10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3646 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Aðeins örstutt um þær spurningar sem til mín hefur verið beint út af máli þessu.

Í fyrsta lagi er það spurningin hvort ríkisstj. standi heil og óskipt að máli þessu. Þegar málið var rætt í ríkisstj. hafði hæstv. samgrh. nokkrar athugasemdir við frv. þetta en að öðru leyti get ég ekki sagt frá hans endanlegri afstöðu. Sjálfsagt er það það sem var verið að spyrja um hvort einhverjar slíkar athugasemdir hefðu komið fram. Að nokkru leyti var þar af hans hálfu um fsp. að ræða um framhald málsins og athuganir varðandi Úreldingarsjóð og Aflatryggingasjóð. Að öðru leyti var um efnisatriði að ræða en hann mun að sjálfsögðu tjá sig um það.

Hv. þm. Skúli Alexandersson kom inn á að það hefði verið talað um í fjölmiðlum frv. sjútvrh. Það skiptir í sjálfu sér litlu máli. Hér er verið að vinna að máli af nefnd sem ég setti á stofn og sendi skipunarbréf á sínum tíma og sú nefnd hefur unnið mjög gott starf. Að sjálfsögðu fer það starf fram með þeim hætti að viðræður eiga sér stað við hagsmunaaðila um það hvort þeir séu tilbúnir að taka þátt í slíku nefndarstarfi. Það hefur oft borið á góma í samskiptum ráðuneytisins og þeirra. Einnig tóku þingflokkar mjög vel í það og skipuðu menn til að taka þátt í þessu starfi sem eðlilegt má telja. Hitt er svo annað mál að auðvitað hlýtur formaður sá sem stýrir slíkri nefnd að leita samráðs við viðkomandi ráðherra á hverjum tíma því að það er að sjálfsögðu mikilvægt að sá ráðherra sem á að bera ábyrgð á málinu sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að leggja slíkt mál fyrir. Ég ætla ekki að gera þetta meira að umtalsefni, enda hef ég ekki verið forgöngumaður um eina né aðra túlkun á því, en hér liggur málið fyrir ágætlega unnið af þeirri nefnd sem til þess var skipuð og á hún miklar þakkir skilið fyrir sín ágætu störf. Formaður nefndarinnar hefur unnið mjög gott starf og hans stofnun eyddi mestöllum páskunum í vinnu við þetta mál til þess að það gæti komið sem fyrst fyrir.

Af því að hv. þm. kom aðeins inn á Fiskifélag Íslands liggur fyrir að það verður líklega nauðsynlegt að Stofnfjársjóður eða Fiskveiðasjóður leiti til Fiskifélags Íslands um ýmsa vinnu að því er varðar þessa greiðslumiðlun og ég veit að nú sem hingað til getur átt sér stað ágætt samstarf milli þessara stofnana í því máli.

Einnig er rétt að taka það fram að því miður hefur fallið niður í 17. gr. í prentun. Þar stendur: „Skulu allir framleiðendur sjávarafurða skyldir að senda sérstakt yfirlit“. Þar á að sjálfsögðu að vera: Senda Fiskifélagi Íslands sérstakt yfirlit yfir birgðir sjávarafurða. Vænti ég þess að hv. nefnd taki það til leiðréttingar við meðferð málsins.

Hv. þm. Árni Johnsen spurði hvað yrði að því er varðaði karfann. Það liggur fyrir í fskj. VIII hvert verður karfaverðið á tímabilinu 15.-31. maí. Til útgerðar verður það að meðaltali 12,87 í stað þess að það er nú 12,29. Það getur enginn sagt til um hvaða verð tekur við 1. júní. Þá taka við fiskverðssamningar. En það er nú sem betur fer svo að verðlag á karfaafurðum hefur farið hækkandi og eftirspurn eftir karfa hefur verið mjög mikil. Ég bendi á að það hefur verið mjög kvartað um að ekki sé nægilegur karfi á Bandaríkjamarkaði og einnig hefur gengið vel að selja karfa á Japansmarkaði og gott verð hefur fengist í Rússlandi.

Hér hefur verið mikið talað um gámafisk og útflutning. Það er að sjálfsögðu meginatriði að það liggi alveg ljóst fyrir hvert hið raunverulega verð er og ég er þeirrar skoðunar að það hafi oft orðið til þess að menn hafi talið að það sé hagkvæmara að selja fisk erlendis en raunverulega er. Það er að sjálfsögðu mjög slæmt. Ef á að taka á þessu máli með einhverjum frekari hætti er að mínu mati algert skilyrði að sú breyting hafi verið gerð sem hér er verið að leggja til þannig að verðið liggi raunverulega fyrir þannig að það sé ekki muni mismunun að ræða í þessum millifærslum.

Útflutningur á gámafiski er háður útflutningsleyfum. Það er að mínu mati ekki góð aðgerð að þurfa að fara út í að takmarka það einstaka sinnum, en það hlýtur að koma til álita að leita í einhverjum tilvikum umsagnar viðkomandi aðila í viðkomandi bæjarfélagi um hvort slík leyfi skuli veitt. Hér er ekki eingöngu um hagsmunamál sjómanna og útvegsmanna að ræða. Það eru að sjálfsögðu heil byggðarlög sem standa og falla með þessari vinnslu þannig að það verður að líta þar til margra sjónarmiða.

Annars er á engan hátt í þessu frv. verið að hnýta í útflutning á ferskum fiski eða frystingu á hafi úti. Ég get ekki fallist á það. Hér er eingöngu verið að leggja á það áherslu að það séu hlutlausar reglur sem gilda og ein útflutningsgrein njóti kerfisins ekki sérstaklega.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson spurði um hvernig stæði á því að sjútvrh. væri falið að ganga frá eignum Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins, Tryggingasjóðs fiskiskipa og Úreldingarsjóðs fiskiskipa. Svarið er einfaldlega að þessir sjóðir falla undir valdsvið sjútvrh. og því hlýtur að vera eðlilegt að honum sé falið það. Hitt er svo annað mál að það kemur fram í skýrum hætti í ákvæðunum hvernig ráðstöfun eignanna skuli háttað. Ég fæ því ekki séð eða skilið hvað það er sem hv. þm. er hræddur við í því sambandi. Og ég get ekki séð hvaða aðrir ráðherrar ættu að gefa út reglur um þau mál en sá ráðherra sem hefur það á sínu sviði.

Hv. þm. Skúli Alexandersson spurði um hvort það væri komin niðurstaða úr rannsóknaleiðangri Hafrannsóknastofnunar. Sú niðurstaða er ekki komin. Ég á von á að það mál skýrist um þessa helgi og get ég því ekki svarað þeirri spurningu sem hann bar fram, en ég vænti þess að strax eftir helgina liggi það mál fyrir.

Hv. þm. Árni Johnsen spurði um Lífeyrissjóð sjómanna. Það er fyrst og fremst um það að ræða að Lífeyrissjóður sjómanna hafi um þetta mál að segja, þ.e. hafi yfirumsjón með lífeyrissjóðamálinu, en ég get ekki séð nokkra ástæðu til að vera að senda þá peninga meira á milli banka en nauðsynlegt má teljast og sem betur fer búum við við þá fjarskiptaþjónustu og fjarskiptatækni að greiðslur má senda á einu augnabliki á milli aðila og milli landshluta og það er engin ástæða til að bera þá sérstaklega í gegnum Reykjavík.