14.04.1986
Efri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3720 í B-deild Alþingistíðinda. (3392)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Einhver smámisskilningur hefur orðið við frágang og undirbúning nál. Ég var þeirrar skoðunar að í nál. yrði hin hefðbundna setning sem svo oft er að finna í nál.: „Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja og fylgja brtt." Þess vegna skrifaði ég undir þetta án fyrirvara í rauninni, en mergurinn málsins er sá að ég skil alls ekki þá brtt. sem lögð hefur verið til um breytta skipan á stjórn útflutningsráðsins. Ég er henni andvígur og mun greiða atkvæði gegn henni vegna þess að það kom upp í umfjöllun nefndarinnar um þetta mál að helst vildu öll ráðuneyti eiga sína fulltrúa í stjórn útflutningsráðsins. Það er auðvitað ótækt að svona útflutningsráð verði einhvers konar undirnefnd ráðuneytanna. Það er hreint út í hött. Síðan kom í ljós að ráðherrar voru hreint ekki á eitt sáttir um hvaða ráðuneyti ættu að eiga fulltrúa í stjórn útflutningsráðsins og var þá brugðið á það ráð að eitt ráðuneyti gegndi þar varamennsku fyrir annað og var jafnframt látið fylgja inn í nefndina að þetta mundi líklega verða þannig í framkvæmd að allir varamenn mættu á stjórnarfundum. Þessir stjórnarfundir útflutningsráðsins verða þá a.m.k. 16 manna samkomur þar sem helmingurinn hefur atkvæðisrétt en allir hafa tillögurétt og málfrelsi. Það kom fram í nefndinni að þessi yrði hátturinn á og ég held að þetta sé mjög óskynsamleg leið. Ég greiði þess vegna atkvæði gegn brtt. sem hér hefur verið flutt til að miðla málum milli ráðuneytanna sem komu sér ekki saman um skipun málsins. Ég held að það sé rétt að hafa þann háttinn á sem er í frv. Um það var orðið samkomulag milli þeirra aðila sem undirbjuggu málið og ég held að það sé rétt að vera ekkert að hrófla við því. Það eru miklar efasemdir um að þetta sé endilega rétt skipun. Það hefur t.d. verið spurt: Hvers vegna eiga Flugleiðir fulltrúa í útflutningsráði? Væri ekki eðlilegra að Ferðamálaráð t.d. ætti fulltrúa í þessu ráði. Um þetta má auðvitað lengi deila. Á ekki Verslunarráðið að eiga þarna fulltrúa? Það verður seint gert þar svo öllum líki. En af því að samkomulag hafði tekist um þá skipan sem frv. gerði ráð fyrir, og það má auðvitað hugsa sér margar aðrar leiðir, tel ég rétt að styðja þá skipan til að byrja með, en hef jafnframt flutt brtt. við frv., þ.e. við 10. gr. þess, brtt. sem er að finna á þskj. 835 og dreift hefur verið hér í deildinni, og hún er um að lög þessi gildi til 31. maí 1990, þau gildi í fjögur ár, og í þingbyrjun 1989 skuli viðskrh. leggja fyrir Alþingi nýtt frv. til laga um Útflutningsráð Íslands.

Ég held að það sé heldur skynsamleg hugmynd að endurskoða þessi lög innan fjögurra ára í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af þeim og þá má hugsa sér að endurskoða skipan stjórnarinnar í ljósi þeirrar reynslu sem menn hafa fengið í fjögur ár. Ég held að það sé hæfilegur tími, en ítreka að þeirri brtt. sem meiri hl. nefndarinnar flytur er ég andvígur fyrst og fremst vegna þess að ég held að hún sé mjög óskynsamleg. Þarna er verið að friða ráðherra sem telja sín ráðuneyti sjálfskipuð í útflutningsráð. Eins og lagt var fyrir í nefndinni, að það ættu í rauninni allir varamenn að sitja þessa fundi, held ég að sé verið að eyðileggja þetta útflutningsráð. 16 manna stjórn er ekki mjög líkleg, að minni hyggju, til að starfa vel og skynsamlega. Til þess er hún einfaldlega of fjölmenn. Ég held að það horfi ekki til nokkurra heilla að samþykkja þessa brtt. Ég held að það sé þessu fyrirhugaða útflutningsráði miklu frekar til miska og ills að fara þessa leiðina sem farin er, því miður, til þess að sætta sjónarmið ráðherranna innan hæstv. ríkisstj. þannig að þeir geti bærilega glaðir unað við sitt hvort sem þeir eru hér á landi eða erlendis þessa dagana.