11.04.1986
Neðri deild: 76. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3666 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

26. mál, skipti á dánarbúum og félagsbúum

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl. nr. 3/1878, með síðari breytingum.

Efnislega er í þessu frv. lögð til sú meginbreyting að ekki þarf að höfða mál þó að ágreiningur verði um skipti heldur getur skiptaréttur úrskurðað í þessu máli eins og öðrum sem undir hann heyra. Kostirnir við þetta fyrirkomulag eru fyrst og fremst þeir að það má gera ráð fyrir mun fljótari afgreiðslu mála en er með núverandi fyrirkomulagi. Það má geta þess að Ragnar Hall borgarfógeti hefur lagt blessun sína yfir þá breytingu sem hér er lögð til.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa nál. frá allshn.: „Nefndin hefur rætt frv. þetta á nokkrum fundum og kallað á sinn fund Guðrúnu Erlendsdóttur dósent til að fjalla um efni þess. Leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem lögð er til á sérstöku þskj."

Undir þetta rita Gunnar G. Schram, Guðrún Helgadóttir, Ólafur Þ. Þórðarson, Friðjón Þórðarson, Pálmi Jónsson, Kristófer Már Kristinsson. Stefán Guðmundsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Sú breyting, sem nefndin leggur til, er aðeins atriði er varðar gildistöku laganna og er á þá leið að lögin taki gildi 1. jan. 1987, en það er sjálffallið að þau taki gildi 1. jan. 1986.