14.04.1986
Efri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3721 í B-deild Alþingistíðinda. (3394)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hv. 5. landsk. þm. um að hér hafi orðið, eins og hann kom inn á, einhver misskilningur á milli okkar nefndarmanna í sambandi við afstöðu til málsins. Sá misskilningur er leiðréttur með ræðu hans. Ég tek það á mig sem frsm. þessarar nefndar að bera ábyrgð á því, enda er það komið skýrt fram að einstakir nefndarmenn skrifa undir með fyrirvara til þeirra brtt. sem fluttar eru við frv. Ég verð að taka það á mig að þessi fyrirvari kom ekki inn í nál. eins og réttast hefði verið og nákvæmast.

En örfá orð í sambandi við brtt. Eins og ég kom inn á í framsögu minni fyrir nál. leggja einstök ráðuneyti áherslu á að koma sínum sjónarmiðum að í stjórninni í sambandi við útflutningsmál. Það getur tæpast verið af öðru en hinu góða, ef ráðuneytin eða þeirra menn hafa áhuga fyrir útflutningsmálum, að þeir geti fylgst með því sem fram fer á þeim vettvangi innan ráðsins og komið athugasemdum sínum á framfæri þar. Það er reiknað með því að í reglugerð, sem sett verður með frv., verði ákvæði um að varamenn verði boðaðir á stjórnarfundi þannig að þeir hafi tækifæri til þess að fylgjast með því sem fram fer á þessum vettvangi. Ég get ekki séð að þetta sé til neins vansa og mun því að sjálfsögðu standa að þessari brtt. og samþykkja hana.

Ég vildi að þetta kæmi fram, en formgalla á nál. tek ég á mig og ítreka að einstakir nefndarmenn skrifa undir með fyrirvara um samþykki sitt við brtt. sem fylgja frv.