10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3606 í B-deild Alþingistíðinda. (3288)

403. mál, réttur launafólks til námsleyfa

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. A þskj. 747 hef ég flutt till. til þál. um rétt launafólks til námsleyfa. Tilgangurinn með flutningi þessarar till. er fyrst og fremst sá að fyrir Alþingi liggi hugmyndir um þessi efni en þær hafa þegar verið um alllangt skeið til meðferðar og umræðu í samtökum launafólks hér á landi. Till. er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja frv. til laga um rétt launafólks til námsleyfa. Í frv. verði miðað við að launafólk geti reglulega fengið rétt til námsleyfa vegna verkmenntunar, þjálfunar, almenns náms eða endurmenntunar. Í frv. skal einnig gera ráð fyrir stofnun sjóðs í þessu skyni til þess að standa undir kostnaði við námið sjálft og til þess að bæta upp launatap meðan á námsleyfi stendur.

Í nefndinni verði fulltrúar frá aðilum sem hlut eiga að máli, þar á meðal Menningar- og fræðslusambandi alþýðu fyrir hönd Alþýðusambands Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og atvinnurekendum eða samtökum þeirra.“

Í grg. segir m.a. á þessa leið:

„Hér er flutt tillaga um rétt launafólks til námsleyfa. Hér er um að ræða mál sem verkalýðssamtökin hafa þegar látið til sín taka eins og fram kemur í meðfylgjandi fskj. með grg. þessari. Skyld mál hafa áður verið flutt á Alþingi en hafa ekki náð fram að ganga. Hér er málið lagt fram seint á þinginu til þess að skapa umræður sem eru óhjákvæmilegur aðdragandi lagasetningar og kjarasamninga um þau efni sem hér er bryddað upp á.

Nokkur verkalýðsfélög hafa þegar tryggt félagsmönnum sínum rétt á borð við þann sem hér er gerð tillaga um. Í því sambandi má nefna Einingu á Akureyri, Rafiðnaðarsamband Íslands, starfsmenn í álverinu og rétt trúnaðarmanna til einnar viku leyfis á ári hverju. Þannig liggur þegar fyrir viðurkenning á þessari almennu þörf endurmenntunar og þjálfunar af hálfu atvinnurekenda ekki síður en launafólks.

Í tillögunni er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að eingöngu verði miðað við endurmenntun í viðkomandi grein heldur einnig almennt nám svo og félagslega þjálfun.

Bent er á nauðsyn þess í tillögunni að stofna sjóð til þess að standa undir kostnaði í þessu skyni. Það er óhjákvæmilegt vegna þess hve stór hluti fyrirtækja hér á landi er smár í sniðum. Því verður ekki tryggður réttur fólks með því að ætla einstökum fyrirtækjum að ráða fram úr verkefninu. Í samþykkt miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um þessi mál er gert ráð fyrir því að slíkur sjóður verði fjármagnaður með 0,15% af öllum launum starfsmanna í þjónustu atvinnurekenda og með framlagi úr ríkissjóði er verði jafnhátt framlagi atvinnurekenda.“

Með till. þessari og grg. eru birt þrjú fylgiskjöl. Það er í fyrsta lagi samþykkt sambandsstjórnar Alþýðusambands Íslands um launað námsfrí frá 16. okt. 1985. Í öðru lagi eru birtir kaflar úr útvarpserindi eftir Tryggva Þór Aðalsteinsson, starfsmann Menningar- og fræðslusambands alþýðu, sem ber yfirskriftina Fullorðinsfræðsla frá sjónarhóli launafólks. Og í þriðja lagi er birt fylgiskjal III sem ber yfirskriftina Starfsmenntun fullorðinna og er eftir Snorra S. Konráðsson sem einnig er starfsmaður Menningar- og fræðslusambands alþýðu en sá texti er að stofni til erindi sem hann flutti á sambandsstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands 16. okt. 1985 þar sem um þessi mál var fjallað.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa hér samþykkt sambandsstjórnar Alþýðusambands Íslands um þessi mál frá því í okt. 1985. Textinn er á þessa leið:

„Á 35. þingi ASÍ í nóv. 1984 var gerð eftirfarandi samþykkt:

„35. þing Alþýðusambands Íslands samþykkir að fela miðstjórn að kjósa þriggja manna nefnd sem gerir tillögu um stefnu Alþýðusambands Íslands varðandi rétt verkafólks til að sækja námskeið og aðra fræðslu án skerðingar launa. Nefndin skal skila áliti til miðstjórnar eigi síðar en 1. okt. 1985.“

Till. fylgdi eftirfarandi greinargerð:

„Á liðnum árum hefur þörf verkafólks fyrir fræðslu af ýmsu tagi aukist. Á það ekki síst við um fræðslu er snertir störf þess, auk fræðslu um réttindi þess, skyldur og félagsmál verkalýðssamtakanna. Ein hindrun þess að fræðsla af þessu tagi geti verið jafnöflug og nauðsyn krefur er að verkafólk á ekki rétt á því að hverfa frá vinnu vegna náms nema að afar takmörkuðu leyti. Því síður getur fólk af fjárhagsástæðum leyft sér að hverfa frá vinnu kauplaust í þeim tilgangi að afla sér þekkingar og menntunar.

