17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Stefnuræðu þeirri, sem ég nú flyt, var eins og lög gera ráð fyrir dreift til þm. með viku fyrirvara; henni var dreift sem trúnaðarmáli. Engu að síður hafa birst úr henni glefsur í dagblöðum. Mér er ljóst að langflestum er treystandi fyrir slíku máli, en þykir ákaflega leitt að það er ekki unnt að segja um alla og slæmt er ef hverfa verður frá þeim sið að dreifa ræðunni fyrir fundinn.

Í þjóðhagsáætlun þeirri, sem lögð hefur verið fram á Alþingi, er kynnt áætlun ríkisstj. í efnahagsmálum fyrir árin 1986 og 1987 ásamt horfum 1988. Það er nýbreytni og er gert í þeirri von að þannig megi skapa ramma um efnahagsþróun til lengri tíma en gert hefur verið áður. Fjölmörg atriði efnahags- og atvinnumála eru þess eðlis að sá árangur sem að er stefnt næst ekki á einu til tveimur árum; áætlun til lengri tíma er því mikilvæg. Þessi áætlun markar einnig kaflaskil í starfi stjórnarinnar. Í upphafi kjörtímabilsins beindust aðgerðir að því að hemja óðaverðbólgu og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Í þeim efnum hefur náðst mikill árangur. Efnahagslífið er ekki lengur í þeirri hættu sem það var. Betra jafnvægi gefur svigrúm til að einbeita kröftunum nú að því viðfangsefni að auka þjóðartekjur, bæta lífskjör og lækka erlendar skuldir. Þetta eru verkefni sem ekki verða unnin á skömmum tíma. Því er jafnframt nauðsynlegt að marka efnahagsstefnu til nokkurra ára.

Ég mun í ræðu minni leggja áherslu á að ræða þróun efnahagsmála undanfarið og skýra stefnu ríkisstj. og þau meginmarkmið sem til grundvallar liggja. Með stefnuræðunni fylgja upplýsingar frá einstökum ráðuneytum um þau atriði sem þau á næsta ári munu leggja áherslu á. Við flutning ræðunnar mun ég hins vegar fyrst og fremst fjalla um þau atriði sem tengjast efnahagsmálum.

Á árinu 1983 og á fyrri hluta ársins 1984 náðist mjög mikilvægur og ómetanlegur árangur í viðureigninni við verðbólguna. Hún var færð úr 130 niður í um 20%. Með því var komið í veg fyrir stöðvun atvinnulífs og atvinnuleysi. Þetta er óþarft að rekja, það þekkir alþjóð. Þessi árangur náðist ekki síst fyrir góðan skilning almennings á nauðsyn harðra aðgerða í efnahagsmálum.

Samningar um kaup og kjör í febrúar 1984 voru innan ramma efnahagsstefnunnar og stuðluðu að framhaldi hagstæðrar þróunar efnahagsmála. Það sama verður því miður ekki sagt um samningana sem gerðir voru að hausti sama ár. Þeir leiddu til peningalaunahækkana sem voru langt umfram það sem þjóðarframleiðslan bar. Afleiðingin varð verðbólgualda í upphafi þessa árs sem náði um það bil 60% miðað við heilt ár þegar hún var mest. Þessi verðbólga hjaðnaði hins vegar ört og var s.l. vor mjög farin að nálgast það sem hún var fyrir samningana. Samningar á vinnumarkaði í júní s.l. voru raunhæfari. Þegar í upphafi var þó ljóst að verðbólga mundi á ný aukast nokkuð þó að þess væri hins vegar vænst að hún lækkaði aftur í um 20% í lok ársins. Þegar við gerð samninganna var af ýmsum talið að sú hækkun á raungengi íslensku krónunnar, sem þar var gert ráð fyrir, legði þyngri byrðar á sjávarútveginn en hann gæti með góðu móti staðið undir. Auk þess voru verðbreytingum sett mjög þröng mörk. Ljóst er nú að þau verðlagsmörk, sem lögð voru til grundvallar í þessum samningum, munu ekki halda. Breyttar ytri aðstæður valda þar miklu um, en einnig hefur þróun innanlands haft áhrif. Í samræmi við það sem ég sagði strax eftir samningana hefur ríkisstj. þó haft fullan hug á að gera það sem í hennar valdi stendur til þess að markmið samninganna héldu.

