10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3650 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

430. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. 5. landsk. þm. vil ég ítreka það, sem kom reyndar skýrt fram í umræðum í gær um talnagetraunir, að með því frv. er eingöngu verið að veita Öryrkjabandalaginu aðild að happdrætti sem þegar er lagaheimild fyrir og því ekki um viðbót að ræða frá því sem hefur verið heimild fyrir í lögum frá 1972. Hins vegar er í þessu frv., eins og fram kom, jafnframt því að framlengja happdrættisréttinn, bætt við nýjum möguleikum í samræmi við gerbreyttar aðstæður í þjóðfélaginu og tækni frá því að þetta form var upphaflega upp tekið fyrir um 50 árum.