11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3670 í B-deild Alþingistíðinda. (3359)

431. mál, Rannsóknadeild fiskisjúkdóma

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það sem ég mæli nú fyrir um rannsóknadeild fisksjúkdóma er unnið af sérstakri nefnd sem ég skipaði á s.l. ári til að gera tillögur til ríkisstj. um ýmis framkvæmdaatriði og lagabreytingar sem stuðlað geta að eðlilegum vexti þessarar mikilvægu atvinnugreinar, fiskeldis, sem nú fyrst hefur í verulegum mæli haslað sér völl í íslensku atvinnulífi.

Allmargar þáltill. voru fluttar og þótti mér ástæða til að samræma og skoða þau sjónarmið sem þar komu fram með skipun slíkrar nefndar. Í nefndinni eiga sæti alþm. Eyjólfur Konráð Jónsson, Kjartan Jóhannsson og Stefán Valgeirsson, Bjarni Guðmundsson, aðstoðarmaður landbrh., Finnur Ingólfsson, aðstoðarmaður sjútvrh., Jónas Matthíasson verkfræðingur, tilnefndur af Sambandi fiskeldisstöðva, Árni Ísaksson, deildarstjóri, Veiðimálastofnun, og Gunnlaugur M. Sigmundsson viðskiptafræðingur sem var skipaður formaður nefndarinnar.

Fiskeldi á sér að vísu nokkuð langa sögu, jafnvel aldalanga í sumum löndum, en ekki hefur þó komist verulegur skriður á slíka framleiðslu fyrr en á undanförnum árum eða áratugum og alveg sérstaklega nú á síðustu árum hefur laxeldi vaxið mjög ört í ýmsum nágrannalöndum okkar og er þar að verða, einkum í Noregi, ein mikilvægasta atvinnugreinin. Ég hef fengið nýlegar upplýsingar um laxeldi í Noregi og þykir mér rétt að segja um það nokkur orð til að upplýsa þingheim um mikilvægi laxeldis þar í landi og þann mikla vöxt sem á því hefur orðið.

Samkvæmt þessum upplýsingum hefur laxeldi og silungaeldi í Noregi vaxið um að meðaltali 40% á ári hverju síðan 1979. Á árinu 1984 voru fluttar út afurðir fyrir 1 milljarð norskra króna eða 5,7 milljarða ísl. kr., en á s.l. ári, 1985, fyrir 1,4 milljarða norskra kr. og er það, eins og ég fyrr sagði, um 40% vöxtur eins og verið hefur að meðaltali.

Norðmenn fluttu út á síðasta ári um það bil 28 þús. tonn af eldisfiski, en gera má ráð fyrir að á árinu 1988 verði þessi framleiðsla orðin um 75 þús. tonn. Reyndar telja fiskeldismenn í Noregi að áríð 1990 verði lax- og silungseldi í Noregi orðin meiri atvinnugrein en sjávarútvegur þar í landi, þ.e. beri meira í þjóðarbúið en sjávarútvegur þar í landi.

Lax- og silungseldi í Noregi veitir núna um 2000 manns atvinnu og eru það um 10% af því vinnuafli sem er í hinum mikilvæga sjávarútvegi Noregs.

Markaðir fyrir ferskan lax og annan eldisfisk eru víða um heim og að mati þeirra manna sem þessa skýrslu skrifa, sem er frá norska útflutningsráðinu, er langt frá því að þessir markaðir séu allir kannaðir og jafnvel langt frá því að Norðmenn hafi komist inn á þessa markaði. Þeir hafa einkum lagt áherslu á það sem þeir kalla vaxtarsvæði fyrir slíka framleiðslu, Bandaríkin, Japan og Evrópu, en telja að markaður fyrir slíka framleiðslu muni vera langtum víðar.

Í lokaniðurstöðum þessarar skýrslu segir að fiskeldi í Noregi megi telja álíka mikilvæga atvinnugrein þar eins og olíu- og gasframleiðslu. Svo mjög telja Norðmenn fiskeldi eiga sterka framtíð.