Það er staðreynd þótt verðlagsmörk hafi af ýmsum ástæðum, sem ég mun rekja hér á eftir, ekki staðist að kaupmáttur ráðstöfunartekna verður nú á síðasta ársfjórðungi í raun meiri en gert var ráð fyrir þegar samningarnir voru gerðir. Frá gerð samninganna í júní s.l. hafa orðið miklar breytingar á gengi gjaldmiðla sem eru okkur Íslendingum ákaflega óhagstæðar. Gengisfall dollarans hefur veikt rekstrarstöðu útflutningsatvinnuveganna, einkum sjávarútvegs, en hækkun Evrópugjaldmiðla hefur hins vegar leitt til þess að innflutningur hefur hækkað í verði umfram það sem áður var gert ráð fyrir. Það kemur að sjálfsögðu fram sem aukin verðbólga innanlands. Til þess að sporna gegn enn meiri verðhækkunum hefur ríkisstj. þó ekki talið fært að láta krónuna fylgja falli dollarans. Frá sjónarmiði fiskvinnslunnar orkar slíkt tvímælis, einkum eftir síðustu fiskverðshækkun, og verður varla kleift ef dollarinn heldur áfram að falla. En þannig hefur ríkisstj. þó viljað stuðla að því að sem minnst frávik verði frá þeim verðlagsmörkum sem í samningunum voru sett.

Aðhaldssamri stefnu í gengismálum mun verða fylgt áfram. Því verður hins vegar ekki neitað að þenslan innanlands einkum á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt til umtalsverðs launaskriðs og haft áhrif til hækkunar verðlags. Í þessu efni skipta halli á ríkissjóði og erlendar lántökur miklu máli. Það er þó mikill misskilningur að rekstrarhalli ríkissjóðs einn ráði þenslunni eins og mátt hefur skilja á sumum talsmönnum atvinnuveganna. Henni valda margir samtengdir þættir, m.a. einnig mikil fjárfesting einstaklinga og atvinnuvega, launasamningar og of lítill sparnaður; úr þenslunni verður því að draga með fjölþættu átaki.

Þrátt fyrir þetta gerir þjóðhagsáætlun ráð fyrir að verðbólgan muni á ný fara hjaðnandi á síðustu mánuðum þessa árs og verði í árslok rúmlega 20% á ársgrundvelli. Óstöðugleiki dollarans, sem veldur útflutningsatvinnuvegunum miklum vandræðum, skapar þó ærna óvissu í þessu sambandi og gera má ráð fyrir að nýlegar launahækkanir hækki þessa lokatölu ársins um eins og 2%.

Þótt kaupmáttur kauptaxta verði á síðustu mánuðum þessa árs lítið eitt lægri en hann var á fjórða ársfjórðungi 1983 er þó gert ráð fyrir að kaupmáttur á árinu í heild, á þennan mælikvarða, verði sá sami og á fjórða ársfjórðungi 1983. Við þann kaupmátt var miðað við gerð síðustu kjarasamninga. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann mun hins vegar eins og fyrr er sagt aukast verulega. Áætlað er að hann aukist um 4,5% í ár; verður kaupmáttur þá 6% meiri á síðari hluta þessa árs en hann var á fjórða ársfjórðungi 1983. Þetta verður að sjálfsögðu að hafa í huga þegar árangur kjarasamninganna er metinn.

Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs var áætlað að rekstrarhalli ríkissjóðs yrði um 700 milljónir króna sem er litlu hærri upphæð en rekstrarafgangur varð á árinu 1984. Þetta hefur því miður brugðist. Nú er talið að rekstrarhalli verði um 1,8 milljarðar króna. Að sjálfsögðu eru ýmsar skýringar á þessum stóraukna rekstrarhalla. Þyngst vega þeir launasamningar sem gerðir voru s.l. vor. Launagreiðslur ríkissjóðs hækkuðu vegna þeirra um nálægt því 800 milljónir króna á þessu ári. Auk þess hækkuðu ýmsar greiðslur, sem eru beint tengdar launum, svo sem tryggingabætur hvers konar, um 4-500 milljónir króna í kjölfar kjarasamninganna. Vaxtagreiðslur til Seðlabankans verða einnig mun meiri en áætlað var. Vegna minni innflutnings hátollavarnings, t.d. bifreiða, hafa tollatekjur ríkissjóðs orðið talsvert minni en gert var ráð fyrir. Að sjálfsögðu hefur meiri verðbólga en að var stefnt einnig valdið hækkun á rekstrarútgjöldum.

