10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3628 í B-deild Alþingistíðinda. (3311)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Núverandi skipulag á fjármálum sjávarútvegsins er ákaflega flókið. Af þeim sökum er fjárstreymi og tekjuskipting innan hans afar óskýr sem í fjölmörgum tilvikum hefur óheppileg áhrif á ákvarðanir manna og dregur úr verðmætasköpun. Með frv. því sem hér er til umræðu eru gerðar róttækar tillögur til einföldunar á þessu kerfi. Í stað flókinna reglna um útflutningsgjöld, sjóði, millifærslur og bótagreiðslur er hér lagt til að lögleiddar verði einfaldar reglur um skiptaverðmæti sjávarafla. Til marks um þetta má nefna að þegar tillit er tekið til allra greiðslna samkvæmt núgildandi kerfi, beinna og óbeinna, kemur í ljós að raunverulegt fiskverð er 63% hærra en sýnist í verðtilkynningum verðlagsráðs. Sjóðakerfið leynir því hvað fæst í reynd fyrir fiskinn innanlands í samanburði við fiskverð erlendis og stuðlar þannig í heild sinni að auknum útflutningi óunninnar vöru. Með frv. er lagt til að komið sé framan að hlutunum og þeir nefndir réttum nöfnum.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem einföldun á sjóðakerfinu á sér stað. Í ársbyrjun 1976 var gerð mikil uppstokkun á sjóðum sjávarútvegsins og voru útflutningsgjöld þá einfölduð og lækkuð stórlega. Á undanförnum erfiðleikaárum hefur þó sótt í sama far. Margs konar lögbundnar greiðslur og bætur úr sjóðum flækja nú verulega tekjuskiptinguna innan sjávarútvegsins.

Í ársbyrjun 1985 var skipuð nefnd með aðild samtaka sjómanna og útvegsmanna og þingflokka til að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um sjóði sjávarútvegsins og lögbundnar greiðslur tengdar fiskverði. Nefndin starfaði undir forustu Jóns Sigurðssonar forstjóra Þjóðhagsstofnunar, en um það mál er greinilega fjallað í grg. með frv. Auk þess skyldi samhengi milli þessara lagafyrirmæla og skiptaverð sjávarafla og þar með aflahlutar sjómanna tekið til rækilegrar skoðunar. Markmið þessarar endurskoðunar skyldi vera:

Að gera fjárstrauma og tekjuskiptingu innan sjávarútvegsins einfaldari og skýrari.

Að stuðla að sanngjarnri skiptingu tekna innan sjávarútvegsins.

Að koma í veg fyrir að sjóðakerfið og tekjuskiptingarreglur dragi úr hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri sjávarútvegsins.

Í ársbyrjun 1986 var svo ákveðið að nefndin skyldi einnig fjalla sérstaklega um hlut fiskvinnslunnar í skiptum við sjóði sjávarútvegsins, þar með Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, og var þá bætt í nefndina fulltrúum frá samtökum fiskvinnslunnar. Hinn 4. apríl s.l. skilaði nefndin tillögum sínum til sjútvrh. og taldi sig þar með hafa lokið verkefni sínu að öðru leyti en því að síðar yrði fjallað um starfsemi Verðjöfnunarsjóðs.

Frv. þetta er samið af nefndinni og flutt efnislega óbreytt frá þeim tillögum sem nefndin gerði og var sammála um.

Tilgangur frv. þessa er að einfalda allt greiðsluflæði innan sjávarútvegsins. Tillögurnar fela í sér róttækar breytingar á fjárhagslegu skipulagi atvinnugreinarinnar. Allir millifærslusjóðir og greiðslur utan skipta við fiskkaup eru samkvæmt frv. niður lagðar. Í staðinn koma einföld ákvæði þar sem skiptaverðmæti sjávarafla er ákveðið sem hlutfall af hráefnisverði. Samhliða þessu hækkar fiskverðið þannig að hið opinbera fiskverð verður jafnframt raunverulegt heildarverð fyrir fiskinn er sýnir allar greiðslur sem nú fara eftir misjafnlega flóknum leiðum, ýmist innan eða utan skipta, frá fiskvinnslu eða sjóðum. Með þessu næst það meginmarkmið að færa allar greiðslur nær uppruna sínum þannig að verðkerfið sýnir raunveruleg verðmæti í viðskiptum á skýran og ótvíræðan hátt. Á þennan hátt er tvímælalaust best tryggt að ákvarðanir þeirra sem við þessa grein starfa séu á hverjum tíma teknar út frá réttum viðskiptalegum forsendum og horfi til eflingar greinarinnar í heild og þar með þjóðarhags.

