14.04.1986
Neðri deild: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3746 í B-deild Alþingistíðinda. (3422)

383. mál, siglingalög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að vekja athygli á því að hér er um að ræða, eins og hefur komið fram, verulega þýðingarmikið frv. varðandi meðferð og rannsóknir sjóslysa sem hefur verið í ólestri hjá okkur á undanförnum árum og áratugum. Hér er gerð tillaga um að stíga mjög þýðingarmikið skref í rétta átt að mínu mati í þessum efnum. Ég tel að þessar tillögur séu í öllum meginatriðum í samræmi við þau sjónarmið sem fram komu í tillögum öryggismálanefndar sjómanna.

Það sem ég vildi vekja athygli á, herra forseti, er fyrst og fremst að ég sé að einn nefndarmanna, hv. 4. þm. Norðurl. e., hefur skrifað undir nál. með fyrirvara. Hann er ekki kominn til fundar enn. Ég leyfi mér að fara fram á það við hæstv. forseta að hann fresti umræðunni um stund þangað til hv. 4. þm. Norðurl. e. kemur hér. Ég á von á að það verði á hverri stundu.

Umr. frestað.