Við gerð fjárlaga og lánsfjáráætlunar var ætlað að erlendar lántökur ríkissjóðs yrðu um 3700 milljónir króna. Rekstrarhalla þessa árs verður að svo komnu ekki mætt á annan hátt en með yfirdrætti Seðlabanka sem þýðir annaðhvort versnandi gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins eða meiri erlendar lántökur sem hallanum nemur. Í því þensluástandi sem nú ríkir hefði að sjálfsögðu verið mikilvægt að ná rekstrarhallalausum ríkisbúskap. Æskilegt hefði verið að draga úr rekstrarútgjöldum sem nam hækkun launa og öðru því sem að framan var talið. Margendurtekin reynsla sýnir hins vegar að mjög erfitt er að ná slíkum samdrætti þegar komið er fram á mitt ár. Langhæstu útgjaldaliðir fjárlaga eru heilsugæslu-, trygginga- og menntamál. Í þeim málaflokkum vega laun og bætur til ellilífeyrisþega mjög þungt. Þegar almenn launahækkun verður í landinu er því erfitt ef ekki útilokað á miðju ári að ná samdrætti í slíkum málaflokkum. Svipað má reyndar segja um flesta aðra málaflokka sem þegar á miðju ári eru bundnir í samningum að miklu leyti. Þensluáhrifum hallans á þessu ári verður því ekki eytt í bráð með beinum ráðstöfunum.

Úr framkvæmdum á vegum hins opinbera hefur hins vegar verið dregið á undanförnum árum. Árið 1984 nam samdrátturinn 1,1%, 1985 tæpum 8% og loks er gert ráð fyrir 4,1% samdrætti opinberra framkvæmda á næsta ári. Þetta er í samræmi við þá stefnu ríkisstj. að draga úr opinberum umsvifum nú í því skyni að skapa eins mikið svigrúm og unnt er fyrir aukinn kaupmátt launa og til fjárfestingar í atvinnulífinu á meðan staðan er svo þröng. Í opinberri fjárfestingu getur því vart orðið um miklu meiri samdrátt að ræða. Þegar svo er komið málum að ekki er unnt að draga úr útgjöldum hins opinbera án alvarlegra afleiðinga fyrir þá þjónustu sem veitt er eru auknar tekjur ríkissjóðs helsta leiðin til þess að ná hallalausum ríkisbúskap. Að vísu kæmi til greina innlend fjáröflun með aukinni skuldabréfaútgáfu; sú leið felur aftur á móti í sér hækkun á vöxtum a.m.k. tímabundið. Stjórnarflokkarnir töldu hins vegar hvorki fært að hækka skatta né gera ráðstafanir á miðju ári sem líklega hefðu leitt til verulegrar hækkunar á vöxtum.

Á árunum 1979 til ársloka 1983 hækkuðu erlendar skuldir þjóðarinnar úr 28 milljörðum króna í 51 milljarð á verðlagi ársins 1985 eða úr 31% í 51,3% landsframleiðslu. Þessa miklu aukningu erlendra skulda má rekja til olíukreppunnar 1978 og 1979, sem leiddi til þreföldunar á verði olíu, kreppunnar í sjávarútvegi á árunum 1981 til 1983 þegar verðmæti sjávarafurða féll um 17% auk mikillar hækkunar á vöxtum erlendis. Þetta kom fram í miklum viðskiptahalla, m.ö.o. stórauknum útgjöldum og minni tekjum var ekki mætt með nauðsynlegum samdrætti innanlands.

Á s.l. tveimur árum hefur tekist að draga mjög úr aukningu erlendra skulda. Um síðustu áramót voru erlendar skuldir 52,2% en eru um næstu áramót taldar verða um 53% landsframleiðslu. Sem hlutfall af útflutningsverðmæti hafa þær hækkað óverulega úr 122,5 í 123% samkvæmt síðustu spá.

