10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3645 í B-deild Alþingistíðinda. (3317)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég vil rétt, í framhaldi af ræðu síðasta hv. ræðumanns, skjóta að einu atriði.

Það er undarlegt að þessi ágæti hv. þm. þarf alltaf að rugla saman öllum hlutum þegar reynt er að skoða hin ýmsu mál frá ýmsum sjónarhornum. Þá flæðir hann út um allt og þarf alltaf að finna sökudólg í hverju horni en gleymir að reyna að meta stöðuna kalt og ákveðið, með staðreyndum, án þess að vera að búa til einhverja flókna keðju sem stenst ekki. Það er t.d. alveg ljóst að þótt kvótakerfið sé eins og það er í dag hefðu menn engu að síður reynt að fá sem mest verðmæti fyrir þann afla sem þeir veiða og það eru lítil tengsl þar á milli. Það sem ræður mestu er breytt flutningatækni og það er þróun sem á sér stað, framþróun. En þegar menn hanga alltaf við árabátinn og komast aldrei lengra er ekki von að menn geti horft yfir sviðið í heild. (SkA: Það er miklu myndarlegri floti á Snæfellsnesi heldur en í Eyjum.) Það er rétt, það er góð aflahrota núna á Snæfellsnesi. (SkA: Floti, meinarðu.) Floti. Það er alltaf gott að heyra brandara í bland.

Þetta er meginmálið sem menn þurfa að hafa í huga. Það er ástæða til þess að skoða þetta mál ofan í kjölinn. Ég held að ég hafi sýnt fram á það í mínu máli án þess að vera með nokkra fordóma. Þarna eru óljós atriði. Þarna er mál sem kann að verða vandamál. Ég er ekki að segja að það sé mikið vandamál í dag. Það er ekki ljóst hvort svona er bóla eða hvort það er til frambúðar. Að öllum líkindum gæti það orðið vandamál. Þarna eru svo mörg atriði sem spila inn í en við verðum að hafa málið eins og unnt er í hendi okkar.

Ég vil rétt skjóta inn einu atriði í sambandi við 10. gr. frv. sem fjallar um greiðslu í Lífeyrissjóð sjómanna. Það væri fróðlegt að heyra hjá hæstv. sjútvrh. um túlkun á því atriði að Lífeyrissjóður sjómanna, sem er staðsettur í Reykjavík, eigi að sjá um greiðslur í lífeyrissjóði sjómanna um allt land. Það má benda á að á Austurlandi, í Vestmannaeyjum og víðar eru lífeyrissjóðir á viðkomandi stöðum og því óeðlilegt að fjármagnið þyrfti í rauninni bókhaldslega að fara í gegnum höfuðborgarsvæðið. En ugglaust er þetta tæknilegt atriði að lífeyrissjóðurinn í Reykjavík hafi svona yfirumsjón án þess þó að koma við sögu í fjármagnsflutningum en það væri fróðlegt að heyra um þetta hjá hæstv. sjútvrh.