Hér á landi hefur fiskeldi verið nokkru seinna að festa rætur. Að vísu hafa áhugamenn um fiskeldi verið hér á landi um áratugi og margir vakið athygli á þessari mikilvægu grein, en ekki komist mikill skriður á fiskeldi fyrr en á allra síðustu árum, enda má segja að nú sé skriðurinn mikill. Hygg ég að skráðir aðilar, sem eru komnir af stað í fiskeldi eða eru í þann veginn að byrja og eru með áætlanir og viðleitni til fjármögnunar á slíku, muni vera um 60-70 eða jafnvel fleiri. Þeir eru mjög mismunandi að stærð, allt frá tiltölulega litlum klakstöðvum upp í mjög stórar klakstöðvar og eldisstöðvar þar sem gert er ráð fyrir að flytja út á fáeinum árum hundruð og jafnvel þúsundir tonna af eldisfiski. Öllum má vera ljóst hve mikilvægt er að ekki verði meiri háttar slys í svo hraðri uppbyggingu þessarar atvinnugreinar.

Þess ber jafnframt að minnast að þessi atvinnugrein er langt frá því að vera einföld í framkvæmd. Eldi fiska er nákvæmnisgrein. Eldisfiskar eru mjög viðkvæmir fyrir sínu umhverfi. Þeir eru færðir úr sínu náttúrlega umhverfi í tilbúið umhverfi. Þar er miklu meiri þröng, miklu meiri fjöldi á hvern rúmmetra af vatni en er í hinu náttúrlega umhverfi og mjög auðveldlega geta sjúkdómar og önnur slys valdið stórkostlegum skaða. Reyndar höfum við mörg dæmi um það í þeim litlu stöðvum sem hér hafa hafið framleiðslu.

Sú nefnd sem ég skipaði og nefndi áðan taldi því rétt að snúa sér einna fyrst að því verkefni sem hún taldi mikilvægast, eftirliti og rannsóknum á sjúkdómum í íslenskum fiskeldisstöðvum. Nefndin hefur að vísu einnig þegar fjallað um önnur verkefni, eins og t.d. veðheimildir í eldisfiski sem er nú til meðferðar hjá þessari hv. deild, og sömuleiðis hefur nefndin fjallað um lánsfjárútvegun vegna fjárfestingar í fiskeldisstöðvum. Ég vil geta þess að það mál er nú í meðferð og hefur ríkisstj. beitt sér fyrir því að verulegt fjármagn er til ráðstöfunar til fiskeldisframkvæmda. Á lánsfjárlögum er gert ráð fyrir 150 millj. kr. sem ráðstafað verði til hinna ýmsu sjóða sem hyggjast lána til fiskeldis. Auk þess hefur stjórn Framkvæmdasjóðs að ósk ríkisstj. ákveðið að verja 100 millj. kr. af ráðstöfunarfé sínu til viðbótar til útlána til fiskeldis. Þá gerir Byggðastofnun ráð fyrir því að hafa um 60 millj. kr. til úttána til fiskeldis.

Á síðasta Alþingi var lögum Fiskveiðasjóðs breytt þannig að Fiskveiðasjóður hefur heimild til að lána eða veita ábyrgðir vegna fiskeldis. Ég hygg að Fiskveiðasjóður hafi þegar veitt ábyrgðir vegna erlendrar lántöku sem nemur um 400 millj. ísl. kr.

Ríkisstj. taldi einnig rétt að gera undanþágu og veita rýmri heimildir til erlendrar lántöku vegna fiskeldisstöðva en almennt hefur verið gert. Var heimilað að erlend lán gætu orðið 67% af stofnkostnaði fiskeldisstöðva og þá tekinn með reksturskostnaður fyrstu tvö árin áður en sala getur hafist.

Í þessum reglum er gert ráð fyrir að eigið fé fiskeldisstöðva verði 25% þannig að þarna er aðeins um að ræða 8% sem þarf þá að taka að láni hjá innlendum sjóðum. Hins vegar vil ég geta þess að fjölmargar fiskeldisstöðvar hafa fremur kosið að leita alfarið til innlendra sjóða um fjármögnun enda ekki ljóst að allar hafi aðgang að erlendu fjármagni í þessu skyni. Norræni fjárfestingarbankinn hefur verið jákvæður í þessu sambandi og hefur lánað til nokkurra stórra fiskeldisframkvæmda hér á landi þar sem um er að ræða norrænt samstarf.

Nefndin er einnig með fleiri atriði til athugunar, eins og t.d. hvert skuli vera hið lögskipaða yfirvald fiskeldisstöðva. Ég vil aðeins um það segja á þessu stigi að ég lít ekki á það sem aðalatriði. Ég lít á það sem aðalatriði að vel sé að þessari nýju atvinnugrein búið og ríkisvaldið geri þá hluti sem mikilvægastir eru, eins og t.d. felst í því frv. sem ég er nú að mæla fyrir.

