11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3690 í B-deild Alþingistíðinda. (3378)

368. mál, selveiðar við Ísland

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það var hárrétt hjá hæstv. ráðh. að þetta frv. var samið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og það merkilega skeður að helstu andstæðingar frv. í þinginu eru um leið mestu málþófsmennirnir í þessu máli. Það eru nefnilega þrír ráðherrar úr fyrrv. ríkisstjórn sem hafa beitt sér hvað mest gegn þessu sjálfsagða frv. af mismunandi ástæðum.

Í fyrsta lagi ber sjálfsagt að nefna hv. þm. Pálma Jónsson sem var landbrh. og hafði með selinn að gera, enda er selurinn eins og hvert annað búfé og talinn með heimiliskettinum í gömlum ljóðum þar sem kötturinn söng á bók en selurinn spinnur hör á rokk. Þetta var eins og hvert annað kvikindi úr landbúnaðinum í þá daga, en síðar hafa menn uppgötvað það, a.m.k. þeir sem sáu til sjávar, að selurinn er sjávardýr. Nú er fyrst komið að því að viðurkenna bað.

Ástæðan til þess að hv. þm. Pálmi Jónsson hefur lagst svona mikið gegn þessu er að vísu önnur. (HG: Hvernig er með laxinn?) Það er auðvitað stuðningur hv. þm. við núv. landbrh. Hann treystir honum miklu betur en hæstv. sjútvrh. til að koma einhverjum „sving“ í hlutina og ganga hreint til verks og gera það sem gera þarf. Auðvitað hefur hann þessa feiknarlegu trú á honum og það er helsta einkennið í hans ræðuhöldum.

Að sjálfsögðu á selurinn heima undir sjútvrn. Það finnst þeim hins vegar ekki í Búnaðarfélaginu. Í áliti sem ég fékk í bréfi frá búnaðarfélagsfólki var hvergi vitnað í yngri heimildir en lög og konungstilskipanir frá miðri 19. öld. Það lýsir einmitt ástandinu á Búnaðarfélaginu og framsóknarheimilinu öllu. (ÓÞÞ: Er sjútvrh. svona gamall líka?) Hæstv. sjútvrh. er undantekning.

Manni dettur ýmislegt í hug þegar maður hlustar á þessar endalausu ræður sérfræðinga því að sumir menn hafa talað þannig hér að þeir væru þeir einu sem allt vissu og hinir hefðu rangt fyrir sér. Meira að segja hefur myndarlegur jarðfræðingur í okkar hópi haft vísindin mjög á lofti, jafnvel þótt hann hafi lítið vit á skepnum og meira vit á vulkanólógíu eða einhverju slíku. Þessir menn geta auðvitað ekki kennt okkur neitt. Sannleikurinn er sá. Menn hafa nefnilega gleymt meginstaðreyndinni í þessu máli og hún er sú að það er augljóst og vitað að selurinn er hýsill fyrir hringorminn og þá fyrst og fremst útselurinn. En andmælendur frv. hafa sniðgengið þær staðreyndir eins og þeim sýnist og eins og þeir eru vanir. (SJS: Þetta er ekki rétt.) Auðvitað er það rétt. (SJS: Ég er eini maðurinn sem kom þessu á framfæri.) Ég held að hv. þm. ætti ekki að kalla fram í fyrir mér svo að ég fari ekki að rekja ræður hans um sköpunarverkið. Ég held að það væri best að það gleymdist sem fyrst, þvílík endaleysa sem þar var á ferðinni.

Ég er næstum viss um að margir andmælendur þessa frv. hafa annaðhvort ekki lesið það eða ekki skilið það nema þá að þeir hafi lesið það eins og skrattinn Biblíuna og við vitum hvernig hann gerir það. (Gripið fram í.) Já, það er rétt. Þetta eru gömul þjóðleg sannindi. Ég ætla að biðja hv. þm. að draga þau ekki í efa. Þau fræði eru álíka gömul og fræðin í Búnaðarfélaginu og þarf ekki að hafa fleiri orð um það.

Hvað er þá í þessu frv.? Ósköp einfaldlega það í fyrsta lagi að það á að fara að stjórna þessum hlutum. Andmælendurnir vilja ekki láta stjórna þeim. Réttilega er sagt í frv. að sjútvrn. sé heppilegast til að stjórna þessum veiðum. Undir sjútvrn. eru líffræðistofnanir, eins og Hafrannsóknastofnun sem er eðlilegur rannsóknaraðili. Þessum aðila er þá falið að annast vísindalegar rannsóknir í þessum efnum sem eru nauðsynlegar. Andmælendurnir virðast vera á móti því líka. Þeir hafa sem sagt fundið sannleikann eins og shítar og hvítasunnumenn.

