11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3676 í B-deild Alþingistíðinda. (3364)

417. mál, útvarpslög

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, Kjartan Jóhannsson, Ólafur G. Einarsson, Guðrún Helgadóttir og Guðmundur Bjarnason.

Hér er um að ræða breytingu á 24. gr. útvarpslaganna, en sú breyting sem hér er lögð til hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í reglugerð má ákveða að þeir, sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri skv. 19. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, verði undanþegnir afnotagjöldum. Í reglugerð má einnig ákveða undanþágu blindra manna frá greiðslu afnotagjalds af hljóðvarpi.“

Um þetta mál þarf ekki að hafa mörg orð og vil ég, með leyfi forseta, fá að lesa þá stuttu grg. sem fylgir með þessu frv. og skýrir málið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í nýjum útvarpslögum, sem samþykkt voru á Alþingi í júní 1985, er ekki að finna ákvæði, sem var í eldri útvarpslögum, um undanþágu fyrir ákveðinn hóp elli og örorkulífeyrisþega, sem og blindra manna, frá greiðslu afnotagjalds af hljóðvarpi.

Líta verður svo á að það hafi ekki verið vilji Alþingis að fella niður umrætt ákvæði heldur hafi farist fyrir að setja það í nýju útvarpslögin. Reglugerð sú, sem enn er unnið eftir og sett var skv. eldri útvarpslögum, virðist því ekki hafa stoð í útvarpslögum sem tóku gildi um s.l. áramót.

Frv. þetta er flutt til að tryggja að þessi mistök leiði ekki til þess að falla verði frá niðurfellingu afnotagjalda fyrir elli- og örorkulífeyrisþega þegar ný reglugerð verður sett skv. ákvæðum nýrra útvarpslaga.“

Herra forseti. Ég vænti þess að þetta frv. nái fram að ganga hér á hv. Alþingi. Hér er um að ræða nokkuð stóran hóp elli- og örorkulífeyrisþega, um 3700 manns, sem notið hafa þess að fá felld niður afnotagjöld. Frv. þetta er flutt til að tryggja að þessi hópur elli- og örorkulífeyrisþega fái áfram notið niðurfellingar á afnotagjöldum.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.