Vaxtagreiðslur af lengri erlendum skuldum munu í ár verða um 5400 milljónir króna sem er 11,5% útflutningstekna þjóðarinnar. Greiðslubyrði vegna erlendra lána nemur samtals 21% útflutningstekna 1985. Þótt það sé vel innan við helmingur af greiðslubyrði þeirra þjóða sem verst standa að þessu leyti er lækkun erlendra skulda orðin eitt mikilvægasta markmiðið í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar. Þeir milljarðar sem renna til erlendra fjármagnseigenda í vaxtagreiðslum verða ekki nýttir til þess að bæta kjör fólks eða til mikilvægra fjárfestinga innanlands. Á meðan vextir erlendis eru jafnháir og þeir eru nú er líklega engin fjárfesting arðmeiri í raun en lækkun erlendra skulda. Það er því eitt meginmarkmið þessarar ríkisstj. að erlendar skuldir þjóðarinnar lækki á næstu árum.

Þau lög sem samþykkt voru á síðasta Alþingi um framleiðslu landbúnaðarafurða og fleira hafa þegar sannað mikilvægi sitt. Tekist hafa samningar við bændur um minnkandi framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða. Er full ástæða til að ætla að þeim megintilgangi laganna verði náð að takmarka þessa framleiðslu sem næst við innanlandsþarfir og hrinda á sama tíma í framkvæmd mikilvægri búháttabreytingu fyrir landbúnaðinn og þjóðarbúið í heild. Mun ríkisstj. leggja mikla áherslu á örugga og farsæla framkvæmd þessara mikilvægu breytinga. Vegna umræðu, sem varð á Alþingi við afgreiðslu þessara laga, er rétt að geta þess að fyrir milligöngu ríkissjóðs mun afurðastöðvum verða gert kleift að greiða bændum að fullu sem næst við afhendingu afurðanna.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Félag íslenskra iðnrekenda safnar hefur staða iðnaðarins almennt verið nokkuð góð. Íslenskur iðnaður hefur verið að eflast á undanförnum árum; útflutningur iðnaðarvöru nam um 28% af heildarútflutningi á s.l. ári. Til samanburðar má nefna að þessi hlutfallstala var um 20% að meðaltali á tímabilinu 1970 til 1983. Mikilvægt er að þessi þróun haldi áfram. Á það mun verða lögð áhersla.

Álframleiðslan er þó að þessu leyti undantekning. Áliðnaður víðast um heim á í erfiðleikum sem virðast seint ætla að taka enda. Viðræðum um kísilmálmverksmiðju og stækkun álbræðslunnar verður þó haldið áfram. Sá áhugi á þátttöku í álbræðslunni í Straumsvík, sem fram hefur komið hjá Kínverjum, er sérstaklega athyglisverður. Þær viðræður munu hefjast í nóvember. Rétt var þó talið að hægja á virkjunarframkvæmdum við Blöndu, enda hefur orkunotkun ekki aukist jafnmikið og spáð var.

Eins og fyrr ræður staða sjávarútvegsins mestu um afkomu hins íslenska þjóðarbús. Afkoma sjávarútvegs hefur verið breytileg. Staða útgerðarinnar hefur yfirleitt verið erfið, þó ætla megi að hún hafi eitthvað skánað, og fiskvinnslustöðva mjög misjöfn. Mörgum fiskvinnslufyrirtækjum hefur tekist að aðlagast ótrúlega vel breyttum aðstæðum bæði innanlands og ekki síður á erlendum mörkuðum og ná umtalsverðri framleiðniaukningu. Ákaflega mikilvægt er að leita allra leiða til þess að bæta afkomu sjávarútvegs og fiskvinnslu með öðru en lækkun gengis. Ríkisstj. er reiðubúin til samstarfs um slíkt, m.a. með því að útvega fjármagn til tæknivæðingar og hagræðingar sem gerir fiskvinnslufyrirtækjum kleift að greiða hærri laun og fá nægilegt vinnuafl. Mikil áhersla mun jafnframt verða lögð á að ná samstöðu um fiskveiðistefnu sem stuðli bæði að hæfilegri veiði og hagræði í veiðum og vinnslu.

Nýsköpun í íslensku atvinnulífi er þegar orðin umtalsverð. Í landbúnaði hefur stórátak verið gert, einkum í loðdýrarækt, og áhugi á fiskeldi er afar mikill; á því sviði eru stórar áætlanir gerðar og framkvæmdir hafnar. Ef vel tekst er það sannfæring mín að fiskeldi muni verða mjög mikilvæg máttarstoð í íslensku efnahagslífi. Því taldi ríkisstj. rétt að gera sérstaka undantekningu og leyfa meiri erlenda fjármögnun fiskeldis en almennt hefur verið talið eðlilegt. Á s.l. sumri skipaði ég jafnframt nefnd til þess að gera tillögur um eflingu og skipuleg fiskeldis.