Enda þótt frv. þetta feli í sér róttækar skipulagsbreytingar á fjármálum sjávarútvegs mun það ekki breyta í nemum meginatriðum starfskjörum þeirra er að sjávarútvegi vinna. Tekjuskipting milli sjómanna annars vegar og útvegsmanna hins vegar og á milli veiða og vinnslu verður að mestu leyti óbreytt þrátt fyrir samþykkt þessa frv. Er gerð rækileg grein fyrir þessu í fskj. sem prentuð eru með frv.

Vettvangur ákvarðana um þessa meginþætti verður að sjálfsögðu eftir sem áður kjarasamningar milli útvegsmanna og sjómanna og ákvarðanir Verðlagsráðs sjávarútvegsins um fiskverð. Hins vegar fer auðvitað ekki hjá því að þessi endurskipulagning breyti eitthvað kjörum einstakra fyrirtækja og aðila innbyrðis. Má í því sambandi nefna að breytingin er þeim aðilum hagstæðust sem vinna aflann mest.

Ég mun þá víkja að einstökum þáttum frv. og þá fyrst að þeim er lúta að afnámi sjóðakerfisins. Þessi ákvæði eru í 17. gr. frv. um gildistöku þess.

Hornsteinn núgildandi sjóðakerfis eru lögin um útflutningsgjald á sjávarafurðum frá 1983. Þetta gjald á sér yfir 100 ára samfellda sögu. Með afnámi þess verður að telja að sagt sé skilið við ákveðið þróunarstig í skattheimtu hér á landi og niðurfelling þess markar því þáttaskil í hagþróun.

Útflutningsgjöld sem leggja sem fæst prósent á verðmæti útflutningsvöru eru almennt séð mest íþyngjandi fyrir þær greinar sem auka mest verðmæti framleiðslunnar með úrvinnslu innanlands. Þau stuðla því almennt að útflutningi óunninnar eða lítt unninnar vöru og eru því hemill á innlenda hagþróun.

Enda þótt núgildandi útflutningsgjald sé ekki ýkja hátt eða 5,5% hefur það óneitanlega haft að einhverju leyti þessi áhrif. Við afnám þess væri því að fullu horfið hið sérstaka óhagræði sem innlend fullvinnsla á sjávarafurðum hefur mátt búa við.

Með afnámi útflutningsgjaldanna sem skiluðu tæplega 1300 millj. kr. gjaldi árið 1985 falla niður tekjustofnar Tryggingasjóðs fiskiskipa og Úreldingarsjóðs fiskiskipa. Tillagan um afnám útflutningsgjalds felur því einnig í sér tillögu um að starfsemi þessara sjóða verði hætt.

Tryggingasjóður hefur staðið undir greiðslu á 40% af vátryggingariðgjöldum fiskiskipa. Er við það miðað að fyrir þessum þörfum verði framvegis séð með ákvæðum II. kafla um greiðslumiðlun sem ég kem að á eftir. Þær eignir Tryggingasjóðs sem eftir standa þegar starfsemi hans lýkur muni renna til Fiskveiðasjóðs Íslands, en þó er lagt til í ákvæði til bráðabirgða II1 að 12 millj. af fé sjóðsins skuli varið til öryggismála sjómanna og björgunaræfinga á fiskiskipum og 12 millj. renni til undirbúnings byggingar sjávarútvegshúss.

