14.04.1986
Neðri deild: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3745 í B-deild Alþingistíðinda. (3421)

383. mál, siglingalög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Á þskj. 822 er brtt. við þetta frv. frá þeim sem hér stendur og hv. þm. Stefáni Guðmundssyni. Í frv. stendur að samgrh. skuli skipa þriggja manna nefnd kunnáttumanna til fjögurra ára í senn í þá nefnd sem á að annast mál í sambandi við sjóslys. Það eru engir varamenn í þessari nefnd. Þessi nefnd getur þurft að taka til starfa hvenær sem er. Þykir okkur mjög óvarlegt að hafa bara þriggja manna nefnd þannig að hún gæti undir vissum kringumstæðum ekki verið til taks. Ef einn maður t.d. fellur úr teljum við að hún sé ekki starfshæf. Í flugslysanefnd er svipað fyrirkomulag, en þar eru nefndarmennirnir fimm. Til þess að reyna að tryggja að þessi nefnd verði virk teljum við eðlilegra að fimm menn séu í þessari nefnd þannig að nokkurn veginn sé tryggt að alltaf séu þrír tiltækir þegar þarf að kalla til þeirra.

Það voru ýmsar vangaveltur um þetta fyrirkomulag í nefndinni og eins og frsm. sagði vorum ýmsir kallaðir til, en þetta var niðurstaðan. Við sem stöndum að brtt. teljum mjög vafasamt að þessi nefnd verði virk öðruvísi en það séu a.m.k. fimm menn, eða þá varamenn, sem er verri kostur vegna þess að aðalmenn fylgjast með störfunum frekar, eru kallaðir til, en varamenn síður.