11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3688 í B-deild Alþingistíðinda. (3377)

368. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er orðin allmikil umræða um það mál sem hér er til meðferðar og vildi ég aðeins koma inn á nokkur þau gagnrýnisatriði, sem hér hefur verið komið að, í afar stuttu máli.

Fyrsta gagnrýnisatriðið fjallar um það hvort mál þetta skuli falla undir landbrn. eða sjútvrn. Að sjálfsögðu er það ekki aðalatriði málsins. Því verður þó ekki á móti mælt að selurinn er sjávardýr og allar rannsóknir, er varða hann, eru á vegum stofnana sjútvrn. og sjávarútvegurinn á hér mikilla hagsmuna að gæta.

Nú er það svo að ýmiss konar veiði getur átt sér stað nálægt ströndum landsins í svokölluðum netlögum. Ég minni á grásleppuveiðar í því sambandi. Það hefur þótt sjálfsagt að stjórn slíkra veiða væri samræmd af sjútvrn. Hér hefur hins vegar verið gerð sú breyting að sjútvrn. hafi um málið samvinnu við landbrn. og ætti það að tryggja að landbrn. geti með enn frekari hætti tryggt hagsmuni landeigenda í þessu sambandi. Hins vegar gengur frv. út á það og það kemur skýrt fram í frv. að landeigendur einir eigi rétt til nýtingar á selveiði í jörðum sínum sem er aðalatriði málsins.

Annað atriði, sem nokkuð hefur verið deilt um, er hversu ríkan þátt selurinn á í því vandamáli sem hringormurinn er og því haldið fram að ekki hafi verið færðar nægilegar sannanir fyrir því. Auðvitað má alltaf um það deila hvort mál sé nægilega sannað. En allar líkur benda til þess að hér sé um samhengi að ræða. Það liggur fyrir að ef ekki er gripið til fækkunar sela fjölgar selnum um a.m.k. 6% á ári hverju. (Gripið fram í: Endalaust?) Auðvitað eru alltaf sveiflur í náttúrunni og verða ávallt og það er kannske hættulegt að fara með alveg ákveðnar prósentur í því sambandi. En engar sérstakar varnir hafa verið teknar upp af skepnunum sjálfum í þessu sambandi. Þær eru aðallega háðar náttúrunni og því lifibrauði sem er þar að finna. En ég held að almennt geti menn verið sammála um að tilhneigingin er sú að slíkum stofnum fjölgi, enda séu náttúruleg skilyrði til þess. En rétt er að hafa þann fyrirvara.

En vegna þessa máls og þeirra bréfa sem hafa komið um 15. gr. tilskipunar frá 1849 vildi ég aðeins gera það að umræðuefni. Það er nokkuð ljóst að orðalag er ekki ótvírætt um hvort 15. gr. tilskipunar 1849 um friðun utan Látra heldur gildi eða ekki. Tilgangurinn var að svo yrði ekki vegna þess að árlegar friðlýsingar skv. tilskipuninni hafa ekki átt sér stað og því gert ráð fyrir að sjútvrn. grípi til friðunaraðgerða með stoð í lögum, þ.e. ef frv. þetta verður að lögum. Því þykir mér rétt að lýsa því yfir að ráðuneytið mun að sjálfsögðu sjá til þess að friðun haldist utan við nytjuð sellátur á sama hátt og verið hefði án lagabreytinga.

Að því er varðar brtt. sem hér hefur verið fram borin vildi ég gera hana lítillega að umræðuefni. Ef frv. er samþykkt í óbreyttri mynd yrði staðan eftirfarandi:

1. Landeigendur ættu einir rétt til nýtingar selveiði á jörðum sínum, þar á meðal með skotveiði.

2. Ráðherra gæti í samráði við lögbundna aðila bannað veiðar á ákveðnum svæðum eða sett reglur um framkvæmd þeirra skv. 6. gr. Reglur þessar mundu þó ekki skerða rétt einstakra landeigenda til nýtingarréttinda sinna innan netlaga.

Yrði hins vegar brtt. hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar samþykkt kæmi sú staða upp að allar skotveiðar innan línunnar yrðu óheimilar án samráðs við landeigendur. Þá sköpuðust ýmis vandamál: Í fyrsta lagi, hver er landeigandi utan netlaga jarða? Í öðru lagi er vandséð hvernig hægt væri að hafa samráð við þann fjölda eigenda sem land og eyjar eiga við og í stórum hluta Breiðafjarðar.

Mér er ljóst að það verður að tryggja að ekki skapist það ástand á Breiðafirði að menn gangi eða sigli þar um skjótandi eins og hver getur. Það má að sjálfsögðu aldrei gerast. Ráðuneytið mun að sjálfsögðu sjá til þess að svo verði ekki og tryggja þann tilgang sem fram kemur í brtt. hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar.

Hitt er svo annað mál að óframkvæmanlegt er að hafa samráð við alla landeigendur í þessu sambandi, m.a. vegna þess að hér er um eyjar að ræða þar sem búseta hefur verið lögð niður og margir erfingjar eiga í hlut og landeigendur afar margir. Ég held því að það sé nánast óframkvæmanlegt að sinna þeirri lagaskyldu, ef

það yrði lögfest, að hafa samráð við alla þessa aðila. Ég vænti þess að hv. þm. Friðjón Þórðarson geti með tilliti til þessa dregið þessa till. til baka, enda veit ég að í hans huga er fyrst og fremst að koma í veg fyrir slíkt ástand sem gæti skapast ef menn halda ekki vöku sinni varðandi hið sérstæða lífríki sem á Breiðafirði er.

Þetta frv. á sér mjög langan aðdraganda. Það var undirbúið af fyrri ríkisstjórn undir forustu hæstv. núv. forsrh. og var lagt fram í þeirri ríkisstjórn í febrúar 1983. Það var kynnt þá í þingflokki Framsfl. og heimild veitt þar til þess að það mætti koma hér fram á Alþingi en mér er ekki kunnugt um hvaða endalok það fékk þá í öðrum þingflokkum þeirra sem studdu þá ríkisstj. En ég segi nú þetta m.a. vegna þess að þeir sem ekki hvað síst hafa fjallað um þetta mál hér á Alþingi nú voru ráðherrar í þeirri ríkisstj.