11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3676 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

431. mál, Rannsóknadeild fiskisjúkdóma

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram við 1. umr. um þetta frv. að ég tel hér hreyft mjög mikilvægu máli og styð það heils hugar. Hér er skipan komið á þessi mál sem eru svo mikilvæg fyrir þá búgrein, fiskræktina, fiskeldið, sem við bindum svo miklar vonir við.

Ég nefni sérstaklega ákvæði 12. gr. þar sem rætt er um hverjir skuli hafa frjálsan aðgang að fiskeldisstöðvum og fylgjast með því sem þar gerist, m.a. héraðsdýralæknar um allt land. Ég tel ákaflega mikilvægt að stéttin skuli sinna þessu máli sem heild.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. minntist á annað frv., frv. til laga um breytingu á veðlögum sem hér er á ferðinni um þingið. Ég vil einnig lýsa fylgi mínu við það frv. og ítreka að ég mun styðja þessi mál heils hugar.