09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3590 í B-deild Alþingistíðinda. (3269)

338. mál, stjórnarskipunarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna athugasemda sem fram komu snemma í ræðu hv. 5. þm. Vestf. í sambandi við stuðning innan þingflokka við þriðja stjórnsýslustigið. Það kom fram hjá hv. þm. að innan Framsfl. hafa þessi mál að engu leyti verið gerð upp. Og raunar hafði hann þau orð um formann þingflokks Framsfl. að þessu leyti að eðlilegt er að eftir þeim verði tekið þar sem hann hefði tekið sér heils árs umhugsunarfrest vegna erindis frá byggðanefnd þingflokkanna. Raunar kom ekki skýrt fram hvað síðan hefði gerst því að rösklega ár er liðið frá því að þetta erindi var sent. En þm. gat ekki um að málið hefði fengið neina umfjöllun í þingflokki Framsfl., þetta erindi frá byggðanefnd þingflokkanna, svoleiðis að það virðist sem hv. þm. standi nokkuð einn í sínum þingflokki með þá skoðun sem er einn kjarninn í því frv. sem hann ber hér fram. Annað fáum við ekki skilið af hans málflutningi.

Hitt er mér jafnkunnugt og honum hygg ég vera, eða a.m.k. er mér vel kunnugt um að meðal stuðningsmanna Framsfl., manna sem hafa verið stuðningsmenn Framsfl. víða um landið, m.a. á Austurlandi, er að finna ríkan stuðning við þau sjónarmið sem þarna koma fram um þriðja stjórnsýslustigið. Og mig undrar vissulega hversu lítinn hljómgrunn þessi hugmynd hefur í þingflokki Framsfl. ef marka má þá algeru þögn, sem ríkt hefur um þetta efni þar, þrátt fyrir formleg tilmæli frá byggðanefnd þingflokkanna þar að lútandi.

Hvað snertir þingflokk Alþb. hef ég oftar en einu sinni gert grein fyrir því að fulltrúi þingflokksins í þessari byggðanefnd fékk jákvæðar undirtektir að meiri hluta til í þingflokki Alþb. varðandi hugmyndina um að hún yrði rædd og áfram um hana fjallað á þessum vettvangi og hygg ég að hv. nefndarmenn í þessari byggðanefnd kannist við það. Þar var vissulega ekki um að ræða að menn tækju formlega afstöðu til einstakra útfærsluþátta varðandi þriðja stjórnsýslustigið. Þar hafa menn ekki bundið sig að neinu leyti í þingflokki Alþb. um skiptingu í umdæmi eða héruð nema þær tillögur, sem ég hef staðið fyrir og fleiri undir tekið, að byggja þar að meginhluta til á núverandi kjördæmaskipan. Hitt hef ég heldur ekki farið neitt dult með og talið rétt að fram kæmi að það eru skiptar skoðanir innan Alþb. á þessum hugmyndum. Það eru skiptar skoðanir. Það eru til allákveðnir andstæðingar við hugmyndina um að efna til þriðja stjórnsýslustigs í landinu og þau sjónarmið hafa komið fram. Hins vegar hef ég tekið eftir því að hugmyndin á ríkan stuðning mjög víða einnig hér á þéttbýlissvæðinu og það í röðum sveitarstjórnarmanna hér á suðvesturhorni landsins sem hafa í mínum flokki tekið undir þessi sjónarmið. Ég vænti þess að frekari umræða á vettvangi míns flokks verði til þess að menn taki af skarið um þessi efni með jákvæðum hætti og sú umræða er í gangi á þeim vettvangi.