Í rafeindaiðnaði ýmiss konar hefur einnig orðið verulegur vöxtur sem lofar góðu. Hafa sýningar íslenskra fyrirtækja erlendis vakið verðskuldaða athygli og leitt til útflutnings. Útflutningur á þekkingu er hafinn, m.a. á sviði jarðhitaleitar og -nýtingar. Mér segir svo hugur um að á þeim sviðum geti orðið veruleg umsvif. Ríkisstj. mun í stefnu sinni leggja mikla áherslu á að efla og styrkja slíka vaxtarbrodda íslensks atvinnulífs. Í þessu sambandi er þó nauðsynlegt að undirstrika að mikilvægasta skilyrði árangursríkrar nýsköpunar í atvinnulífi er viðunandi jafnvægi í efnahagsmálum. Verði starfsskilyrði óstöðug, verði kollsteypur verðlags og gengis á ný reglubundinn þáttur í íslensku efnahagslífi, fer kraftur atvinnulífsins fyrst og fremst í daglega baráttu við að halda starfseminni gangandi en ekki þá uppbyggingu sem er forsenda bættra lífskjara.

Auk þess að leggja áherslu á að skapa stöðug starfsskilyrði hefur ríkisstj. beitt sér fyrir margvíslegum beinum ráðstöfunum til að örva nýsköpun. Þar á meðal vil ég nefna stofnun Þróunarfélags Íslands, styrki til rannsókna og þróunarstarfsemi, niðurfellingu gjalda af fjárfestingu, fjárútvegun til fjárfestinga vegna nýsköpunar í atvinnulífi og rýmri heimildir fyrir atvinnuvegina til erlendrar lántöku. Þessu átaki mun verða haldið áfram.

Með nokkuð hækkandi verðbólgu hafa nafnvextir að sjálfsögðu hækkað. Raunvöxtum hefur hins vegar verið haldið föstum; þeir eru 4-5 % af verðtryggðum bréfum. Því verður þó ekki neitað að eftirspurn eftir fjármagni er mjög mikil og hefur leitt til þess að mikið er selt af skuldabréfum með miklum afföllum á opnum markaði. Um þá starfsemi er nauðsynlegt að setja lög og reglur. Það er ráðgert á þessu þingi.

Þrátt fyrir fjármagnsskort er gert ráð fyrir að innstæður í bönkum aukist um 45% í ár á sama tíma og verðlagsbreytingar eru áætlaðar rétt rúmlega 30%. Innstæður í bönkum munu samkvæmt áætlun nema 30% landsframleiðslu í ár samanborið við um 27% á síðasta ári. Þetta hlutfall hefur ekki verið hærra frá árinu 1972. Þessa mjög svo jákvæðu þróun ber að örva.

Þeirri stefnu sem fylgt hefur verið í utanríkismálum mun verða haldið óbreyttri. Í samræmi við samþykkt Alþingis mun ríkisstj. á alþjóðlegum vettvangi leggja áherslu á gagnkvæma afvopnun undir ströngu og öruggu eftirliti. Í ráði er að auka starfsemi sendiráða á sviði utanríkisviðskipta. Þannig verður sú aðstaða sem fyrir hendi er nýtt í þágu útflutningsframleiðslunnar.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls hefur ríkisstj. látið vinna efnahagsáætlun til þriggja ára. Þar kemur fram sú stefna í efnahagsmálum sem ríkisstj. mun fylgja það sem eftir er kjörtímabilsins. Margt af því sem að er unnið mun þó ekki bera fullan árangur nema á lengri tíma. Því var talið rétt að sýna hvers árangurs megi vænta ef fylgt verður áfram í grundvallaratriðum svipaðri stefnu í efnahagsmálum. Með þessu er þess vænst að takast megi að skapa þann ramma um efnahagsmál þjóðarinnar sem tryggi að eftirgreind meginmarkmið náist.

Lækkun erlendra skulda verður að mati ríkisstj. óhjákvæmilegt meginmarkmið í efnahagsmálum þjóðarinnar næstu árin. Jafnframt er nauðsynlegt að leggja áherslu á að hjöðnun verðbólgu haldi áfram. Þetta ber að gera með aðhaldi á öllum sviðum án þess þó að til atvinnuleysis komi og með aukinni framleiðslu. Stefna sem þessi er að sjálfsögðu annars vegar háð þróun sjávarútvegs hér á landi og hins vegar efnahagsmálum í helstu viðskiptalöndum okkar. Þótt slíkir þættir breytist til hins verra er það skoðun ríkisstj. að ekki megi slaka á því meginmarkmiði að lækka erlendar skuldir.

