11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3708 í B-deild Alþingistíðinda. (3382)

368. mál, selveiðar við Ísland

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér sérstaklega að taka til máls við þessa umræðu. Ég hafði komið afstöðu minni á framfæri við 1. umr. málsins í þessari hv. deild og sú afstaða mín stendur enn óhögguð. Sú skoðun sem ég setti þar fram og þau rök sem ég færði fyrir henni tel ég að ekki hafi verið svarað, ekki á þann hátt sem eðlilegt er að rökræða mál, með rökum og gagnrökum. Ég kæri mig kollóttan, herra forseti, um það þó að einhverjir hv. ræðumenn vilji leggja þessu máli lið með því að koma hér í ræðustólinn og kalla alla gagnrýni, sem höfð er í frammi, bull og vitleysu. Það er í raun mjög létt að taka slíkri gagnrýni ef gagnrýni skyldi kalla. Ég tel mig hafa rætt málið með rökum. Ég hef leitast við að færa fyrir því ákveðin rök að hér væru mál ekki öll nógu vel grunduð og ég hlusta ekki á annan málflutning gegn því en gagnrök sem geta kallast því nafni. Ég vil taka fram, vegna þess að hæstv. sjútvrh. gekk í salinn, að ég á ekki við orð hans hér, fremur orð annarra manna sem hafa stimplað allar athugasemdir og alla gagnrýni sem bull og vitleysu. Slíkt læt ég mér í léttu rúmi liggja, herra forseti.

Ég vil taka það fram, til að menn velkist ekki í vafa um þá afstöðu mína vegna þess að mér hefur fundist gæta misskilnings í máli einstakra hv. ræðumanna, að mín afstaða gagnvart nýtingu á þessari dýrategund er auðvitað sú að við eigum að nýta hana eftir því sem skynsamlegt er og fært er eins og aðrar tegundir og nýta okkur afraksturinn af þessari auðlind, ef svo má að orði komast. Það hefur verið og er mín afstaða og þarf enginn að velkjast neitt í vafa um hana. Menn ráða því svo hvort það heitir í þeirra munni að vera sérstakur selafriðunarmaður eða ekki. Ég hef alist upp við það að nýta sel og ég hef sjálfur skotið sel og lít á hann sem eina tegund dýraríkisins sem við hér á Íslandi nýtum og hef enga sérstaka tilfinningasemi í sambandi við það. En ég tel að við eigum að gera það af skynsemi, eins og ætíð þegar við umgöngumst lifandi auðlindir, og við höfum engan rétt til þess að ganga þannig um slíkar auðlindir að óathuguðu máli eða illa athuguðu máli að við stefnum jafnvægi vistkerfanna í kringum okkur í hættu. Við höfum fyrir okkur ótalmörg dæmi um mistök sem menn hafa gert, kannske í góðri trú en af lítilli þekkingu, og til þess eru vítin að varast þau.

Hér kom fram hjá einum hv. ræðumanni, sem á undan mér hefur talað við þessa umræðu, hv. 4. þm. Suðurl., að allir þeir sem gagnrýnt hafa þetta mál hafi saman vandlega þagað yfir öllum staðreyndum málsins. Það er að vísu sú tegund umfjöllunar sem ég tel ekki svaraverða í svona umræðum. Ég vil þó vekja athygli á því, herra forseti, til að það komi fram í umræðunum að ég hef lesið yfir 1. umr. um þetta frv. í þessari hv. deild og svo merkilegt er það nú að það er aðeins einn ræðumaður í þeirri umræðu sem vekur sérstaklega í máli sínu athygli á ákveðinni fræðilegri staðreynd sem liggur fyrir og við er að styðjast í þessari umfjöllun, sem sagt þeirri að selurinn, ákveðnar tegundir sela sérstaklega, sé sannanlega lokahýsill fyrir ákveðnar tegundir hringorma. Mér virðist svo eftir fljótaskriftaryfirlestur á allri þessari umræðu að einungis einn þm. hafi komið þessu að í umræðunni - og hver var hann? Jú, það var sá sem hér talar. Ekki stemmir það nú, hv. 4. þm. Suðurl., að við höfum sérstaklega verið að reyna að stinga undan öllum staðreyndum málsins í okkar málflutningi. Mér leiðast heldur slík ummæli þegar það liggur fyrir á prenti t.d. í þessu tilfelli og geta menn þá flett upp á þingtíðindum líðandi þings eðlilega, dálki 3428, og þar gefur að lesa, með leyfi þínu, herra forseti, (GSig: Þetta var nú sagt í fyrra og hitteðfyrra. Þetta eru ekki nýjar fréttir.) eftirfarandi:

