14.04.1986
Efri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3722 í B-deild Alþingistíðinda. (3395)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það er rétt að af vangá hefur það fallið niður að nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja brtt., enda eru nefndarmenn nú í óða önn að flytja þær og kemur það reyndar fram í nál. að á þeim muni vera von.

Ég álít að stjórn útflutningsráðsins sé hálfgert klúður eins og hún er í frv. Þar er gert ráð fyrir því að fjögur stórfyrirtæki eigi öll einn stjórnarmann, þ.e. Sölumiðstöðin, Sambandið, Flugleiðir, SÍF, en síðan á Félag íslenskra iðnrekenda fimmta manninn og viðskrh. og utanrrh. tilnefna hvor ráðherra einn mann í stjórnina, en sá áttundi er tilnefndur af öðrum aðilum í útflutningsráði. Ég er þeirrar skoðunar að útflutningsráðið muni helst nýtast þeim aðilum sem þarna er ætlað að eiga einn stjórnarmann af átta og það væri meiri þörf á því að styðja við bakið á þeim en þessum stórfyrirtækjum sem öll eru með víðtæka sölu- og útflutningsstarfsemi í gangi og eru ekki líkleg til að leita á náðir útflutningsráðsins að neinu marki, eru kannske í raun og veru meira þarna upp á punt. Það verða litlu fyrirtækin, meðalstóru fyrirtækin sem mest þurfa á því að halda að útflutningsráðið beiti sér í þeirra þágu. Það er því algjörlega óeðlilegt að þessi fyrirtæki eigi ekki beinan aðgang nema að einum eða í mesta lagi tveimur fulltrúum í stjórn af átta.

Auk þess er það klúður að mörg ráðuneyti gera kröfu til að mega skipa fulltrúa í stjórnina. Ráðherrar eru mjög ósáttir við þetta fyrirkomulag, sérstaklega iðnrh., og því finnst mér eðlilegt að stokka skipulag stjórnarinnar upp, gjörbreyta því. Ég geri að tillögu minni að fimm stjórnarmenn verði kosnir af útflutningsráðinu án þess að nokkurt fyrirtæki eigi þarna sjálfkrafa fulltrúa, en þrír stjórnarmenn séu tilnefndir af ríkisstj. og henni þá ætlað að koma sér saman um frá hvaða ráðuneytum þeir verða.

Ég flyt því skriflega brtt. sem ekki hefur verið útbýtt, en hún er svohljóðandi:

„Upphaf 4. gr. orðist svo: Viðskiptaráðherra skipar átta menn í stjórn útflutningsráðs til tveggja ára í senn, svo og átta varamenn. Þar af skulu fimm aðalmenn og fimm varamenn tilnefndir af ráðinu, en ríkisstj. tilnefnir þrjá.“

Ég vil biðja virðulegan forseta að taka við þessari till. og leita afbrigða svo hún megi koma fyrir við atkvæðagreiðslu.

Að öðru leyti er ekki nema gott eitt að segja um þá viðleitni, sem hér er höfð uppi, að efla markaðsleit, starfsemi til stuðnings íslenskum útflutningi, þótt vissulega verði að viðurkenna að ákvæðin í 7. og 8. gr., um viðskiptafulltrúa, séu dálítið óljós. T.d. er alls ekki ljóst hjá hvaða ráðuneyti viðskiptafulltrúarnir verða starfandi eða hver eigi raunverulega að greiða þeirra laun. Um þetta á að setja sérstakar reglur og maður verður að treysta því að það verði gert að bestu manna yfirsýn, en vissulega hefði ég talið eðlilegra að það hefði komið skýrt fram í lögunum sjálfum hvort þessir menn yrðu starfsmenn utanrrn. og þægju laun frá því og hlytu þau réttindi sem fylgja starfsmönnum utanrrn., jafnvel þótt útflutningsráðið greiði þá einhverja greiðslur til utanrrn. vegna þessara starfa, eða hvort þessir menn eru beinlínis á launaskrá hjá útflutningsráðinu og þar með í raun og veru hjá allt öðru ráðuneyti, væntanlega hjá viðskrn. Það er ankannalegt að ganga þannig frá lagasetningu að þetta sé í lausu lofti. En það er sem sagt gert ráð fyrir að um þetta verði settar reglur og sennilega er haft í huga að menn þreifi sig áfram í þessum efnum og þetta getur verið mismunandi og ætla ég þá ekki að vera að fetta frekar fingur út í þetta atriði, en þetta eru rök fyrir því, sem lagt var til af hv. þm. Eiði Guðnasyni, að lögin yrðu fljótlega tekin aftur til endurskoðunar að fenginni nokkurri reynslu.

Ég benti líka á að fjármögnunin í sambandi við útflutningsráðið er ansi mikið líka í lausu lofti eftir að verið er að stokka upp útflutningsgjaldið. Í raun og veru er þetta allt dálítið á floti þrátt fyrir að málið sé hér til endanlegrar afgreiðslu í deildinni.