Það er sem sagt í fyrsta lagi verið að reyna að koma á stjórn í þessum málum, í öðru lagi er verið að kveða á um rannsóknir þessara hluta og í þriðja lagi er tekin upp mikil samvinna. Þessir menn eru á móti samvinnu. Samráð. Þeir hrinda þeim frá sér. Og auk þess á að koma í veg fyrir að margir aðilar séu að rannsaka þessa hluti. Það er nógu víða í þessu þjóðfélagi þar sem verið er að gera það sama á tveimur eða fleiri stöðum. Þarna á þetta að vera í einum réttum farvegi. Andmælendurnir hafna því.

Í 4. gr. frv. er tekið skýrt fram að landeigendur mega einir veiða sel á sinni landareign og um það er ekkert að efast. En í 4. gr. er ein málsgr. dálítið sérstök og með leyfi forseta ætla ég að lesa þessa stuttu málsgr.:

„Nú liggur land að sjó og á þá landeigandi selveiðar 115 metra á haf út.“

Það er dálítið sérkennilegt að orða þetta þannig vegna þess að 115 metrar eru svo stutt vegalengd að venjulegur meðalselur sem sæmilega er syndur er ekki nema 30 sekúndur að skreppa þetta. Auðvitað er þetta býsna stutt. Og þar sem bændur vilja nytja sel er það að mínum dómi allt of stutt vegalengd því að skotmenn fæla selinn úr látrum sínum jafnvel þó að lengri vegalengd væri. Ég tel æskilegast að bændur nytjuðu selinn og dræpu hann sem mest, a.m.k. um skeið, og þá þyrfti ekki að koma til skotveiða á Breiðafirði eða annars staðar ef þeir sæju um að nýta selinn. Það er þess vegna sem er orðið svo mikið af honum. En ef menn nýta ekki selinn og drepa ekki kópana verði skotmönnum leyfilegt að fara að drepa sel. Ég hef viðrað þetta sjónarmið mitt aðeins við hæstv. ráðh. og mér fannst hann ekki taka því illa.

Að hinu leytinu til held ég að ég geti alls ekki stutt tillögu hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar. Mér finnst hún ganga of langt. Hins vegar er réttara að gera það að mínum dómi eins og ég var að nefna.

Herra forseti. Hvert álit sem menn hafa á því hvort á að drepa meira eða minna sel hygg ég að þetta frv. geti falið og feli það allt saman í sér. Ég held að menn hafi ekki gætt nægilega að því hvað í því stendur, einkum í 6. gr. Þar er sagt hvorki meira né minna að sett verði í reglugerð að það sé hægt að banna selveiðar algerlega á vissum svæðum, það megi takmarka selveiðar við ákveðinn árstíma, það megi friða ákveðnar tegundir sela og setja reglur um veiðiaðferðir og vopn sem notuð eru til að drepa selinn, hvernig eigi að ganga frá dauðum sel og setja reglur í vísindalegum tilgangi - það er nú víða sem gert er ýmislegt í vísindalegum tilgangi í ráðuneytunum núna - og ákveða aðgerðir um fækkun sela ef þörf þykir. Og síðan kemur að ákveðið er að þetta skuli gert að fengnu samþykki Náttúruverndarráðs. Það þarf samþykki Náttúruverndarráðs til að veiða sel á friðlýstu landi. Mér dettur t.d. í hug eitt friðlýst land býsna nálægt minni heimabyggð, sem er Surtsey. Selur hefur hvergi haft næði í kringum Vestmannaeyjar fyrr en nú að þessi nýja eyja kom með miklum sandfjörum. Þær eru allar fullar af sel og sér ekki í sandkorn á milli þeirra þar sem enginn selur var. Hvernig geta menn þá barist um með þeim ósköpum sem þeir hafa gert og hvernig skyldi standa á því, ef maður kíkir í ræðu hv. þm. Ólafs Þórðarsonar sem er selafriðunarmaður eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem ekki vill láta skjóta sel nema hann játi. . . (SJS: Ætlar þm. að túlka?) Þar á ég við þær lagabreytingar við 8. gr. þar sem annars vegar er lagt til að felld verði úr gildi lög um selaskot á Breiðafirði og uppidráp og hins vegar um útrýmingu sels í Húnaósi. Í ræðum sumra andstæðinga þessa frv. hefur það komið fram oftar en einu sinni að það standi til að útrýma sel. Núna á að fara að drepa sel. Glæpamennirnir í sjútvrn. undir forustu Halldórs Ásgrímssonar eru að byrja að drepa sel í fyrsta skipti. Það er nú eitthvað annað.