Hvað snertir viðhorf sjálfstæðismanna og þingflokks Sjálfstfl. til þessa frv. erum við nánast engu nær eftir að hafa hlýtt hér á mál hv. 2. þm. Reykn. nema að því leyti sem hann túlkaði sín viðhorf, en hann greindi ekkert frá því hvernig þetta mál stæði á vettvangi Sjálfstfl., ekki það ég heyrði. Ég held að ég hafi heyrt allan þann kafla ræðu hans, þar sem um þetta var fjallað, þannig að þar erum við enn í sömu óvissunni að þessu leyti. Ég heyrði að hv. þm. taldi hins vegar nauðsynlegt að skilyrða stuðning sinn við héraðaskipan í landinu við algera jöfnun kosningarréttar. Ég held að ég hafi skilið það rétt eða a.m.k. að þar hafi verið gengið mun lengra en gert var við breytingu kosningalaga nú nýverið. Þar eru vissulega skiptar skoðanir í öllum flokkum um það efni. Ég tel hins vegar að með þeirri breytingu sem þarna var lögfest jafnhliða því sem ákveðið var að fjölga þm. um þrjá, þá hafi verið gengið eins langt og nokkur sanngirni gat boðið, að mínu mati, með tilliti til annarra þátta í landinu sem hljóta að tengjast spurningunni um jöfnun atkvæðisréttar, jöfnun kosningarréttar í landinu. Og þar þótti mörgum sem til muna væri gengið of langt. Það var m.a. til að koma til móts við þau sjónarmið að ákveðið var að setja á laggirnar byggðanefnd þingflokkanna til að tryggja framgang fjölmargra réttlætismála varðandi landsbyggðina og hennar hag.

Ég bendi líka á að þó að vægi atkvæða í hinum einstöku kjördæmum landsins sé engan veginn jafnt eftir síðustu kosningalagabreytingu frekar en áður var, þá er með þeim reglum, sem þar voru lögfestar, gengið mjög langt í að tryggja jafnvægi milli flokka, jöfnun milli flokka, þannig að vægi atkvæða greitt einstökum flokkum endurspeglist í sætaskipan og fjölda kjörinna þm. til Alþingis. Það er þetta sem skiptir verulegu máli. Einnig liggur það fyrir í sambandi við jöfnun atkvæðisréttar milli kjördæma að þá var gengið í reynd lengra en upphafleg samþykkt gerði ráð fyrir, þ.e. að svipuð leiðrétting næðist, svo við notum það hugtak um þessa breytingu, og gerð var 1959 þegar breyting var gerð til jöfnunar á þessum þætti. Ég hygg að kosningalagabreytingin hafi skilað heldur meira til suðvesturhorns landsins heldur en gerðist með kosningalagabreytingunni 1959.

Ég ítreka að það er margt annað sem skiptir margföldu máli þegar litið er á þessi efni heldur en vægi atkvæða eitt sér í einstökum kjördæmum og það er einmitt um það efni sem við erum að ræða hér í sambandi við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Til þess að tryggja valddreifingu og aukinn jöfnuð meðal þegnanna og að reyna að ná því markmiði að tryggja búsetu um allt land og bæta úr þeirri geigvænlegu röskun sem orðið hefur og við höfum verið að ræða í tengslum við þetta frv.

Herra forseti. Það stendur eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram að það eru núverandi stjórnarflokkar og þar á meðal stærsti flokkur landsins, Sjálfstfl., sem ekki hafa léð þessu máli stuðning, hugmyndinni um þriðja stjórnsýslustigið. Framsfl. að því er tekur til þingflokksins hefur ekki einu sinni fyrir að ræða þetta á sínum vettvangi. Og fyrir liggur að félmrh. flokksins í ríkisstj., sem nú gengur í salinn, hefur marglýst því yfir hér úr ræðustól að hann sé andvígur hugmyndinni um þriðja stjórnsýslustig. Þannig er alveg ljóst að gagnvart þessu er rík andstaða í núverandi stjórnarflokkum og greinilegt að það vantar mikið á að hjá valdastofnunum þessara flokka sé meiri hluti sem styðji þessa hugmynd, því miður. Þess vegna horfir ekki ýkja vel eins og mál liggja nú í þinginu og styrkur flokka. Þó að þetta sé engan veginn háð þingflokkum einvörðungu liggur fyrir að það vantar talsvert á að þetta mál hafi þann byr sem ég hefði kosið.

Ætla ég síðan ekki að orðlengja þetta frekar, herra forseti.