Á þessu er þörf breytinga þannig að réttindi launafólks í þessu sambandi verði tryggð. Í því efni er nauðsynlegt að kanna mörg atriði. Þar á meðal með hvaða hætti slík réttindi eru í öðrum löndum, hvort tengja skuli slík réttindi starfstíma fólks, hvort fræðslusjóður launafólks, sem myndaður verði með framlagi launafólks og atvinnurekenda, sé heppileg leið, svo nokkur atriði séu nefnd sem nefndin athugi og móti tillögur um. Í slíkri stefnumótun þarf enn fremur að koma fram hvaða leiðir séu líklegastar til þess að settu marki í þessu efni verði náð.

Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum sínum til miðstjórnar ASÍ eigi síðar en 1. okt. 1985. Þannig er unnt að taka tillögur nefndarinnar til umfjöllunar og afgreiðslu á fundi sambandsstjórnar ASÍ fyrir árslok 1985.“"

Á fundi miðstjórnar Alþýðusambandsins 14. febr. 1985 var samþykkt að skipa í nefnd í þessu skyni. Í nefndinni áttu sæti Tryggvi Þór Aðalsteinsson, Kristín Hjálmarsdóttir og Magnús Geirsson. Nefndin lagði fram við miðstjórn Alþýðusambands Íslands eftirfarandi tillögu varðandi stefnu Alþýðusambandsins um rétt verkafólks til námsfrís án launataps:

„1. Allir, sem starfað hafa í sömu starfsgrein í a.m.k. tvö ár og eru orðnir 18 ára, skulu eiga rétt á námsfríi ailt að fjórar vikur á hverju tveggja ára tímabili.

Ef námsfrí er tekið vegna starfsþjálfunar eða til félagslegrar menntunar á vegum verkalýðssamtaka fellur niður fyrrgreint skilyrði um starfstíma.

2. Réttur til námsfrís nær til almennrar menntunar, starfsþjálfunar og endurmenntunar vegna starfs, svo og félagslegrar menntunar á vegum verkalýðssamtaka, m.a. í þágu trúnaðarstarfa á vegum stéttarfélaga.

3. Tilkynna skal um töku námsfrís með a.m.k. sex vikna fyrirvara. Þó ekki ef námsfrí er 40 stundir eða styttra, þá nægir einnar viku fyrirvari.

4. Starfsmenn, sem taka námsfrí, skulu halda áunnum réttindum, enda skal námsfrí metið til jafns við vinnutíma.

5. Til greiðslu launataps skal settur á stofn fræðslusjóður launafólks. Tekjur sjóðsins eru: a) framlag atvinnurekenda sem reiknast 0,15% af öllum launum starfsmanna í þjónustu hans sem eru í stéttarfélögum innan ASÍ, b) framlag ríkissjóðs sem verði jafnhátt og framlag atvinnurekanda.

6. Um fræðslusjóð þarf að setja sérstakar reglur þar sem kveðið verði á um eftirfarandi atriði m.a.: Stjórn sjóðsins (kveða þarf á um ótvíræð yfirráð verkalýðssamtakanna). Fyrirkomulag greiðslna í námsfríi. Skilgreina þarf nánar þá fræðslu (tegund námskeiða) sem sjóðurinn tekur til. Loks þarf að skilgreina nánar hvað sjóðurinn greiðir annað en vinnutap. Þar er m.a. átt við kostnað vegna námskeiða, eins og kennslulaun, námsgögn, húsaleigu og stjórnun. Þátttökugjöld.“

Hér var vitnað til samþykktar sambandsstjórnar ASÍ 16. okt. 1985.

Mér er það ljóst, herra forseti, að hér er ekki um að ræða mál sem hægt er að ætlast til með neinni sanngirni að þingið afgreiði á örfáum dögum. Hér er um að ræða viðamikið og flókið mál sem mikilvægt er að við gefum okkur tíma til að skoða vandlega. Ég held að það sé eitt brýnasta verkefni þingsins á þessu ári og komandi árum að skapa aðstæður til þess að fólk, sem af einhverjum ástæðum hefur útilokast frá námi fyrr á lífsleiðinni eða á ungum aldri, geti gengið til náms á ný, annaðhvort með takmörkuðum hætti eins og hér er gert ráð fyrir eða með almennum hætti í hinu almenna skólakerfi.

Þessi tillaga er lögð hér fram, herra forseti, sem umræðugrundvöllur um þessi mál af minni hálfu. Vafalaust má margt í henni bæta en ég held að það sé æskilegt að þingið geri sér grein fyrir því hversu mikilvægt verkefni er hér á ferðinni.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. félmn.