Óhætt er að fullyrða að starfsemi þeirra sjóða sem fengist hafa við greiðslur vegna úreldingar fiskiskipa hafi ekki verið nógu markviss til þessa. Á ég hér við Úreldingarsjóð fiskiskipa og Aldurslagasjóð fiskiskipa. Þannig hafa greiðslur úr Úreldingarsjóði oftar en ekki auðveldað mönnum kaup nýrra skipa með aukinni afkastagetu í stað hinna eldri. Þetta verður að telja andstætt þeim megintilgangi hans að auðvelda þeim er gömul skipa eiga og óhagkvæm að hætta í útgerð og draga þar með úr afkastagetu skipastólsins. Í frv. er gert ráð fyrir að starfsemi Úreldingarsjóðs verði hætt og þær eignir hans sem eftir standa þegar skuldbindingum hans er lokið verði varðveittar og ávaxtaðar á bestu kjörum þar til honum hefur verið fengið hlutverk að nýju.

Ég tel fulla þörf á að kanna með hvaða hætti þessum málum verði best fyrir komið í framtíðinni og mun strax í vor, verði frv. þetta að lögum, beita mér fyrir að vinna við það hefjist.

Til þess að skapa öllum útgerðarmönnum jöfn tækifæri til úreldingarstyrkja úr sjóðnum áður en starfsemi hans lýkur mun ég beita mér fyrir því að stjórn sjóðsins auglýsi eftir umsóknum til styrkja fyrir 1. maí þannig að skipin geti horfið úr varanlegum rekstri fyrir 15. maí n.k., en þá lýkur starfsemi hans.

Með niðurfellingu laga um útflutningsgjald á sjávarafurðum er einnig felldur niður stærsti tekjustofn Aflatryggingasjóðs. Í 17. gr. frv. er og gerð tillaga um afnám hans. Sjóðurinn hefur starfað í þremur deildum.

Hinni almennu deild Aflatryggingasjóðs var fram til 1983 ætlað það hlutverk að bæta útvegsmönnum og sjómönnum aflabrest. Síðustu tvö árin hafa greiðslur úr deildinni þó að mestu gengið til að greiða útgerðinni utan skipta uppbót á fiskverð í hlutfalli við aflaverðmæti skips. Deildin hefur því ekki starfað samkvæmt upphaflegum tilgangi sínum og er ástæðan til þess fyrst og fremst sú að órökrétt virtist að reikna út aflabrest þegar skipum var úthlutað fyrir fram ákveðnu aflamarki.

Hin nýja fiskveiðistjórnun hefur dregið mjög úr þörf fyrir starfsemi þessarar deildar og reynsla tveggja síðustu ára hefur í raun bent eindregið til þess að leggja megi deildina niður eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég er hins vegar reiðubúinn að láta kanna strax í vor í samvinnu við útvegsmenn og sjómenn hvort aðstæður séu til að taka upp einhvers konar aflatryggingu eða tekjutryggingu í framtíðinni verði aflabrestur í einstökum verstöðvum eða landshlutum.

Verðjöfnunardeild sjóðsins er ætlað að beina sókn í þær fisktegundir sem talið er að þoli hana öðrum betur. Hin nýja fiskveiðistjórn hefur einnig gert starfsemi þessarar deildar óþarfa. Er veiðar helstu fisktegunda eru beinlínis bundnar aflamarki verður að telja óþarft að hafa samtímis tæki til óbeinnar stjórnunar í formi verðuppbóta. Í reynd hefur þessi deild sjóðsins líklega aldrei þjónað upphaflegum tilgangi sínum heldur fyrst og fremst verið beitt til að styrkja framleiðslu þeirra fiskafurða, sem erfiðlega hefur gengið að láta bera sig, á kostnað annarra fisktegunda. Síðustu árin hefur verið farið að greiða verðjöfnunarbætur á nær allar tegundir botnfisks og felst í því óbein viðurkenning á að upprunalegar forsendur bótanna séu brostnar. Það hlýtur að vera andstætt upphaflegum tilgangi verðjöfnunardeildar að greiða 16% ofan á verð karfa, sem fiskifræðingar telja í mestri hættu vegna ofveiði, meðan greiðslur á flestar aðrar botnfisktegundir eru 6%. Verður ekki séð að í þessu felist hvati til sóknar í vannýttar tegundir.

Áhafnadeild Aflatryggingasjóðs greiðir lögskráðum sjómönnum fæðispeninga eftir ákveðnum reglum. Sjómenn og útvegsmenn vilja halda þeirri tilhögun sem felst í fæðisdagpeningum áhafnadeildar með þeirri breytingu þó að hver útgerðarmaður standi undir greiðslum sjálfur. Þannig breytast hlutur og kjör sjómanna ekki þótt hætt sé millifærslu fjár milli fyrirtækja. Um þetta fyrirkomulag er samkomulag milli sjómanna og útvegsmanna að gera viðbótarkjarasamning eins og sést á fskj. I með frv.

