11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3716 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

368. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt vegna ábendingar hv. 10. landsk. þm.

Ég er þeirrar skoðunar að það sem hún sagði hafi verið afar skynsamlegt. Hún fór mjög vel efnislega ofan í það sem máli skiptir varðandi þetta mál. Auðvitað á að ræða það á þeim grundvelli. En vegna orða hennar sé ég ástæðu til að endurtaka það sem ég sagði fyrr í dag. Það var einmitt út af því sem stendur í 4. gr. Eftir athugun sem ég bað um að fram færi á því sem þm. gerði að umtalsefni gat ég þess hér fyrr í dag að orðalag er ekki ótvírætt um hvort 15. gr. tilskipunar frá 1849, um friðun utan látra, heldur gildi eða ekki. Tilgangurinn var að svo yrði ekki vegna þess að árlegar friðlýsingar skv. þessari tilskipun hafa ekki átt sér stað og því gert ráð fyrir að sjútvrn. grípi til friðunaraðgerða með stoð í þeim reglum sem eru skv. þessu frv. Því taldi ég rétt að lýsa því yfir vegna þessa að ráðuneytið muni að sjálfsögðu sjá til þess að friðun haldist utan við nytjuð sellátur á sama hátt og verið hefði án lagabreytinga. Með þessu tel ég að tekin séu af öll tvímæli í sambandi við þetta umrædda mál og eru m.a. uppistaðan í þeirri gagnrýni sem fram kemur í bréfi Búnaðarfélags Íslands og ætti að vera nægileg trygging til þess að svo muni verða því að allar heimildir eru til þess í frv. Vænti ég þess að það verði til þess að eyða öllum misskilningi um þetta mál því að að sjálfsögðu er meginatriðíð að bændur nytji þessi hlunnindi og hugsi um þau og selastofninum sé með þeim hætti haldið í skefjum.

Umr. (atkvgr.) frestað.

1