Í umræddri áætlun er gert ráð fyrir því að viðskiptakjör haldist í meginatriðum óbreytt næstu þrjú árin þótt gengi dollarans lækki en Evrópugjaldmiðla hækki. Jafnframt er gengið út frá því að vextir lækki nokkuð. Ein mikilvægasta forsendan er að sjálfsögðu áætlun um aukinn útflutning; byggt er á 5% árlegri aukningu næstu þrjú árin. Í því sambandi er gert ráð fyrir að aflaverðmæti aukist heldur minna eða um 4 eða 5% á ári. Til þess að ná til fulls 5% verður útflutningur annarra greina að aukast meira. Í því efni eru vonir m.a. bundnar við iðnað, ekki síst nýjar framleiðslugreinar og þjónustuútflutning hvers konar.

Ekki er síður mikilvægt að fjármál ríkissjóðs verði í samræmi við umrædda áætlun. Því er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir að erlendar lántökur á vegum hins opinbera verði á árinu 1986 ekki umfram afborganir og að fjárlög verði hallalaus. Þetta er hvort tveggja ófrávíkjanlegar forsendur fyrir því að sá árangur megi nást sem stefnt er að með þjóðhagsáætlun. Frá þeim verður ekki vikið. Jafnframt hefur ríkisstj., eins og fyrr er rakið, lagt drög að því við gerð frv. til fjárlaga fyrir árið 1986 að fjárfesting á vegum hins opinbera dragist nokkuð saman. Einnig er lögð áhersla á að samneysla aukist ekki frá því sem hún er nú. Með þessu móti er stefnt að því að gefa eins mikið svigrúm og unnt er til að verja lífskjörin með því að halda opinberri fjárfestingu í lágmarki, en einnig leitast við að veita atvinnuvegunum sjálfum meira svigrúm til fjárfestingar, þannig að hagvexti í framtíðinni verði ekki stefnt í tvísýnu og unnt verði að halda eins miklum kaupmætti og þjóðarbúið þolir.

Þrátt fyrir það sem ég hef lýst og jafnvel þótt lagt sé til grundvallar að þjóðarútgjöld aukist aðeins um 1% á ári næstu árin í stað 3% s.l. tvö ár, eða m.ö.o. standi í stað á mann, næst ekki viðskiptajöfnuður á næsta ári og reyndar vart fyrr en á árinu 1988. Því valda hinar miklu erlendu vaxtagreiðslur. Á þessum forsendum er áætlað að viðskiptahalli, sem er talinn verða 4,5% landsframleiðslu í ár, verði 3,5% 1986, 2% 1987 en jöfnuður náist 1988. Áætlað er að erlendar skuldir þjóðarinnar, sem um næstu áramót eru taldar verða 53% landsframleiðslu, hækki í 54% 1986 en lækki í 52,5% 1987 og 49% 1988. Sem hlutfall af útflutningsframleiðslu eru þær taldar munu lækka úr 122,5% í ár í 107% 1988.

Ýmsum kann að virðast árangur sem þessi of lítill. Viðskiptajöfnuður og lækkun erlendra skulda þegar á næsta ári mun hins vegar ekki nást nema dregið verði verulega úr þjóðarútgjöldum. Fjárfesting telst í ár vera 22% þjóðarútgjalda og hefur lækkað úr 26% að meðaltali á s.l. tíu árum. Samneysla mun vera um 18%. Bróðurparturinn, eða um 60%, telst vera einkaneysla. Miðað við þá áherslu sem leggja verður á að auka framleiðsluna, ekki síst til útflutnings, er vafasamt að draga frekar úr heildarfjárfestingu í landinu. Á það einkum við um atvinnuvegina, enda gæti slíkt leitt til atvinnuleysis.

Vafalaust má spara eitthvað í samneyslunni með því að fara betur með fjármuni. Hins vegar dreg ég í efa að meiri hluti þjóðarinnar kjósi að draga svo um muni úr því jafnræði og öryggi sem þegnum landsins er nú tryggt í menntun, heilsugæslu og tryggingum og það er ekki ætlun stjórnarflokkanna. Þetta eru hins vegar hinir stóru útgjaldaliðir samneyslunnar. Fullur viðskiptajöfnuður mun því vart nást á næsta ári nema dregið sé úr stærsta lið þjóðarútgjaldanna, einkaneyslunni.

