09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Frv. það sem hér er til umræðu um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, miðar að því að unnt sé að heimila öðrum aðilum en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að framleiða áfenga drykki á Íslandi.

Eins og kunnugt er er staðan þannig í dag að Áfengis og tóbaksverslun ríkisins er einni heimilt að framleiða áfenga drykki á Íslandi. Þetta einkaleyfi hefur í för með sér að aðrir aðilar geta ekki framleitt áfenga drykki, hvorki með útflutning í huga né til sölu í útsölum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Sem dæmi um afleiðingu af þessu banni má nefna að íslenskt fyrirtæki lætur framleiða vodka fyrir sig erlendis. Varan er framleidd samkvæmt íslenskri uppskrift og er öll vöruþróun og hönnun íslensk. Hún er síðan flutt til landsins og seld í útsölum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Umrætt fyrirtæki hefur m.a. áhuga á að koma vöru sinni á Bandaríkjamarkað, en þar sem hún er ekki framleidd á Íslandi er ekki hægt að selja hana í Bandaríkjunum sem íslenska vöru.

Sem dæmi um útflutningsmöguleika má nefna að í Bandaríkjunum er talinn vera mikill markaður fyrir vodka framleitt á Norðurlöndum. Benda má á að vodka frá Svíþjóð og Finnlandi hefur náð verulegri hlutdeild af markaðnum fyrir þá vöru í Bandaríkjunum. Ef íslenskt vodka næði sömu markaðshlutdeild og sænskt vodka má ætla að útflutningstekjur að því næmu um 300 millj. kr. á ári.

Eins og áður sagði er ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt sú að gefa þeim aðilum sem hafa áhuga á að framleiða áfenga drykki á Íslandi til útflutnings kost á því. Ef vel tekst til með slíkan útflutning getur verið um að ræða arðbæra atvinnugrein sem bæði aflar þjóðarbúinu tekna og skapar atvinnutækifæri.

Hér er ekki lagt til að breyta á nokkurn hátt þeim lagaákvæðum sem nú gilda um innflutning og sölu á áfengum drykkjum og einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins heldur er einvörðungu verið að opna heimild fyrir fyrirtæki eða aðila sem vilja hefja framleiðslustarfsemi af þessu tagi hér á landi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efni frv. , en legg til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.