10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3599 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

Minnst látins fyrrv. alþingismanns

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Andrés Eyjólfsson fyrrum alþm. og bóndi í Síðumúla í Hvítársíðu andaðist í gær í sjúkrahúsinu á Akranesi í hárri elli. Hann náði hæstum aldri þeirra manna, sem setið hafa á Alþingi, skorti 7 vikur í tírætt.

Andrés Eyjólfsson var fæddur á Kirkjubóli í Hvítársíðu 27. maí 1886. Foreldrar hans voru Eyjólfur bóndi þar Andrésson bónda í Núpstúni í Hrunamannahreppi, síðar í Syðra-Langholti Magnússonar og konu hans, Guðrúnar Brynjólfsdóttur bónda og hreppstjóra að Selalæk á Rangárvöllum Stefánssonar. Hann lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri vorið 1911 og var í vinnumennsku til 1912 er hann hóf búskap í Síðumúla. Þar var hann bóndi til 1957, átti þar síðan heimili til æviloka.

Andrés í Síðumúla gegndi margs konar trúnaðarstörfum jafnframt búskap. Hann var hreppsnefndarmaður frá 1913 og oddviti hreppsnefndar 1925-1966, í sóknarnefnd Síðumúlasóknar 1912-1967, lengst af formaður. Hann var í skólanefnd Hvítárbakkaskóla 1920-1931, formaður skólanefndar Reykholtsskóla 1930-1962 og í byggingarnefnd barnaskóla Mýrasýslu að Varmalandi 1951-1954. Hann var stöðvarstjóri Landssíma Íslands í Síðumúla 1921-1965. Formaður eftirlitsnefndar opinberra sjóða var hann 1935-1959 og átti sæti í nefnd við samningu frv. um eyðingu refa og minka 1956. Hann var þingskrifari á Alþingi 1921-1924 og 1928-1935 og skjalavörður Alþingis 1935-1951. Sumarið 1951 var hann í kjöri fyrir Framsóknarflokkinn í aukakosningum til Alþingis í Mýrasýslu. Hlaut hann kosningu og sat á Alþingi til 1956, á fimm þingum alls.

Andrés Eyjólfsson átti heimili í Hvítársíðu ævilangt, bjó lengi stórbúi í Síðumúla, en gaf þó kost á sér til tímafrekra starfa innan héraðs og utan, svo sem æviferill hans, sem hér hefur verið rakinn, sýnir ljóslega. Hann var höfðingi í héraði og rækti með vandvirkni og gjörhygli hvert það starf sem honum var falið. Innan veggja þessa húss starfaði hann vel og lengi, lengst sem skjalavörður, en lauk störfum sínum hér með setu í þingsölum fram til sjötugs. Var hann þá öllum málum hér gjörkunnugur og því vel búinn undir þingmannsstörf.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Andrésar Eyjólfssonar með því að rísa úr sætum. - [Þingmenn risu úr sætum. ]