Með niðurfellingu útflutningsgjalds falla og niður verulegir tekjustofnar stofnlánasjóða sjávarútvegsins. Fiskveiðasjóður missir þannig verulegan tekjustofn, en rétt er þó að benda á að tillaga er gerð í frv. um að sjóðnum verði greiddar 70 millj. kr. af endurgreiðslu söluskatts eftir 15. maí. Niðurfelling útflutningsgjaldsins mun þannig leiða til þess að eftir árslok 1986 minnkar mjög það svigrúm sem tekjur af útflutningsgjaldi hafa skapað Fiskveiðasjóði til niðurgreiðslu vaxta af stofnlánum. Verður að telja það eðlilegt að ný fjárfesting í sjávarútvegi beri í framtíðinni fullan fjármagnskostnað á sama hátt og aðrar atvinnugreinar, enda var vaxtaniðurgreiðslan aldrei hugsuð nema sem tímabundin ráðstöfun til að komast yfir erfiðleikaár og hefur einungis verið ákveðin til eins árs í senn.

Varðandi niðurfellingu á framlagi af útflutningsgjaldi til Fiskimálasjóðs er rétt að benda á að honum er ætlað að sameinast Fiskveiðasjóði skv. frv. um fjárfestingarlánasjóði sem nú liggur fyrir Alþingi.

Loks er gert ráð fyrir að niður verði felld lög um sérstakan kostnaðarhlut útgerðar. Ákvæði þessi fela í reynd í sér breytingu á hlutaskiptum, en valda ekki fjárstreymi utan viðskipta milli fyrirtækja eins og útflutningsgjöldin gera.

Við gildistöku frv. þessa, ef að lögum verður, er nauðsynlegt að ákveða nýtt fiskverð. Er í ákvæði til bráðabirgða kveðið á um að verðlagsráð skuli hækka gildandi fiskverð um 58% við gildistöku laganna, en jafnframt er gert ráð fyrir að hálfar verðuppbætur úr verðjöfnunardeild Aflatryggingasjóðs haldist til maíloka. Þetta samsvarar 63% hækkun ef verðbætur hefðu strax við gildistöku frv. verið felldar niður að fullu.

Hinn 1. júní 1986 skal Verðlagsráð sjávarútvegsins síðan ákveða nýtt lágmarksverð á öllum tegundum sjávarafla. Í þessum tillögum felst málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða hagsmunaðila um hvernig standa skuli að kerfisbreytingunni í upphafi.

Með tillögum 1. 4. gr. um hlutfall skiptaverðmætis er stefnt að því að tryggja sem næst óbreytt skipti frá því sem verið hefur. Vegna mismunandi skiptaverðmætis á skipum yfir og undir 240 tonnum er nauðsynlegt að þessu fylgi hækkun á skiptaprósentu á minni skipum um 1% eigi að tryggja nær óbreyttan hlut sjómanna. Um þetta hafa sjómenn og útvegsmenn orðið sammála, sbr. drög að viðbótarkjarasamningi á fskj. I.

Með tillögum I. kafla er gert hreint borð í tekjuskiptingu á milli sjómanna og útvegsmanna. Um þessa hreinsun eru samningsaðilar sammála, enda þótt auðvitað verði aldrei gert endanlegt samkomulag um tekjuskiptingu milli þeirra.

Í II. kafla frv. er fjallað um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Enda þótt sjóðakerfi sjávarútvegsins sé afnumið verður að telja rétt að tryggja örugga greiðslu nokkurra mikilvægra þátta í útgerðarrekstrinum, svo sem vaxta, afborgana, vátrygginga, lífeyrisiðgjalda sjómanna og framlaga til samtaka sjómanna og útvegsmanna. Er trygging þessara greiðslna megintilgangur Il. kafla. Á þessum ákvæðum er þó sá meginmunur frá núgildandi ákvæðum um sjóði sjávarútvegsins að hér er einungis um greiðslutilhögun að ræða sem hvorki snertir hlutaskipti né felur í sér millifærslur milli skipa, enda eru greiðslurnar sérstaklega tengdar hverju skipi.

