09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3577 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

336. mál, búnaðarmálasjóður

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil láta koma fram að é hef nokkrar efasemdir fram að færa vegna þessa frv. Íslenskur landbúnaður er í kreppu og það hefur hvergi nærri tekist að ná stjórn á framleiðslu landbúnaðarins. Bændur standa frammi fyrir alvarlegum vanda. Þeir standa margir mjög illa fjárhagslega og eiga þó eftir að standa miklu verr á þessu ári en þeir stóðu á því síðasta þar sem nú er verið að breyta til um greiðslukerfi. Menn fengu raunverulega á síðasta ári ekki bara greidda framleiðslu ársins 1985 heldur eftirstöðvar frá árinu 1984. Því verður ekki til að dreifa á árinu 1986 að menn fái til reiknings eftirstöðvar af vörum sem þegar er búið að greiða.

Bændur hafa örfá ráð til að bregðast við þessum vanda. Eitt er það að gæta hagsýni við búreksturinn í hvívetna og það reyna menn í auknum mæli. Eitt er það að reyna að búa meira að sínu og heimaafla búanna og skera niður óþarfa útgjaldaliði og spara sem mest. Og þá ekki síður að spara útgjöld svo sem eins og þetta. Ég held að samþykkt þessa frv. hljóti að vera alger bráðabirgðaráðstöfun. Við vinnum nú á Alþingi þessa dagana við að lögfesta uppstokkun á sjóðakerfi sjávarútvegsins. Ég held að það sé ákaflega brýnt að stokka einnig upp sjóðakerfi landbúnaðarins. Þetta kerfi er orðið til við allt aðrar aðstæður og byggt upp við allt aðrar aðstæður en nú er. Það eru ekki sömu áherslurnar sem eiga við í dag og áttu við fyrir 10-20 árum.

Það er sumt jákvætt við þessi sérbúgreinasambönd, en það er alls ekki allt jákvætt við þau því að þau geta nú orðið til þess að splundra bændastéttinni. Æskilegast væri að bændur gætu staðið saman og trúnaðarbrestur yrði ekki á milli búgreina eða milli bænda og forustu þeirra.

En ég vil sem sagt leggja áherslu á að ég held að það sé meginmálið að stokka upp sjóðakerfið og gæta ýtrustu sparsemi, skera það niður sem mögulegt er.