10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3643 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Þetta mál sem hér liggur fyrir er að mínu mati að vöxtum og þýðingu eitt allra stærsta og þýðingarmesta þingmálið í vetur.

Nú, rúmlega hálfum mánuði áður en fyrirhugað er að þingi ljúki, lætur hæstv. sjútvrh. loks lauma þessu inn um bréfalúgu þm. til skoðunar, þá náttúrlega ósamþykkt í ríkisstj., og ég get spurt sömu spurningar og hv. 4. þm. Vesturl., ég veit ekkert hvort það er samþykkt í ríkisstjórn enn.

Þetta finnst mér ekki góð vinnubrögð og ég vil taka undir það með hv. 4. þm. Vesturl. líka að ég áskil mér allan rétt til að skoða þetta vel og vandlega og spjalla við marga menn sem ég tel þessu máli tengda. Ég lýsi því yfir að sé málinu með því stefnt í hættu að þm. fái að skoða það rækilega, svo mikilvægt mál, þá sé það á ábyrgð þess sem lagði frv. fram, hvort sem það var, eins og hv. 4. þm. Vesturl. sagði, afgreiðsla fyrir nefnd úti í bæ, sem hann sjálfur átti að vísu sæti í, eða hvort það var eins og fjölmiðlar virðast álíta, eigin smíð sjútvrh.

Ég staldra við ýmislegt í þessu frv. og veit ekki enn hvort ég er reiðubúinn að samþykkja það óbreytt. Ég á sæti í sjútvn. og ég get svo sem hér, alveg eins strax, lýst nokkru af því sem ég tel athugavert. Það er þá fyrst til að telja að mér finnst það einkennilegt, og ég á eftir að fá skýringu á því væntanlega, hvers vegna sjútvrh. á svo víða að ráðstafa eignum þeirra sjóða sem niður eru felldir með þessu frv. Þar á ég við 15. gr., 16. gr. og einkum og sér í lagi e-lið 3. liðar ákvæða til bráðabirgða. Á þessu vildi ég fá skýringar.

Ég get ekki verið samþykkur að öllu leyti þeirri ræðu hv. 3. þm. Suðurl. sem hann flutti áðan. Mér finnst nefnilega frv. bera vissan keim af því að það sé svona frekar verið að agnúast út í sölu á ferskum fiski og sjófrystum. Að mínu mati er þar eingöngu um að ræða þróun sem ekki verður stöðvuð með einhverjum lagaboðum hér. Við megum ekki ná fram réttlæti með því að skapa nýtt óréttlæti. Hafi verið óréttlæti í því að mönnum hafi verið gert óþarflega auðvelt að flytja út ferskan fisk og sjófrystan og þeir hafi á einhvern hátt notið þar hagstæðari kjara en ella megum við ekki skapa nýtt óréttlæti með þessu frv. Það þýðir ekki að berjast á móti straumnum að þessu leyti. Miklu léttara er að laga sig eftir aðstæðum.

Eitt vildi ég sérstaklega taka fram. Mér sýnist að með þessu sé Fiskimálasjóður lagður niður og reyndar kom það fram í máli ráðherra áðan. Að vísu tók hæstv. ráðherra fram að það ætti hvort sem er að gerast í því sjóðafrv. sem liggur fyrir en það er þá væntanlega sá farvegur sem það átti að fara í samkvæmt ríkisstjórnarhugmyndum. Ég verð að segja að mér er viss eftirsjá að Fiskimálasjóði. Ég hef átt við hann mikið samstarf í gegnum árin og af vanefnum sínum hefur sjóðurinn oft og tíðum bjargað nauðsynlegum rannsókna- og tilraunaverkefnum yfir örðugan fjárhagslegan hjalla og veitt mörgu nauðsynjamáli brautargengi.

Ég vil fá að vita með hvaða hætti slík starfsemi eigi að halda áfram. Ég vil fá að vita hvort Fiskveiðasjóður fær þá jafnframt fyrirmæli eða reglugerðarbreytingar um að taka við því hlutverki og auka það, auka fjármagn til þess, taka við því hlutverki sem Fiskimálasjóður hafði um að styðja við bakið á rannsókna- og tilraunastarfsemi í fiskiðnaði. Um leið þarf Fiskveiðasjóður að breyta sínum útlánareglum þar sem veð þarf ætíð að vera fyrir hendi og mér segir svo hugur um að það muni verða erfiðara fyrir hinn litla umsækjanda að sækja um fé til nauðsynlegra rannsóknaverkefna til hins stóra sjóðs fiskveiða sem náttúrlega telur sig í meginatriðum hafa allt öðru hlutverki að gegna en að sinna einhverjum smámunum í fiskiðnaði.

Það er, virðulegi forseti, mér, eins og ég sagði áðan, mjög til efs að þetta frv. sé í rauninni einhuga komið út frá ríkisstjórn. Mér finnst það ekki góð vinnubrögð að koma með mál á þennan hátt hingað. Ég hef látið þess getið á öðrum vettvangi.

Við viljum auðvitað flestir hverjir, draga úr þeim millifærslum sem átt hafa sér stað í sjávarútvegi. Á því er enginn vafi og í rauninni er þetta mál gott ef hægt er að flokka mál í góð og slæm. Það er að sjálfsögðu, með svona stórt og veigamikið mál, krafa okkar að fá aðeins að skoða málið.

Ég hef að þessu sinni ekki málið lengra en endurtek aðeins að ég áskil mér rétt til þess að skoða það vel í nefndarstörfum.