Í 5. gr. frv. er kveðið á um skyldu framleiðenda sjávarafurða til að halda eftir 15% af hráefnisverði hvers skips. Með þessu er tryggð innheimta til þeirra þarfa sem ég nefndi hér að framan. Ekki þykir þörf á að binda jafnhátt hlutfall af aflaverðmæti smábáta undir 10 brúttólestum til þessara þarfa og er í 6. gr. lagt til að þar verði haldið eftir 10% af aflaverðmætinu. Ástæða þessa munar er m. a. sú að smábátar eru almennt ekki skyldutryggðir eins og stærri skip og eru yfirleitt ekki í viðskiptum við Fiskveiðasjóð eða aðra opinbera stofnlánasjóði.

Ákvæði 7.-10. gr. fjalla síðan um ráðstöfun þess fjár sem haldið er eftir af aflaverðmæti. Lagt er til að 7% af aflavirði skipa undir 10 brúttólestum renni inn á stofnfjársjóðsreikning hvers fiskiskips. Er þetta nokkru hærri fjárhæð en nú gildir við heimalandanir en mun lægri en núgildandi reglur um stofnfjársjóðsgjald við landanir erlendis. Þykir ekki ástæða til að gera hér mun á eftir því hvort afla er landað heima eða erlendis.

Hér er og rétt að vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að útvegsmenn geti samið um hærri greiðslu við Fiskveiðasjóð og fer hún þá í sama farveg og hin lögbundnu 7%. Þau 6% sem lagt er til aðgreiðist inn á vátryggingarreikning hvers skips hjá LÍÚ eru nálægt tvöfalt hærri en sú greiðsla sem fer þessa leið skv. núgildandi lögum. Er þetta nauðsynlegt vegna þess að greiðslur Tryggingasjóðs falla niður, en hann hefur hingað til staðið undir greiðslu 40% af iðgjöldum skipanna.

Í 9. gr. er síðan kveðið á um ráðstöfun þeirra 2% af aflaverðmæti sem eftir eru og lagt er til að Stofnfjársjóður fiskiskipa annist dreifingu á. Langstærstur hluti rennur til Lífeyrissjóðs sjómanna og ætti stærsti hluti lífeyrisiðgjalda atvinnurekanda þar með að vera greiddur. Þá er gert ráð fyrir nokkurri hækkun á núgildandi framlögum til samtaka sjómanna og útvegsmanna.

Hvað smábátana snertir eru merk nýmæli í 8. gr. Þar er lagt til að helmingur af þeim 10% af aflaverðmæti sem haldið er eftir renni til Lífeyrissjóðs sjómanna. Þessi greiðsla er nálægt fullu lífeyrisiðgjaldi af aflahlut fyrir bæði útgerð og sjómenn. Með þessu ætti að vera tryggð myndun lífeyrisréttinda smábátamanna, en hætt er við að á því hafi verið misbrestur til þessa.

Þá er lagt til að 47% af greiðslufénu renni til greiðslu tryggingariðgjalda. Með þessu yrði tekin upp svipuð tilhögun varðandi tryggingar áhafna allra smábáta og nú gildir um grásleppuveiðar einar. Dæmin sanna að oft er á því misbrestur að smábátamenn séu tryggðir og virðist full þörf á því að tryggja með lögum að á því verði ráðin bót.

Þá er gert ráð fyrir þeim möguleika að vátryggingar bátanna sjálfra komi undir þessa innheimtu. Loks er 3% greiðslumiðlunarfé smábáta ætlað að renna til hins nýstofnaða Landssambands smábátaeigenda. Væri félaginu þar með tryggt starfsfé á hliðstæðan hátt og gert hefur verið varðandi önnur samtök sjómanna.

Að lokum vil ég víkja að ákvæðum II. kafla frv. um ráðstöfun endurgreiðslu á söluskatti til sjávarútvegs 1986.