Ég tel óraunhæft að gera ráð fyrir því að draga megi úr einkaneyslu með lækkun kaupmáttar. Ég hygg að öllum megi vera ljóst að sú muni ekki verða niðurstaðan í frjálsum samningum um kaup og kjör. Hins vegar er sjálfsagt að leita annarra leiða til að draga sem mest úr viðskiptahalla. Fyrir utan sparnað í ríkisrekstri er raunhæfasta og skynsamlegasta leiðin til að ná meiri árangri vafalaust aukinn sparnaður almennings. Með þeim raunvöxtum sem greiddir eru af sparifé hefur þjóðin það töluvert í hendi sér.

Stjórnarflokkarnir hafa jafnframt ákveðið að leita leiða til að draga enn frekar úr ríkisútgjöldum þannig að sem minnst viðbótarskattheimta verði nauðsynleg til að tryggja hallalaus fjárlög. Með því móti kann jafnframt að verða unnt að draga enn frekar úr viðskiptahalla á næsta ári.

Óhjákvæmilegt er orðið að endurskoða allt tekjukerfi ríkissjóðs. Í samræmi við samþykkt Alþingis mun tekjuskattur verða lækkaður nokkuð á næsta ári, einkum á lægri tekjur. Mjög brýnni endurskoðun tolla, sem að hefur verið unnið árum saman, er nú lokið. Frv. að nýjum tollalögum mun verða lagt fram í upphafi þessa þings. Þetta leiðir hvort tveggja til lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Við núverandi aðstæður er óhjákvæmilegt að mæta slíku tekjutapi með hækkun óbeinna skatta.

Það er einnig staðreynd að söluskattskerfið með fjölda undanþága og endurgreiðslum til útflutningsatvinnuveganna er orðið afar erfitt í framkvæmd. Að mati ríkisstj. verður vart úr þessu bætt nema með því að taka upp virðisaukaskatt í stað söluskatts. Frv. um virðisaukaskatt mun því verða lagt fram enn á þessu þingi.

Ráðstafanir munu jafnframt verða gerðar til þess að slíkur skattur hafi sem minnst áhrif á framfærslukostnað heimilanna.

Loks mun enn verða leitað leiða til að bæta innheimtu opinberra gjalda. Það er lágmarkskrafa að allir taki eðlilegan þátt í rekstri þjóðarbúsins.

Það er að sjálfsögðu undir ýmsu komið hvort sú áætlun í efnahagsmálum, sem ég hef lýst, nær fram að ganga. M.a. er mikið aðhald í fjármálum ríkissjóðs nauðsynlegt og forðast verður erlendar lántökur svo sem unnt er. Ríkisstj. mun gera sitt til þess að svo verði.

Ekki er síður mikilvægt að samningar um kaup og kjör verði innan þess ramma sem áætlunin markar. Samningar umfram greiðslugetu þjóðarbúsins geta aðeins leitt til þess að ný verðbólgualda ríði yfir og erlendar skuldir aukist. Það mundi stofna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða. Það kýs enginn Íslendingur. Ég hef því þegar kvatt fulltrúa atvinnuvega og launþega á minn fund og gert þeim grein fyrir umræddri áætlun í efnahagsmálum. Hef ég tjáð þeim að ríkisstj. sé reiðubúin til að stuðla að því, eins og á hennar valdi er, að samningar megi takast sem tryggja hag launþega og um leið hin mikilvægu markmið um lækkun erlendra skulda, hjöðnun verðbólgu, fulla atvinnu og jafnvægi í efnahagsmálum án þess að skerða kaupmáttinn. Ég geri ráð fyrir því að þessar umræður muni halda áfram næstu vikur.

Góðir Íslendingar. Með þeirri stefnu, sem ég hef lýst, er brotið blað í stjórn efnahagsmála. Spilin eru lögð á borðið fyrir alþjóð að skoða. Leitast er við að rata hinn gullna meðalveg. Það er þröngur stígur og má lítið út af bera ef hann á ekki að verða ófær. Því er mikilvægt að vel megi takast. Um það þarf þjóðin að sameinast. - Ég þakka þeim sem hlýddu.