11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3683 í B-deild Alþingistíðinda. (3372)

301. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Smám saman hafa menn verið að gera sér ljóst hve fyrstu árin í lífi hverrar manneskju skipta miklu máli um alla framtíð hennar og hve mikilvægt það er að allur aðbúnaður barna sé sem bestur. Því miður sér þessarar vitneskju ekki stað í breyttum viðhorfum hins opinbera sem launar öll uppeldis- og umönnunarstörf með smánarlegum hætti og hefur staðið sig vægast sagt illa í uppbyggingu dagvistarheimila og hefur ekki haft dug til að koma á samfelldum skóladegi í grunnskólum.

Það er því ekki vanþörf á að ræða þennan málaflokk hér á Alþingi og þótt oftar væri og ég fagna þessu tilefni sem er frv. það sem hér er til umræðu. Það skal þó strax tekið fram að það er mér hreint ekki að öllu leyti að skapi, svo sem hv. 1. flm. veit, þar eð við Kvennalistakonur höfnuðum boði hennar um að gerast meðflm.

Við getum þó svo sannarlega stutt 1. gr. frv., um markmið í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum, og 4. gr., um samvinnu dagvistarheimila og skóla, sem er mikilvægt og sjálfsagt mál því að það er ekki nokkur vafi á því að markvisst uppeldisstarf á dagvistarheimilum er börnum drjúgt vegarnesti á námsbrautinni og í skóla lífsins og það er samdóma álit kennara að börn, sem hafa átt kost á góðu atlæti og undirbúningi á dagvistarheimili, hafa forskot í skóla fram yfir þau sem hafa farið slíks á mis.

Við vitum það hins vegar að skortur á menntuðum fóstrum hefur staðið slíku markvissu uppeldisstarfi á dagvistarheimilum fyrir þrifum. Fæst dagvistarheimili eru svo vel sett að þau séu eingöngu mönnuð fóstrum. Algengast er vafalaust að það sé aðeins ein fóstra á deild, annað starfsfólk ófaglært. Til eru þau heimili þar sem eingöngu starfar ófaglært fólk og ekki einu sinni forstöðukonan með fóstrumenntun.

Til þess að bæta úr þessu ófremdarástandi vilja hv. flm., með menntaða fóstru í broddi fylkingar, búa til nýja starfsstétt, þ.e. fósturliða. Virðast helstu rökin vera þau að það sé altént skárra að hafa starfsfólk með einhverja menntun en enga, eins og nú er látið viðgangast. Þetta finnst okkur Kvennalistakonum fráleit leið og ég leyfi mér að efast um að fóstrur upp til hópa séu hlynntar þessari hugmynd, eins og gefið er í skyn í grg. með þessu frv.

Fóstruskorturinn hefur skapað mikil vandamál. Sá skortur stafar fyrst og fremst af smánarlegum kjörum þessarar starfsstéttar því að vissulega er fjöldi menntaðra fóstra í öðrum störfum þar sem þær hafa í mörgum tilvikum ekki ráð á því að sinna því starfi sem þær hafa menntað sig til. Vonandi eykst skilningur á mikilvægi fóstrustarfsins og vilji til að bæta aðstæður þeirra í starfi og vilji til að hækka launin svo að af þeim megi a.m.k. lifa. Að því ber að vinna.

Fóstruskorturinn er vitanlega nákvæmlega sama eðlis og kennaraskorturinn og á sér nákvæmlega sömu orsakir, vanmat á eðli starfsins og mikilvægi og léleg laun í samræmi við það vanmat. Mér vitanlega hefur þó engum dottið í hug að lagfæra ástandið til bráðabirgða með því að búa til nýja stétt, þ.e. kennaraliða, eins konar annars flokks kennara.

Það er þess konar hugmynd sem flm. eru með í 3. gr. þessa frv. Þeir segja að það sé best að hafa fóstrur með alla sína menntun en í rauninni dugi nú alveg fólk með eins árs nám að baki.

Að okkar mati er þetta uppgjöf. Óttast flm. ekki að það verði erfiðara eftir en áður að hefja fóstrustarfið til vegs og virðingar og þar með vonandi til réttmætari launa ef búið væri að lögleiða minni og lakari menntun til fósturstarfa? Ætli viðsemjendur fóstra verði nokkuð yfir sig fúsir að leiðrétta kjör þeirra ef þeir eiga völ á ódýrari starfskrafti sem þó er viðurkenndur?

Á hinn bóginn er svo augljóst af frv. að menntaðar fóstrur eiga að ganga fyrir - og þó nú væri. En hvað á þá að verða um fósturliðana þegar fóstrur verða orðnar nógu margar? Á þá að þurrka út fósturliðana? Það er kannske langt í land að við séum komin með nægilega margar fóstrur til að manna öll dagvistarheimili. En að því er stefnt og hvað á þá að verða um fósturliðana?

Ef þetta frv. yrði að lögum og settur yrði á stofn fósturliðaskóli í líkingu við þann sem lýst er á fskj. yrði hér til ný starfsstétt og þá yrði hér væntanlega til fósturliðafélag sem stæði að sjálfsögðu vörð um sína stétt, enda ekki hægt að mennta og skapa nýja stétt með það beinlínis að markmiði að útrýma henni þegar hennar er ekki lengur þörf.

Nú er fóstruskorturinn leystur með því að ráða ófaglært starfsfólk og a.m.k. sums staðar gefst þessu fólki kostur á námskeiðum sem gera það hæfara til starfsins og hækka það lítillega í launum. Þetta er auðvitað neyðarlausn og skapar auk þess óæskilega stéttaskiptingu á dagheimilum. Fósturliðar mundu festa slíkt ástand í sessi. Hugsanleg afleiðing yrði svo að upp risu dagheimili í einkarekstri sem keypti til sín menntaðar fóstrur og þar yrðu börn þeirra sem hefðu efni á að borga aukalega fyrir uppeldi barna sinna. Dagheimili hins opinbera yrðu svo mönnuð ódýrara og verr menntuðu starfsfólki, fósturliðum og ófaglærðu fólki. Það er auðvitað ekki gefið að svona færi en það er hugsanlegt og það bið ég hv. flm. að íhuga mjög vandlega.

Kvennalistinn vill standa vörð um starf og menntun fóstra og telur farsælla að beita sér fyrir bættum kjörum þeirra, betri aðstæðum, minna álagi og hærri launum fremur en að búa til og löggilda nýja starfsstétt því að það er ljóst að í náinni framtíð verður fóstruskorturinn leystur með bráðabirgðalausnum eins og ófaglærðu starfsfólki. Það er hreint ekki góður kostur, jafnvel þótt í mörgum tilvikum sé um miklar ágætis manneskjur að ræða sem sótt hafa námskeið og lagt sig fram um að sinna þessu starfi sem best. Að búa til og löggilda nýja 2. flokks starfsstétt væri spor aftur á bak í baráttunni fyrir betri kjörum fóstra og viðurkenningu samfélagsins á mikilvægi starfs þeirra.

Ég hef ekki um þetta fleiri orð núna en vil endurtaka að við styðjum mjög einlæglega 1. og 4. gr. þessa frv.