Eins og alkunna er skapar söluskattskerfið íslenskum útflutningsatvinnuvegum óhagræði í samkeppni við afurðir frá löndum sem búa við virðisaukaskattkerfi. Alllangt er síðan þetta var í framkvæmd viðurkennt hvað iðnaðinn varðaði. Endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi hófst hins vegar ekki fyrr en árið 1985 og hefur hún alfarið farið fram í gegnum Aflatryggingasjóð. Í fjárlögum ársins 1986 er endurgreiðslufjárhæð þessi ákveðin 600 millj. kr. Með afnámi Aflatryggingasjóðs er nauðsyn á að finna þessum endurgreiðslum nýjan farveg. Er í 15. gr. gert ráð fyrir því að eftirstöðvum fjárveitingarinnar, 375 millj. kr., verði varið þannig að 305 millj. kr. renni til fiskvinnslu í hlutfalli við útflutningsframleiðslu, en 70 millj. kr. renni til Fiskveiðasjóðs. Er upphæðinni með þessu skipt milli vinnslu og veiða í því hlutfalli sem er milli uppsöfnunar söluskatts í greinunum.

Ég tel óhjákvæmilegt að endurgreiðslur uppsafnaðs söluskatts til sjávarútvegsins haldi áfram uns virðisaukaskattur verður í lög leiddur hér á landi. Verði það ekki gert um næstu áramót virðist eðlilegast að söluskattsendurgreiðslan renni á árinu 1987 að mestu leyti til vinnslunnar í hlutfalli við framleiðsluverðmæti á báðum stigum, en veiðarnar fái sinn hlut í formi framlags til Fiskveiðasjóðs Íslands.

Virðulegur forseti. Ég hef orðið að stikla á stóru um marga mikilvæga þætti málsins, enda er það bæði flókið og margþætt. Frv. fylgja mjög ítarleg fylgiskjöl og sýna glöggt fjárhagsleg áhrif þess og ég treysti því að þau muni auðvelda mjög aðilum að átta sig á efni frv.

Enda þótt frv. sé flókið er meginhugsun þess einföld. Með því að afnema millifærslur og einfalda verðkerfi sjávarútvegsins næst það markmið að sýna raunveruleg verðmæti í viðskiptum á skýran og ótvíræðan hátt, eins og ég áður sagði.

Meginávinningur við kerfisbreytinguna er þríþættur:

1. Í frv. er gert ráð fyrir að raunverulegt fiskverð, sem vinnslustöðvar greiða, komi fram á skýran hátt í einni tölu þannig að augljóst verði hvaða verð er í raun og veru greitt. Opinbert fiskverð hér á landi hefur oft verið innan við 60% af raunverulegu verði sem útgerðin fær greitt. Þetta lága verð hefur síðan verið borið saman við brúttóverð á ferskum fiski á erlendum markaði. Með þessu hefur orðið til algjörlega óraunhæfur samanburður sem aftur hefur hvatt til sölu á óunnum fiski á erlendan markað. Þetta hefur valdið fiskverkendum og þjóðarbúinu í heild skaða. Úr þessu yrði bætt með lögfestingu frv. þessa.

2. Núverandi sjóðakerfi hefur haft í för með sér óeðlilegar millifærslur. Einhver millifærsla hefur átt sér stað á milli verðmeiri framleiðslu og verðminni framleiðslu þannig að hin verðminni hefur fengið styrk frá hinni verðmeiri. Þetta er óeðlilegt. Rétt er að hver vörutegund fái notið síns raunverulega verðs eins og gert er ráð fyrir í frv. Sjóðakerfið hefur einnig valdið millifærslu innan útgerðarinnar þannig að fjármunir hafa verið teknir frá aflasælum skipum til hinna sem verr hefur gengið að reka. Þetta hefur viðhaldið óhagkvæmri útgerð og dregið úr hámarksafrakstri fiskiskipastólsins. Úr þessu er bætt með frv. þessu og með því tel ég heilbrigðan rekstur sjávarútvegsins í framtíðinni best tryggðan.

3. Nokkur vinna sparast við útreikning á aflaverðmæti og þeirri skýrslugerð er því fylgir. Jafnhliða sparast kostnaður sem fylgt hefur því að greiða hluta af tekjum sjávarútvegsins í sérstaka sjóði og endurgreiða þá síðan eftir mismunandi flóknum reglum. Frv. hefur því í för með sér beinan kostnaðarsparnað fyrir sjávarútveginn í heild.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv sjútvn.