05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

41. mál, kennsluréttindi kennara í framhaldsskólum

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að geta þess hér að hv. 3. landsk. þm. á einnig fsp., sem er 2. mál á dagskrá, um kennsluréttindi í grunnskólum, en þar sem leita þarf upplýsinga til að svara þeirri spurningu til allra fræðsluumdæma, sem ekki hefur tekist enn, dregst úr hömlu að svara henni. Það er þó sýnt að þær upplýsingar munu liggja fyrir á næsta þriðjudag.

En vegna fsp. hv. þm. nú, þar sem spurt er hve margar stöður í framhaldsskólum eru skipaðar kennurum með kennsluréttindi og hve margar réttindalausum kennurum miðað við a) full stöðugildi og b) fjölda kennara, þá skal fram tekið að skv. starfsmannaskrá ríkisins, útgefinni í nóvember 1984, en skráin fyrir 1985 er enn ekki komin út, eru sem næst 925 stöðugildi í framhaldsskólum. Þá eru ekki taldir með kennarar sem kenna við framhaldsdeildir grunnskóla. Þeir eru allir ráðnir við grunnskólann og geta kennt jöfnum höndum við grunnskóla sem framhaldsdeildir. Skv. athugun á menntun kennara við upphaf skólaárs 1985-1986 eru 588 kennarar með full réttindi eða því sem næst 64% kennara miðað við stöðugildi, en um getur verið að ræða smávegis frávik frá þessari tölu vegna þess að miðað er við stöðugildi í apríl 1984. Sé hins vegar litið á menntun kennara sem eru við kennslu nú og kenna sem svarar hálfri kennslu eða meira, en þarna er dregin línan við hálfa kennslu vegna þess að við höfum ekki nægar upplýsingar um þá sem kenna enn minna, en það eru 986 kennarar, þá hafa full réttindi til embættisgengis skv. lögum nr. 51/1978 rétt um 60% kennaranna. Þetta er nokkuð mismunandi eftir landshlutum. Best er ástandið í Reykjavík, á Reykjanesi og í Norðurlandi eystra. Algengast er að kennarana skorti próf í uppeldis- og kennslufræði, en nú stunda um 50 kennarar nám í þessum fræðum við Kennaraháskóla Íslands og munu ljúka prófi næsta vor og öðlast þá full kennsluréttindi og við Háskóla Íslands stundar álíka stór hópur kennara verklega hluta námsins í uppeldis-og kennslufræðum og hafa sótt fræðilega hluta námsins ýmist að vetrinum eða á sumarnámskeiðum. Ástandið fer því batnandi er varðar menntun kennara á framhaldsskólastigi.

Þá má geta þess að margir kennarar hafa mjög góða menntun í sérgreinum, en eru skráðir réttindalausir vegna þess að þá skortir uppeldis- og kennslufræði. Má í því sambandi til nefna tæknifræðinga, viðskiptafræðinga o.fl.