14.04.1986
Neðri deild: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3744 í B-deild Alþingistíðinda. (3416)

238. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 821 er nál. um þetta mál frá samgn. Þar kemur fram að samgn. hefur haldið marga fundi um málið og fengið til viðræðna Ólaf Steinar Valdimarsson ráðuneytisstjóra og Ragnhildi Hjaltadóttur lögfræðing frá samgrn., Magnús Jóhannsson siglingamálastjóra, dr. Pál Sigurðsson dósent, Ásgeir Pétursson bæjarfógeta, Harald Henrýsson sakadómara og Magnús Thoroddsen hæstaréttardómara, formann réttarfarsnefndar.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með nokkrum breytingum.

Það er í fyrsta lagi brtt. við 2. gr. 6. tölul. orðist þannig:

Að fylgjast með rannsókn sjóslysa hjá siglingadómi og sjódómi og veita aðstoð við rannsókn sjóslysa. Rita umsögn um sjópróf til ríkissaksóknara.

2. Við 4. gr. 3. mgr. orðist svo:

Leita skal tillagna siglingamálastjóra um skipun í þessi störf. Siglingamálastjóri ræður annað fast starfsfólk samkvæmt ráðningarsamningi.

3. Við 5. gr. Í fyrsta lagi að 2. tölul. falli brott. Í öðru lagi að 4. tölul., sem verði 3. tölul., orðist svo:

Að fjalla almennt um öryggismál skipa og báta, þar á meðal að sjá um birtingu á niðurstöðum af rannsóknum sjóslysa, ekki sjaldnar en árlega, í samvinnu við nefnd þá er starfar að rannsóknum sjóslysa skv. 230. gr. siglingalaga, nr. 34 frá 1985, með síðari breytingum. 4. 8. gr. orðist svo:

Aðalaðsetur Siglingamálastofnunar skal vera í Reykjavík, en auk þess skal stofnunin hafa umdæmisskrifstofur í Vesturlandsumdæmi, Vestfjarðaumdæmi, Norðurlandsumdæmi, Austurlandsumdæmi og Vestmannaeyjum. Samgrh. ákveður að fengnum tillögum siglingamálastjóra mörk umdæma og hvar umdæmisskrifstofur skuli vera.

Með þessum breytingum er nefndin sammála um að frv. verði samþykkt.