10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3613 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 2. landsk. þm. fyrir þá grg. sem hún flutti hér fyrir þessari till. á þskj. 759. Það er þörf á því að ræða þessi mál og þessar hugmyndir um kaupleiguíbúðir hafa verið til umræðu hér um margra ára skeið. Segja má að við höfum hér verið með félagslegt kerfi sem hafi nálgast kaupleiguíbúðir að nokkru leyti þar sem verkamannabústaðirnir eru. Það má líka segja að umræðan um húsnæðissamvinnufélögin sé sprottin upp úr þörfinni fyrir nýjar hugmyndir í þessu efni, m.a. um kaupleiguíbúðir.

Ég minni á það, herra forseti, að það liggja fyrir fyrirheit frá hæstv. ríkisstj. um það að hér verði lagt fram núna næstu daga stjfrv. um húsnæðismál sem verði byggt á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Ég vil láta það koma hér fram af minni hálfu að ég teldi það bein svik við það samkomulag ef það frv. kæmi ekki hér inn og yrði afgreitt með þeim hætti sem kveðið er á um í því samkomulagi sem ASÍ, VSÍ og Vinnumálasamband samvinnufélaganna gerðu fyrir nokkrum vikum. Hins vegar bólar ekkert á þessu frv. enn þá af einhverjum ástæðum. Það er því bersýnilegt að samkvæmt ákvæðum hinna nýju þingskapa eru líkur til þess að þetta mál verði að taka hér inn með afbrigðum.

En það er brýnt að við höfum auga á því og það liggi fyrir hjá öllum aðilum að þessu þingi getur ekki lokið án þess að á þessum málum verði tekið í samræmi við þá samninga sem gerðir voru um húsnæðismál á vegum aðila vinnumarkaðarins. Þar er um að ræða mjög róttæka breytingu á almenna húsnæðislánakerfinu. Þar er bent á ýmsar leiðir til fjármögnunar á þeirri breytingu, leiðir sem hafa ekki verið taldar færar til þessa en gætu orðið færar nú ef vel tekst til.

Vegna þess að ég tek þessari till. auðvitað alvarlega, sem er flutt hér af heilum þingflokki, vildi ég inna eftir nokkrum atriðum varðandi hana eftir að hafa farið yfir þetta núna undir ræðu hv. þm.

Það er þá fyrst það að hérna er gert ráð fyrir því að byggðar verði 6000 leiguíbúðir á næstu tíu árum í samráði við sveitarfélög eða hagsmunasamtök eða félagasamtök. Það þýðir 600 íbúðir á ári. Í þeim áætlunum, sem verið er að gera fyrir Byggingarsjóð ríkisins núna, er gert ráð fyrir að byggðar verði 1300-1600 íbúðir á ári. Við skulum halda okkur við töluna 1500. Ef farið yrði eftir ákvæðum þessarar till. yrðu íbúðabyggingar í einkaeign skornar niður úr u.þ.b. 1500 í u.þ.b. 900 - eins og þessi till. lítur út - vegna þess að gert er ráð fyrir 600 kaupleiguíbúðum á ári sem yrðu dregnar frá lánveitingum til almennra íbúðabygginga á sama tíma.

Ég er ekki að segja að við eigum að vera í þeim stellingum að ekkert komi hér annað til greina en einkahúsnæði og ég tek algjörlega undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. í þeim efnum. Þar verðum við að sýna miklu meiri sveigjanleika en verið hefur. En spurningin er hvort það er ætlun flm. að hér verði beinlínis um að ræða þennan niðurskurð á almennu íbúðarhúsnæði í svokallaðri einkaeign sem till. bendir til.

Það kann að vera að það sé skynsamlegt að við komumst að þeirri niðurstöðu við tækifæri að þriðjungur íbúða eigi að vera í einkaeign, þriðjungur eigi að vera á kaupleigugrundvelli og þriðjungur eigi að vera í verkamannabústöðunum. Það væri þá alveg ný stefnumótun. Stefnumótun Alþingis, sem liggur fyrir í húsnæðislögunum, er sú að 2/3 u.þ.b. skuli vera í svokallaðri einkaeign og 1/3 í félagslegri eigu eða byggður á vegum Byggingarsjóðs verkamanna.

Ég bið hv. 1. flm. ekki að taka þessi orð mín þannig að ég sé að gera neina tilraun til að snúa út úr einu eða neinu, ég er að spyrja hv. þm. um það hvernig flm. hugsa sér sérstaklega þetta atriði.

Það er rétt að á undanförnum árum hefur verið byggt of lítið af verkamannabústöðum en þar er hins vegar um að ræða geysilega breytingu frá því sem var skv. lögunum frá 1980. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að gera okkur ljóst að frá árinu 1982 til ársins 1985 höfum við byggt 813 íbúðir í verkamannabústaðakerfinu hér í landinu. Það er íbúðafjöldi sem munar um.

Auðvitað er það ljóst að við þurfum að endurbæta og laga stöðugt verkamannabústaðakerfið og sérstaklega þurfum við að íhuga hvernig við aðlögum verkamannabústaðakerfið hinu nýja íbúðalánakerfi sem á að taka upp núna samkvæmt samningum aðila vinnumarkaðarins. Þar verður vafalaust um ýmis sambúðarvandamál að ræða sem þarf að skoða rækilega. En við verðum að gera okkur ljóst að þarna hefur verið um að ræða átak sem hefur skilað hátt í þúsund íbúðum frá því að lögin voru sett 1980. Við þurfum umfram allt að reyna að verja þetta átak, halda utan um það, þannig að engin tilraun verði gerð til þess í kjölfar nýs almenns húsnæðislánakerfis að brjóta niður félagslega íbúðarbyggingakerfið.

Ég vil loks inna hv. þm. eftir því - eða flm. sem eru nú fleiri hér í salnum - hvort það er ætlunin að flytja efni þessarar till. sem brtt. við það frv. sem hugsanlega kann að koma fram um húsnæðismál eftir nokkra daga.