09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

336. mál, búnaðarmálasjóður

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er alveg sérstök ástæða til að þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir hans framlag til þessarar umræðu. Hann sýndi í ræðu sinni að hann er sjálfstætt hugsandi þm., þótt í þingflokki Framsfl. sé, og leyfir sér að hafa sjálfstæðar skoðanir, jafnvel á grundvallaratriðum, inni í því skoðanakúgunarapparati.

Hann vakti athygli á því hvert er grundvallaratriði þessa máls. Grundvallaratriðið og grundvallarreglan hlýtur að vera sú að hér er um að ræða innheimtu félagsgjalda í frjálsum félagasamtökum, sem svo eiga að heita, sem er algerlega mál þeirra einstaklinga sem í þessum samtökum eru að eigin vild. Þetta er ekkert málefni fyrir löggjafarsamkomu þjóðarinnar og það út í hött að leiða í lög einhverja heimild til valdsmanns eins og ráðherra til þess að innheimta þetta nauðugt eða viljugt af bændum og ólíkum hópum bænda og hagsmunasamtökum. Allt er þetta mál með slíkum endemum að það á ekkert erindi inn í þingsali. Þetta er ekkert löggjafaratriði, þetta er skoðunarkúgunarmál. Dæmigert framsóknarskoðunarkúgunarmál.

Í annan stað er hér önnur grundvallarregla og hún er auðvitað sú að það á ekki að heimila neina skattlagningu án þess að því fylgi um leið ótvírætt réttur til áhrifa á ráðstöfun fjár. Nú er því að vísu haldið fram að þessar heimildir verði ekki nýttar nema viðkomandi hópar hafi fallist á skattheimtuna en það er ekki öll sagan sögð með því. Það er ekki öll sagan sögð með því af þeirri einföldu ástæðu að það er talsvert mikið hagsmunamál fyrir hina ólíku hópa að vera ekki settir utangarðs í kerfinu. Hér er m.ö.o. verið að beita nákvæmlega sömu aðferðum og hefðbundin nýlendustjórn gerir í nýlendum sínum að deila og drottna. Mönnum er fyrst boðið ákveðið agn. Ef þið sættið ykkur við þessa skattlagningu eruð þið þar með raunverulega að kaupa ykkur inn í voldugt og áhrifamikið útdeilingarkerfi fjármagns. En ef þið hins vegar gerið það ekki geta menn spurt: Hvað þá? Það er því raunverulega verið að stilla mönnum upp við vegg og það er verið að beita skattlagningarvaldi sem á að vera Alþingis en ekki annarra og það er ákaflega ósmekkleg hótun á bak við.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur sjálfur rækilega gert grein fyrir tölugrundvellinum í þessu máli. Það vakti athygli manna þegar hann gerði samanburð annars vegar á samsvarandi skattlagningu innan sjávarútvegsins. Hann heldur því fram að hér sé um að ræða fertugfalda skattlagningu fyrir nú utan það að verið er að hækka þessar álagningar úr öllu hófi, um 200% og 400% að því er varðar t.d. alifuglarækt, svínarækt, fiskeldi og fiskirækt. Þetta er svo gjörsamlega hóflaust að það nær ekki nokkurri átt. Sér í lagi þegar því verður ekki haldið fram að þetta sé gert með eðlilegum hætti, þ.e. á bak við þetta eiga að vera raunverulega fjárhagslegar þvinganir. Þetta er svo sem eftir öðru með skattaæði þessa kerfis.

Það vakti athygli, landsathygli, þjóðarathygli, í byrjun vikunnar þegar hæstv. landbrh. ætlaði sér að standa við samkomulag sem ríkisstj. er nýbúin að gera við neytendur um lækkun á tollum á grænmeti en fylgdi því eftir í framkvæmd með því að leggja fram tillögur um 200% skattlagningu á innfluttum landbúnaðarafurðum með gífurlegum hækkunaráhrifum að því er varðar útgjöld neytenda. Þetta brýtur auðvitað í bága við þær grundvallarreglur sem menn voru að semja um, gengur þvert á yfirlýst markmið og vonir manna um það að ríkisstj. hafi af einhverri alvöru hugsað sér að standa við nýgerða kjarasamninga, reyna að ná einhverjum árangri í að komast út úr þeirri efnahagsóstjórn sem hér hefur ríkt á undanförnum árum, allt of lengi.

Herra forseti. Ég ítreka þá ósköp einfaldlega: Það er metnaðarmál og hlýtur að vera grundvallarregla, spurning um grundvallarsjónarmið fyrir þm., að stöðva þetta mál. Og af því að hv. þm. hafa komið upp með ákveðinn kattarþvott í málinu, kveinkað sér svolítið eins og t.d. hv. þingflokksformaður Framsfl. áðan og reyndar hv. þm. Pálmi Jónsson sem talaði um að það yrði að fara með varúð í þessu efni, vil ég biðja hann að skilgreina svolítið nánar þessa varúð sem hann var að mæla með. Hann mælir hér með samþykkt á heimildum til skattlagningar á bændur sem kalla á hækkun milli ára sem nemur mörgum hundruðum prósenta sem er úr öllu hófi samanborið við það sem tíðkast t.d. í sjávarútvegi. Hvar er varúð hv. þm. Pálma Jónssonar? Hvað telur hann raunverulega að sé hæfilegt? Hvernig stendur á því að hann stendur að slíkum málabúnaði eða treystir hann landbrh. Framsfl. svo gjörsamlega til þess að fara með skattlagningarvaldið að hann treysti því að varúðin verði látin stjórna þar, eða þekkir hann ekki annað af eigin reynd?