09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3558 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Hér er komið inn á býsna stórt mál ef við hyggjum að því hvað í kjölfarið gæti komið og ég hygg að það sé rétt að menn fari að með fullri gát. Ég skal ekki setja á neina tölu um þetta mál nú. Það bíður betri tíma að skoða þetta mál betur. Sömuleiðis þekki ég mætavel til þeirra aðila sem þarna eiga hlut að máli og veit vel um hugmyndir þeirra nokkuð lengi um að fá þessa heimild.

Ég tel nauðsynlegt að leitað verði umsagnar þeirra sem eiga að vera umsagnaraðilar um þessi mál, þar á meðal áfengisvarnaráðs að sjálfsögðu sem er kjörið af Alþingi til þess einmitt að vera ráðgefandi aðili í þessum efnum.

En það var tíundað áðan í ræðustól af hæstv. heilbr. og trmrh. sem mikil merkistíðindi að orðið hefði samkomulag í ríkisstj. um þetta og samkomulag í ríkisstj. um hitt af þeim málum sem hún var að nefna áðan. Það var alveg augljóst að hæstv. ráðh. þóttu það nokkur tíðindi að orðið hefði samkomulag í ríkisstjórn um ákveðin mál og þess vegna spyr ég: Er fullt samkomulag í hæstv. ríkisstj. um frumvarpsflutning þennan? Standa allir ráðherrar ríkisstj. að flutningi þess? Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því.