11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3698 í B-deild Alþingistíðinda. (3380)

368. mál, selveiðar við Ísland

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil ekki bregða fæti fyrir að ný löggjöf verði sett á þessu Alþingi um selveiðar við Ísland. Á hinn bóginn - þó að ég hafi gagnrýnt þetta frv. nokkuð - neita ég því að ég hafi beitt málþófi heldur miklu fremur talað um staðreyndir. Að því leyti verð ég að gera athugasemd við málflutning vinar míns, hv. 4. þm. Suðurl., sem brá okkur um málþóf.

En ég hef bent á að verði þetta frv. að lögum eins og það lítur nú út eru felld úr gildi lög nr. 30 frá 27. júní 1925, um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, sbr. 8. gr. frv. Þetta fer ekki á milli mála. M.ö.o.: þessi lína, sem lengi hefur gilt á Breiðafirði, er numin úr lögum. Hún er í gildandi lögum. Hún var áður í löggjöf frá síðustu öld, frá 1855, og fyrr á öldinni var meira að segja gengið svo langt að Breiðafjörður allur, frá Öndverðarnesi í Bjargtanga, var friðaður fyrir selaskotum. Síðan var þessu breytt með lögum þeim, sem nú gilda, eins og ég nefndi.

Ég viðurkenni að nú er öldin önnur á margan veg. Það fækkar íbúum í eyjabyggðinni. Hún leggst víða í auðn. Og þar að auki er hringormur í fiski kominn til sögunnar sem veldur miklu tjóni. En eigi að síður eru menn mjög uggandi ef hin fornu ákvæði um þessa friðunarlínu á Breiðafirði verða numin úr gildi. Mér finnst það ekkert undrunarefni ef menn líta til liðins tíma jafnskammt og þeir sjá fram undan sér. Það er ekki hægt að neita því að menn hafa þegar orðir varir við að nokkrir menn, sem hafa fylgst með þessu frv. á hv. Alþingi, eru farnir að gera því skóna að það verði að lögum. Það er ekki hægt að neita því að víða hlakkar í veiðiþjófum. Það er áreiðanlegt að á þessu eyjasvæði á Breiðafirði skal nefnt að löggæsla er mjög erfið nú, en verður að mínum dómi enn erfiðari ef frv. verður óbreytt að lögum.

Hitt er svo annað mál að ég vil alls ekki andmæla því að rétt sé að fækka sel með skipulögðum hætti þar sem það er talið nauðsynlegt. En það er ekki hægt að komast hjá því að hlusta á þá menn sem best þekkja til þessara mála. Ég vil nefna aðeins eitt dæmi. Það er Eysteinn Gíslason bóndi í Skáleyjum. Hann hefur manna best fylgst með þessum málum og skrifað um það álitsgerð sem er algerlega fordómalaus að mínum dómi. Hann vill halda því fram að á síðustu árum hafi landsel ekki fjölgað í Skáleyjum eða nágrenni þeirra. Hins vegar gegnir öðru máli um útselinn.

Ég bendi á að ef á að fækka slíkum dýrastofni með skipulögðum hætti mun það ekki gert með því að senda á svæðið óskipulagðan hóp skotmanna. Það mundi aldrei verða gert t.d. í sambandi við grenjavinnslu. Það dytti engum í hug, sem ætlaði að fækka ref á grenjum, að senda hóp manna til fjalls sem aðeins hefði skotleyfi upp á vasann. Þetta eru ráðnir menn af sveitarstjórnum sem kunna að fara með byssu og bera ábyrgð á sínum verkum.

Ég get ekki varist því að láta það koma fram að af viðtölum mínum við þá menn sem þarna þekkja best til, og m.a. sýslumenn við Breiðafjörð sem ég nefndi í ræðu minni um daginn, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að bera fram brtt. við þetta frv. Hún er á þá leið að þessi friðunarlína, sem ég lýsti, er látin halda sér, en í seinni mgr. till., sem er á þskj. 817, er svo mælt, með leyfi forseta:

„Heimilt er ráðherra að veita undanþágu frá þessu ákvæði í samráði við landeigendur.“

Þarna fær hæstv. ráðh. í hendur víðtæka heimild í samráði við veiðiréttareigendur, þá sem best eiga að þekkja til mála.

Ég hef nú mælt þessi fáu orð fyrir þessari brtt. minni. Ég vil ekki tefja málið eða orðlengja þetta meira. En að gefnu tilefni get ég vel lýst því yfir að ég gæti fallist á að kalla till. mína aftur til 3. umr.