það tengist því frv. sem var til umræðu síðast þar sem í þessu frv. er kveðið á um að veðdeild Búnaðarbanka Íslands er heimilt að framselja og afhenda Stofnlánadeild landbúnaðarins allar eignir og skuldir sínar og öll réttindi sín og skyldur samkvæmt þessum lögum vegna breytinga á lausaskuldum bænda í föst lán.

Ég þakka þær undirtektir sem þetta málefni fékk hjá þeim ræðumönnum sem ræddu fyrra málið og tel að sjálfsögðu rétt að það sé skoðað með hvaða kjörum þessi flutningur fer fram og líka hvaða möguleikar eru á að þetta megi verða til bóta fyrir bændur, en ég hygg að stjórn Stofnlánadeildarinnar muni gæta hinna tveggja sjónarmiða, annars vegar hver geta deildarinnar er með tilliti til þeirrar skyldu sem hún hefur til annarrar starfsemi og svo líka hins, hvernig deildin getur sem best létt undir með þeim bændum sem þurfa mjög á því að halda.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.