09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3598 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

397. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta frv. er mjög einfalt, skýrt. Efni þess er að ef fiskiskip eru smíðuð hér á landi skuli lán úr Fiskveiðasjóði til þeirra nema allt að 75% kostnaðar eða matsverðs. Jafnframt er kveðið á um að lán til skipa sem smíðuð eru erlendis skuli vera a.m.k. 15% lægri þannig að ef lán til skipa sem smíðuð eru erlendis eru 60% kostnaðarverðs eða matsverðs, þá sé skuldbindandi lán til skipasmíða hér á landi 75%.

Ástæðan fyrir því að frv. er flutt er sú að í lögum Fiskveiðasjóðs nú er gert ráð fyrir því að þessi munur sé að vísu nokkru minni. Þar er gert ráð fyrir því að lán til skipa smíðaðra erlendis sé 66,5%, en lán til skipa smíðaðra hér á landi allt að 75% . Með reglugerð sem hæstv. sjútvrh. setti fyrir skömmu er þessi munur minnkaður niður í 5%. Þar er gert ráð fyrir því að lána allt að 60% til skipa smíðaðra erlendis, en 65% til skipa smíðaðra hér á landi. Ég tel að hæstv. sjútvrh. hafi með þessari reglugerð þrengt kosti íslensks skipasmíðaiðnaðar meira en hægt er að sitja undir og tel óhjákvæmilegt að löggjafinn grípi inn í og taki af skarið um að við ætlumst til þess að Fiskveiðasjóður, stofnlánasjóður sjávarútvegsins, veiti hærri stofnlán til þeirra skipa sem smíðuð eru hér á landi. Þetta er líka í samræmi við yfirlýstar samþykktir frá Alþingi sem ég þarf ekki að rekja.

Ég vil þessu til rökstuðnings aðeins minna á að sú mikla verkþekking sem nú er í skipasmíðaiðnaðinum mun mjög fljótlega týnast eða hverfa ef langur dráttur verður á skipasmíðunum. Það er þegar komið í ljós að ýmsar skipasmíðastöðvanna standa höllum fæti vegna verkefnaskorts og vegna þess að þeim hefur ekki verið tryggður viðunandi starfsgrundvöllur sem skyldi. Á sama tíma blasir við að erlendar skipasmíðastöðvar njóta opinberra styrkja leynt og ljóst. Það er lítil gamansaga að þegar stjórnmálamenn í Nova Scotia fréttu að það ætti að fara með skuttogara hingað til Íslands, til Akureyrar, til þess að lengja þá og kassavæða, hófu þeir atkvæðasókn fyrir því að settur yrði 20% verndartollur á þessar viðgerðir í Kanada til að mæta þeim niðurgreiðslum sem íslenskur skipasmíðaiðnaður hér á landi nyti sem að sjálfsögðu eru engar. En það sýnir hvernig menn í öðrum löndum meta þessa hluti. Þeir eru ófeimnir við að setja á verndartolla til að verja sinn iðnað.

Ég vil að það komi fram að talsmenn skipasmíðaiðnaðarins hafa ekki farið fram á að þeir fái vernd með þeim hætti að sérstakur verndartollur verði settur á skip smíðuð erlendis þó að fyrir liggi og vitað sé að skipasmíðar þar séu niðurgreiddar, njóta opinberra styrkja. Það er ekki verið að tala um það í þessu frv. Það er eingöngu verið að tala um að stofnlán Fiskveiðasjóðs séu eilítið hærri vegna fiskiskipa smíðaðra hér á landi til þess að rétta hlut skipasmíðastöðvanna eilítið með þessum hætti og hjálpa þeim í hinni miskunnarlausu samkeppni sem þær eiga í. Ég þarf ekki að segja þingheimi hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir skipastólinn, fyrir kostnaðinn við rekstur fiskiskipa hér á landi ef skipasmíðaiðnaðurinn legðist niður eða yrði fyrir verulegum áföllum. Þá mundi allt viðhald og viðgerðir fiskiskipa stórlega hækka með mjög alvarlegu tjóni fyrir þjóðfélagið í heild.

Að síðustu vil ég aðeins minna á að fyrirsjáanlegt er að hefjast verður handa um endurnýjun fiskiskipastólsins. Það liggur þegar fyrir að fara þarf út í mjög fjárfrekar endurbætur á stórum hluta togaraflotans, það er talað um tölur eins og 100 millj. og jafnvel hærri tölur, jafnvel allt upp í 130 millj. í sambandi við þær endurbætur, og önnur skip eru að úreldast þannig að það er að koma að því að opna verður fyrir það að leyfa skipasmíðar á nýjan leik.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. Málefni Fiskveiðasjóðs voru í þeirri nefnd á síðasta Alþingi og ég tel eðlilegt að svo verði áfram.

Umr. (atkvgr.) frestað.