„Þó að það liggi fyrir að ákveðnar tegundir sela geti verið lokahýsill fyrir stóran hringorm o.s.frv.“

Þessu kom ég þarna að og ítrekaði reyndar í seinni ræðu minni við þessa umræðu. Ég tel mig því saklausan af því að hafa sérstaklega stungið undan þeim þó fræðilega grunni sem á er að byggja í þessu máli, en hann er veikur og það hef ég fjallað um. Þetta er, eins og ég hef margoft sagt og skal segja einu sinni enn, ein af þeim staðreyndum sem við höfum út frá að ganga. En hún dugar okkur skammt, því miður, herra forseti, ein og sér og við þyrftum að vita svo miklu, miklu meira.

Ég hef á þeim dögum sem liðið hafa síðan við áttum umræðu um þetta, herra forseti, reynt að kynna mér þessi mál ofurlítið nánar, m.a. með aðstoð hæstv. sjútvrh. sem lét mér í hendur greinarkorn sem ég hef lesið. Þar kemur það vissulega fram, eins og ég hef reyndar viðurkennt, að það lítur út fyrir að vera samband á milli selafjölda og hringormatíðni í fiski. Hæstv. sjútvrh. sagði sjálfur nokkurn veginn óbreyttum orðum, ef ég má leyfa mér að reyna að vitna í það, herra forseti, að allar vísbendingar bentu til þess að þarna væri um ákveðið samband að ræða. Þetta er auðvitað alveg rétt. Ég mundi kannske ekki segja allar vísbendingar, en það er vísindalega rökstutt af mörgum fræðimönnum, sem kynnt hafa sér þessi mál, við Kanada, Bretlandseyjar, Ísland og víðar, að þarna virðist vera um samband að ræða. Það er auðvitað gott og blessað, menn eru þá komnir það áleiðis, en það dugar okkur líka skammt, herra forseti, því miður. Og við þyrftum að vita miklu, miklu meira. Við þyrftum að vita hvernig þetta samband er, hvers eðlis það er, hvernig því er háttað, hvaða tegundir eru þar á ferðinni, bæði tegundir sela og tegundir hringorms, og einnig þyrftum við að vita og kannske fyrst og fremst um eðli þessa sambands, magnbundið, og eðliseiginleika sambandsins.

Það vita menn almennt í náttúrufræðinni að samspil tegunda og samskipti tegunda eru flókin og margverkandi. Þau verka yfirleitt í báðar áttir. Hæstv. sjútvrh. áttar sig væntanlega á því að einni tegund í vistkerfinu getur ekki fjölgað um 6% á ári endalaust. Það hlýtur að vera bæði upphaf og endir á slíkum sveiflum. Þær eru háðar svo mörgu öðru í umhverfinu. Eins er með samspil annarra tegunda, eins og fiska, hringorms og sels. Þar er líka um flókið samband að ræða þar sem magnstærðir geta ekki verið jafneinfaldar og það að einni tegundinni fjölgi indefinitum um 6% á ári. Þannig verka einfaldlega ekki lögmál lífkerfanna.

Herra forseti. Það er ekki meining mín að halda hér uppi miklu málrófi um þetta og á því hef ég lítinn áhuga. Ég vil að sjálfsögðu að þetta mál fái sína þinglegu meðferð eins og önnur þingmál eiga að gera að undangenginni þeirri umræðu sem nauðsynleg er og upplýsandi getur talist í málinu. Slíkt á að vera okkar góða þinglega venja. Þess vegna ætla ég ekki að lengja mikið mál mitt. Ég tel að ég hafi komið minni afstöðu á framfæri. Eins og ég hef sagt hef ég ekki heyrt þau gagnrök andstæðra skoðana að það hafi breytt miklu hjá mér og þess vegna stend ég enn við þær athugasemdir og þá gagnrýni sem ég hef haft fram að færa.