14.04.1986
Efri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3731 í B-deild Alþingistíðinda. (3409)

416. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Með þessu frv. er lagt til að Söfnunarsjóður Íslands verði lagður niður og eignir hans og skuldir yfirteknar af ríkisviðskiptabanka. Söfnunarsjóður Íslands hefur verið starfræktur í tæp 100 ár en hann er stofnaður með lögum nr. 2 frá 1888. Samkvæmt lögum þessum er megintilgangur sjóðsins að gefa almenningi kost á að spara fé til langs tíma með reglulegum sparnaði. Söfnunarsjóðurinn telst því innlánsstofnun í skilningi núgildandi laga um Seðlabanka Íslands. Lögin frá 1888 skapa hins vegar ekki lengur heppilegan ramma fyrir starfsemi þessarar innlánsstofnunar og raunar má segja að uppbygging sjóðsins miðist við allt öðruvísi þjóðfélag en við búum við á Íslandi í dag.

Innlán í sjóðinn eru t.d. bundin mjög lengi og koma í veg fyrir að sjóðurinn geti sinnt eðlilegum þörfum sinna viðskiptamanna. Engir nýir viðskiptareikningar hafa lengi verið opnaðir við sjóðinn og starfsemin hefur hin síðari ár verið með allra minnsta móti. Ársreikningur síðasta árs sýnir þetta glögglega en þar er niðurstöðutala efnahagsreiknings tæpar 5 millj. kr. og eigið fé aðeins 112 þús. kr.

Í ljósi þessa þá er það samdóma álit allra sem til þekkja, þar á meðal bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, að leggja beri Söfnunarsjóð Íslands niður og fela einum viðskiptabankanna að taka yfir eignir, skuldir og eigið fé sjóðsins. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að þessu starfi verði lokið 1. sept. n.k.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla nánar um einstakar greinar frv. sem eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis en vil þó ekki láta hjá líða að greina frá því að í síðustu skýrslu bankaeftirlitsins um eftirlit með Söfnunarsjóði Íslands kemur fram að bókhald sjóðsins hefur verið í góðu lagi og reikningar vel frá gengnir. Sá maður sem hefur verið söfnunarstjóri um langt árabil hefur látið af störfum fyrir aldurs sakir en formsins vegna kaus Alþingi söfnunarstjóra fyrir jól og fékkst maður til þess að gegna því aðeins um örstuttan tíma. Því húsnæði sem sjóðurinn hefur haft hefur verið sagt upp en hann hefur verið staðsettur í Sparisjóði Reykjavíkur. Einnig vil ég láta það koma fram að ef þetta frv. verður að lögum, sem ég vona því að hér er um lítið frv. og skýrt afmarkað að ræða, er ætlunin að semja við Landsbanka Íslands um þessa yfirtöku. Eins og alþm. eflaust vita eru fjöldamargir reikningar eða sjóðir innan Söfnunarsjóðsins sem eru mjög veigalitlir eins og nærri má geta af þeim upplýsingum sem ég hef hér gefið.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.