Það hefur verið drepinn selur nú undanfarin ár sem samsvarar að meðaltali um 20 árum. Það er ekki verið að byrja á því núna. Það eru nefnilega sumir hv. þm., sem talað hafa hér í þessu máli, sem halda að nú sé selurinn friðaður af því að hann hefur svo falleg augu. En hann hefur verið drepinn býsna grimmt á undanförnum árum þannig að með þessu frv. er alls ekki verið að leggja það til að byrja að fækka selum. Það er alger misskilningur.

Varðandi ákvæði í lagabreytingunum um Húnaós hafa menn ekki haft fyrir því að fletta upp í lagasafninu til að finna hver þau ákvæði voru. Þau eru þess eðlis að veiðifélag í Húnaósi hafði skv. þessum lögum og hefur enn einkaleyfi á því, og gætið þið nú að, að útrýma sel í Húnaósi. Það er þessi lagagrein sem á að fella niður. (ÓÞÞ: Og hvað er fleira?) Og í næstu grein segir að sóknarpresturinn að Steinnesi fái bættan skaðann að eiga ekki möguleikana á því að drepa selinn. Þetta er árið 1937 og líklega hefur það verið séra Þorsteinn Gíslason sem sat Steinnesið um það leyti.

Menn hafa verið að tala um útrýmingu sels og það sé að hefjast nú. En það er auðvitað hinn mesti misskilningur. Menn eiga ekki að temja sér slíkan málflutning. Er ekki rétt fyrir hv. þm. að venja sig á það að horfa einungis til staðreyndanna, en láta ekki tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur? Menn sem verða þekktir að slíkum málflutningi verða að mínum dómi ekki teknir alvarlega í framtíðinni, ósköp einfaldlega það. Þetta er alvarlegt.

Herra forseti. Um þetta mætti auðvitað margt fleira segja. Því miður hef ég ekki tíma til þess. Ég er samt dálítið undrandi á því að hæstv. sjútvrh. skuli ekki hafa lagt þetta frv. miklu fyrr fram, ekki síst vegna fyrri reynslu. Fyrri reynsla er sú að þrátt fyrir að málin hafi verið lögð miklu fyrr fram áður hefur frv. ekki fengið afgreiðslu. Þess vegna hélt ég að hæstv. ráðh. vildi hafa vaðið fyrir neðan sig í þessu efni og leggja frv. fram í tíma þannig að ekki væri hætta á því að andstæðingar frv. legðust í málþóf eins og þeir eru vísir til. Eða var hæstv. ráðh. ekki alvara? Mér datt það fyrst í hug þegar ég sá þetta birtast núna á síðustu vikum að hann meinti kannske ekkert með þessu, vildi sýna þetta aðeins. En ég veit raunar það gagnstæða. Hæstv. ráðh. vill fá þetta í gegn og það viljum við hinir líka. Ég ætla ekki að nefna þann þáttinn sem víkur að afleiðingum hins mikla hringormafjölda. Það er mjög alvarlegt mál og dýrt, kostar hundruð milljóna kr., og þegar allt kemur saman gæti það kostað 700-800 millj. Það er gaman að sjá duglegar fiskverkunarkonur vinna sín störf af alúð, kunnáttu og samviskusemi, en jafnleiðinlegt er að sjá þegar þessar blessaðar konur verða að eyða mestu af tíma sínum til að slíta upp þennan orm.

Margt hefur verið sagt hér af litlu viti tiltölulega, eins og menn undruðust að kæmi hringormur í þorskinn á Halanum. Ég er kannske einn af fáum hér sem hef verið þar vikum, mánuðum og árum saman. Það er tilfellið með þorskinn á Halanum að hann vex ekki á trjánum. Þetta er fiskur sem hefur alist upp í fjörðum, Breiðafirði, Vestfjörðum, kringum allt land, og fer fullvaxinn þaðan út. Það er a.m.k. alveg ljóst að þorskurinn er vel syndur og hann getur synt með hringorminn og þarf ekki að fá hann í sig á staðnum.