Í þessu frv. er um að ræða að koma á fót rannsóknadeild fisksjúkdóma við Tilraunastöð Háskólans í meinafræðum á Keldum. Gert er ráð fyrir að sú deild verði mjög sjálfstæð. Henni er ráðinn sérstakur sérhæfður deildarstjóri og sérhæft starfslið. Gert er ráð fyrir að þessi deild veiti öll nauðsynleg vottorð til að flytja megi út seiði og annan eldisfisk og staðfesti ef um heilbrigðan fisk er að ræða eða sjúkan og þá geri viðkomandi yfirvald þær ráðstafanir, ef um sjúkan fisk er að ræða, sem nauðsynlegt er.

Ef þetta frv. verður að lögum lítur ríkisstj. svo á að Alþingi geri ráð fyrir að fjármagn til tilraunastöðvarinnar á Keldum verði aukið þannig að koma megi deildinni á fót og mun það verða gert.

Þessi rannsóknastarfsemi þarf að sjálfsögðu að tengjast eftirliti með fiskeldisstöðvum og um það fjallar þetta frv. að nokkru leyti. Það fjallar um tengsl fiskeldisstöðvar við fisksjúkdómanefnd, en gert er ráð fyrir því að fisksjúkdómanefnd setji reglur um lágmarkstíðni sýnatöku og fjölda sýna sem tekin skulu í hverri klak- og eldisstöð.

Þá er og jafnframt gert ráð fyrir því að deildarstjóri rannsóknadeildar fisksjúkdóma hafi náið samband við yfirdýralækni og dýralækni fisksjúkdóma um alla framkvæmd þessa máls.

Það er með tilvísun til þess að málið heyrir undir fleiri ráðuneyti, annars vegar heyrir tilraunastöð í meinafræðum að Keldum undir menntmrh., en hins vegar fisksjúkdómanefnd og embætti yfirdýralæknis undir landbrh., að rétt þótti að ég sem forsrh. flytti þetta frv., enda skipaði ég þá nefnd sem frv. hefur samið.

Gert er ráð fyrir að gjaldskrá verði sett fyrir þá þjónustu og þær rannsóknir sem rannsóknadeildin annast og það eftirlit sem embætti yfirdýralæknis eða aðrir sem um kann að verða samið eða menn á vegum fiskeldisstöðva annast. Gert er ráð fyrir að bróðurparturinn af kostnaði við þetta starf verði greiddur af fiskeldisstöðvunum sjálfum þótt óhjákvæmilegt sé að stofnkostnaður verði í upphafi greiddur af ríkissjóði.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu frekar, en ég vil leggja áherslu á að hér er tvímælalaust um mjög mikilvægt ráð að ræða. Að allra mati sem ég hef rætt við um þessi mál, og þeir eru orðnir mjög margir sem til mín hafa komið og hafa áhuga á fiskeldismálum, er mikilvægast af öllu, ef slys eiga ekki að verða, að rannsókn á heilbrigði eldisfisks verði mjög aukin og efld hér á landi. Hún hefur vissulega verið, en hefur verið miðuð við miklu minni umsvif en nú er orðið. Því fer víðs fjarri að sá sérfræðingur sem þetta hefur annast geti nú orðið annast þetta að öllu leyti. Er ljóst að svo verður enn síður þegar sá vöxtur er orðinn sem margir ætla að muni verða hér á landi í fiskeldi. Það er einnig alveg ljóst að endurskoða þarf það samband sem er á milli rannsókna í tilraunastöðinni á Keldum nú og fisksjúkdómanefndar og yfirdýralæknis. Gert er ráð fyrir því í þessu frv. að koma því sambandi í fastari skorður.

Ég hefði mjög gjarnan viljað mæla fyrir þessu frv. fyrr, en lögð var rík áhersla á að ná sem breiðastri samstöðu við hina fjölmörgu aðila sem að þessum málum koma í dag og í það hefur verið lögð mjög mikil vinna. Ég hygg að eins og frv. liggur nú fyrir sé þessi samstaða tryggð og öllum hinum mikilvægu sjónarmiðum, sem fiskeldisnefndin hafði í huga, einnig fullkomlega mætt.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.