09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (3265)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta frv. kemur til afgreiðslu frá Ed. nú í aprílmánuði og er flutt, eins og menn rekur minni til, til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 20. sept. á s.l. hausti. Það gefur mér tilefni til að rifja upp að ef hér væru í gildi stjórnskipunarlög, sem voru hér til umræðu fyrir einum tveimur dögum, þá væru þessi brbl. nú þegar niður fallin. Þetta er enn eitt dæmið um heldur hvimleiða arfleifð frá öldinni sem leið um löggjafarvald ríkisstjórna. Ef þær tillögur sem ég nefndi áðan hefðu orðið að stjórnskipunarlögum gerðist það sjálfkrafa að það væri krafa um að efni brbl. væri kynnt fyrir fram í þingnefndum og í annan stað að hefðu þau ekki verið staðfest af meiri hluti Alþingis með formlegum hætti innan þriggja mánaða féllu þau niður. Þetta er að vísu formsatriði en engu að síður ástæða til að minna á það því að þetta er dæmi um tímaskekkju í störfum Alþingis.

Að öðru leyti vil ég aðeins nota tækifærið til að taka undir orð seinasta ræðumanns þegar hann vék að þessum tillöguflutningi og hins vegar ábyrgðarhlutverki fjmrh. gagnvart seinustu kjarasamningum. Þetta er að vísu gamalt mál en ég er engu að síður þeirrar skoðunar að hæstv. fjmrh. væri sæmst að taka þetta mál til baka og taka það til endurskoðunar í ljósi seinni atburða. Hann er helsti ábyrgðarmaður hæstv. ríkisstj. gagnvart því að reynt verði af hálfu ríkisvaldsins að standa við kjarasamninga og þau markmið sem þar voru sett. Þessi tillöguflutningur er í engu samræmi við það.

Í þessu samkomulagi, kjarasamningunum, var m.a. með umdeildum hætti farin sú leið að reyna að hafa áhrif til lækkunar á framfærsluvísitölu með verulegri niðurfærslu á tollum á bifreiðum. En um leið að flytja hér frv. sem felur í sér mjög íþyngjandi álagningu á notkun bifreiða, ekki síst flutningabíla, á sama tíma og skorin eru niður framlög til vegagerðar, þetta tvennt fer ekki saman. Ég árétta þess vegna fyrir hönd okkar jafnaðarmanna að við erum sömu skoðunar og fram kemur í nál. stjórnarandstöðunnar í Ed. Við erum andvígir þessari till. og leggjum því til að frv. verði fellt.

Þá vil ég að lokum minna á nýlega dómsuppkvaðningu í máli sem einhver af aðilum Landfara, samtaka flutningabifreiðaeigenda, fékk upp kveðinn fyrir skömmu þar sem niðurstaðan varð sú að þessi innheimta á þungasköttum stæðist ekki að lögum. Vegna formgalla, vegna þess að menn hefðu greitt þessa skatta fyrir löngu síðan án þess að hafa á fyrirvara um réttmæti þeirra, var ríkissjóður ekki dæmdur til endurgreiðslu þrátt fyrir þá niðurstöðu. Það er enn eitt dæmið um það hversu hæpna skattlagningu er hér verið að leggja til.