10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3605 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

7. mál, skipulag svæðisins umhverfis Gullfoss og Geysi

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins fá að bæta við örfáum orðum. Sú upphaflega tillaga sem er verið að fjalla um í nokkuð breyttri mynd fjallaði um það að komið yrði á fót þjóðgarði sem næði til bæði Gullfoss og Geysis. Það varð fljótlega ljóst við umræður í nefndinni að ekki mundi unnt að ná samstöðu um þá hugmynd þó að það væri auðvitað skynsamlegast að gera þetta að þjóðgarði. Sömuleiðis kom í ljós að það mundu verða ýmsir örðugleikar á því að gera það a.m.k. á skömmum tíma. Það mundi taka alllangan tíma og það þótti ekki fært og var ljóst að um það yrði ekki náð samkomulagi.

Hins vegar tel ég það skipta afar miklu máli að það skuli hafa náðst samkomulag í hv. allshn. um þessa brtt. þannig að tryggt sé að þetta svæði verði skipulagt og í öðru lagi, sem skiptir ekki minna máli, að tryggt sé að þarna verði engin skipulagsleg slys eða skipulagsleg skemmdarverk unnin eins og ýmislegt benti þó til, og raunar kannske meira en benti til, að væri á döfinni. Þess vegna lýsi ég því yfir, eins og kemur raunar fram í þessu nál., að ég get mjög vel sem 1. flm. hinnar upphaflegu tillögu fellt mig við að hún verði samþykkt með þessari breytingu.