10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3616 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það vakti athygli mína að hv. 2. landsk. þm., Jóhanna Sigurðardóttir, er í grundvallaratriðum ósammála því samkomulagi sem gert var milli aðila vinnumarkaðarins nú fyrir skömmu, þar sem þeir leggja áherslu á að aukin verðbréfakaup lífeyrissjóðanna hjá Byggingarsjóði ríkisins renni í þann sjóð og að lánsréttur viðkomandi tengist þeim lífeyrisrétti sem viðkomandi á í viðkomandi lífeyrissjóði. Það er forsendan fyrir hinum auknu verðbréfakaupum lífeyrissjóðanna og ég held að það væri mjög hættulegt fyrir framgang málsins ef Alþingi ætlaði nú á þessu stigi að brjóta það samkomulag niður og hafa að engu það víðtæka samkomulag sem skapaðist um úrlausn í húsnæðismálum í tengslum við síðustu kjarasamninga.

Ég vil jafnframt segja það sem mína skoðun að ég get ekki fallist á það að almennum lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins fækki. Það þýðir í raun og veru að fólk verði nauðbeygt til þess að fara inn á þann markað sem takmarkast af lánveitingum lífeyrissjóðs verkamanna. Það er í fullu ósamræmi við samkomulagið sem varð milli aðila vinnumarkaðarins fyrir skömmu og hefur þar að auki þann annmarka að það mundi stórkostlega auka á skuldbindingar ríkissjóðs ef það yrði almenn regla að lánveitingar til íbúðarhúsa hér á landi yrðu miðaðar við 80%.

Þessa dagana er verið að reikna það út af samstarfsnefnd ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins hvaða greiðslubyrði það hefur í för með sér fyrir ríkissjóð að reyna að standa við samkomulagið eins og það liggur fyrir og ég hygg að það sé samdóma álit þeirra, sem þá reikninga hafa séð, að ógjörningur er að búast við því að ríkið geti tekið á sig þyngri pinkla en þar er gert ráð fyrir.

Hins vegar vil ég nota þetta tækifæri til þess að leggja áherslu á að ég tel að hið félagslega íbúðarkerfi eigi að sinna meira en gert hefur verið vernduðum þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Ég held að það sé orðið mjög brýnt. Mér er kunnugt um það að sjómannadagsráð vegna Hrafnistu og ýmsir aðrir aðilar eiga í erfiðleikum nú að svara þeirri eftirspurn sem er eftir vernduðum þjónustuíbúðum. Ég tel að það sé kannske eitthvert brýnasta verkefnið í félagslega kerfinu að reyna að hlaupa par undir bagga og auðvelda byggingu slíkra íbúða. Ég held að ekki sé nauðsynlegt að þau lán yrðu jafnlöng og endranær í félagslega kerfinu. Það er mjög mismunandi hvernig stendur á hjá hinu aldraða fólki, sumt af því getur eða vill búa í íbúðum sem eru skuldlausar. Þetta veltur á ýmsu. Þessar íbúðir ganga kaupum og sölum. Þannig að ég álít að vel kæmi til greina að veita tvenns konar fyrirgreiðslu, annars vegar fyrirgreiðslu vegna verndaðra þjónustuíbúða, sem yrðu í eigu í þessu tilviki sjómannadagsráðs eða Hrafnistu, og hins vegar skammtímafyrirgreiðslu fyrir aldrað fólk annað sem er reiðubúið til þess að leggja sjálft fram fé til þess að skapa sér öryggi í ellinni. Ég held að þetta sé mikið íhugunarefni og að rétt sé að athuga um hvort hægt sé að ná samkomulagi um þennan þátt málsins hér í þinginu sem ekki tengist þá því samkomulagi sem gert var milli aðila vinnumarkaðarins.

Á hinn bóginn skil ég það að þm. sem hafa borið Búseta fyrir brjósti skuli eiga erfitt með að sætta sig við samkomulagið sem varð á vinnumarkaðnum. Það er allt annað mái. En eins og málið liggur nú fyrir er öldungis ljóst að fulltrúar Alþýðusambandsins, sem hafa átt í viðræðum við ríkisstj., vilja sem minnst hvika frá samkomulaginu og vilja eftir því sem hægt er að Alþingi staðfesti það þegar öll kurl eru komin til grafar og við höfum áttað okkur á því hvernig ríkissjóður getur staðið að því samkomulagi.

Það er auðvitað afskaplega fallegt og elskulegt að segja það að úr opinberum sjóðum eigi að lána 80% af byggingarkostnaði til 40 ára - til allra íbúða eða sem flestra íbúða. Spurningin er einungis þessi: Hvar á að taka allt þetta fé og hver á að standa undir vaxtamuninum? Ég vil af þessu tilefni alveg sérstaklega spyrja þennan hv. þm. hvað hann telji að vaxtamunurinn sé mikill, eins og hann hugsar sér það, hver sé kostnaðaraukinn fyrir ríkissjóð að fara eftir þeim till., sem hann leggur hér til, eða að farið sé eftir samkomulaginu eins og aðilar vinnumarkaðarins gerðu það.