05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

34. mál, hlutabréf ríkisins í Flugleiðum

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin.

Mér þykir fráleitt að halda því fram að ekki hafi verið fallið frá þeim verðhugmyndum sem kynntar voru í upphafi, enda liggur það fyrir opinberlega af hálfu stjórnar Flugleiða m.a. að hún telur að það hafi verið gert. Enginn reiknar með engri verðbólgu. Þegar verðið var kynnt í upphafi var talað um „núvirði tekjustraumsins“ af þessum eignum. Núvirði skyldi það vera. Þannig voru eignirnar metnar. En eðlilegra telur forsrh. að verðbætur hefðu verið. Hann telur þá að hér hafi ekki verið eðlilega fram gengið.

Í öðru lagi upplýsir forsrh. að það sé líklegast rétt að vitneskja hafi borist til Flugleiða. Ég tel að það sé siðlaust að ganga frá tilboði þegar grunur er uppi um að vitneskja hafi borist. Ég tel að forsrh. eigi ekki að líða það að gengið sé frá sölu þegar slíkur meinbugur er á.

Í þriðja lagi segir hæstv. forsrh. að ef einstaklingar hefðu keypt bréfin beint þá hefðu þau notið skattalækkunarinnar. Svo vill til að bréfin voru öll auglýst í einum pakka þannig að einn einstaklingur hefði ekki getað fengið þann skattafslátt upp á 25 þús. kr., sem forsrh. var að gera að umtalsefni, ef bréfin væru seld með þeim skilmálum sem gert var ráð fyrir í auglýsingunni. Það stenst því ekki.

Ég skal hins vegar taka af forsrh. ómakið. Flugleiðir ætla að selja þessi bréf á tveimur árum. Ef menn eru í hæsta skattþrepi fá menn 44% til baka af þeim peningum sem þeir leggja í hlutabréfin. Ef menn eru í næsta skattþrepi fyrir neðan fá þeir 31% til baka. Við skulum gera ráð fyrir að helmingur geti nýtt sér efsta skattþrep, fjórðungur sé í skattþrepinu þar fyrir neðan og 1/4 geti ekkert nýtt. Þá mun það vera svo að útborgun upp á 22,5% af virði bréfanna berst á þessu ári, en á næsta ári og hinu þar næsta munu miðað við þessi hlutföll - og þá er ég ekki að gera ráð fyrir að allt nýtist - 30% af nafnvirði bréfanna vera greidd út úr ríkissjóði með tilliti til skattalækkunar. Þar er heldur halli á og þarf þó nokkra verðbólgu til þess að það standi ekki svo að tveimur árum liðnum að ríkissjóður fari út með fjárútstreymi út af sölunni en ekki innstreymi á árunum 1984-1987.

Herra forseti. Að lokum þetta. Þegar ég ritaði bréf mitt til forsrh. um athugun á þessu máli lét ég þess getið að ég teldi að slík rannsókn hefði ekki einungis gildi varðandi það sem liðið er, heldur líka fyrir framtíðina vegna þess að ef þetta teldust eðlilegir viðskiptahættir, þá mættum við búast við því að ríkið hagaði sér svona gagnvart þegnum sínum í framtíðinni og það vil ég ekki. Það held ég að Alþingi vilji ekki. Ef svo ber að skilja hæstv. forsrh. að ríkið ætli áfram að haga sér með þessum hætti, þá tel ég að þingið eigi að grípa í taumana og setja lög á ríkisstj.