10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3618 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Fyrst varðandi orð síðasta ræðumanns, þá er í till. gert ráð fyrir að annaðhvort geti verið um að ræða byggingu eða kaup, þannig að þetta þyrfti ekki endilega að vera stóraukin viðbót við það sem áætlað er að byggja. Mér finnst hv. þm. enn misskilja það sem ég var að reyna að segja hér áðan. Ég lít svo á að íbúðir sem eru byggðar gegnum lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins teljist íbúðir sem eru byggðar á hinum almenna markaði, þannig að hérna er ekki verið að gera ráð fyrir fækkun úr hinum almenna Byggingarsjóði ríkisins.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal reynir að misskilja það sem sagt er héðan úr þessum ræðustól, hvort sem það er vísvitandi eða ekki. Hann telur að með þessari till, sé verið að reyna að brjóta upp það samkomulag sem gert var í nýgerðum kjarasamningum. Þetta er auðvitað hreinn misskilningur. Ég trúi ekki öðru en að verkalýðshreyfingin fagni því ef til kemur nýr valkostur í félagslegum íbúðarbyggingum. Og að því er varðar 80% lán, eins og hér er gert ráð fyrir, þá er ekki gert ráð fyrir því að slík lán renni beint til einstaklinga heldur til sveitarfélaga sem mundu standa fyrir slíkum framkvæmdum og væru framkvæmdaaðilar að þessum kaupleiguíbúðum. Ég bendi hv. þm. á að það er þegar til staðar. (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti, - að það er þegar til staðar ákvæði í húsnæðislöggjöfinni í Byggingarsjóði ríkisins sem heimilar að lána sveitarfélögum 80% til byggingar leiguíbúða.

Að því er vaxtamismuninn varðar þá er það mál sem ber að hafa töluverðar áhyggjur af. Eftir því sem næst verður komist er í þessum nýgerðu kjarasamningum gert ráð fyrir mjög miklu auknu fjármagni frá lífeyrissjóðunum til húsnæðiskerfisins sem þarf að greiða niður. Þar skapast mjög mikill vaxtamismunur. Ég held að hv. þm. ætti að svara því sjálfur hvernig hann hefur hugsað sér að greiða niður þann vaxtamismun sem mun skapast með stórauknu fjármagni úr lífeyrissjóðunum yfir til húsnæðissjóðanna. Það sem hér er gert ráð fyrir er lán með 1% vöxtum úr Byggingarsjóði verkamanna. Það er það sama og er nú til staðar. Og að því er varðar Byggingarsjóð ríkisins er líka um 3,5% að ræða, sem er það sama og þegar er til staðar, þannig að þar er ekki um neina breytingu að ræða.