14.04.1986
Neðri deild: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3748 í B-deild Alþingistíðinda. (3429)

12. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur tekið mál þetta, 12. mál þingsins, frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, til meðferðar og í nál. segir:

„Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj.

Fjarstaddur afgreiðslu málsins var Guðmundur H. Garðarsson.“

Undir álitið skrifa Guðmundur Bjarnason, Ólafur G. Einarsson, Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Geir Haarde og Kjartan Jóhannsson sem jafnframt er 1. flm. frv. þessa.

Nefndin sendi það til umsagnar Fjárlaga- og hagsýslustofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins. Í umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar er reynt að athuga hver kostnaður kunni að hljótast af þessu frv., verði það samþykkt, en Fjárlaga- og hagsýslustofnunin hefur ekki treyst sér til að meta þennan kostnað og með leyfi forseta segir svo í þessari umsögn:

„Frv. er um ferðakostnað sem greiða skal án tillits til vegalengdar. Samkvæmt núgildandi lögum er ferðakostnaður einungis greiddur ef vegalengd er meiri en 15 km. Ekki er unnt með góðu móti að áætla kostnað sem af slíkri breytingu yrði, enda ættu þá allir rétt á ferðakostnaðargreiðslu og yrði mesta aukningin hjá íbúum Reykjavíkur og nágrennis.“

Í umsögn Tryggingastofnunarinnar er hins vegar reynt að leggja mat á þennan kostnað og þar segir, með leyfi forseta:

„Engar upplýsingar liggja fyrir hjá slysatryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins um fjölda þeirra tilvika sem fallið hefðu undir ákvæðið sem frv. fjallar um hefði það verið í gildi á s.l. ári. Með vísan til þeirrar takmörkunar í ákvæðinu sem felst í skilyrðum um tíðni ferða, 30 á 12 mánuðum, má þó ætla að fjöldi slasaðra sem félli undir ákvæðið væri óverulegur. Á árinu 1985 nam endurgreiddur ferðakostnaður til læknis með leigubíl (50% kostnaðar) 29 673 kr. og sams konar ferðakostnaður með áætlunarferðum (75% kostnaðar) 256 460 kr. hjá slysatryggingadeild. Á þessum grundvelli má telja ólíklegt að viðbótarkostnaður slysatryggingadeildar vegna gildistöku umrædds ákvæðis fari yfir hálfa milljón kr. á ári.“

Í þessari umsögn Tryggingastofnunar ríkisins eru einnig nokkrar athugasemdir um form og efnisatriði og hefur nefndin tekið þau til athugunar og meðferðar og gerir tillögu um nokkrar breytingar á frv. sem fram koma á þskj. 825.

Þar er í fyrsta lagi um það að ræða að lagt er til að ákvæðin sem þarna eru til meðferðar falli undir 3. tölulið 1. málsgr. 32. gr. laganna sem fjallar um heimild til greiðslu en ekki að greiða skuli þennan kostnað, svo sem segir í 2. tölul. sömu greinar, sbr. frv. sjálft.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ferðakostnaður sé greiddur að 3/4 hlutum en ekki að fullu.

Síðan eru hér smávegis orðalagsbreytingar. Það er lagt til að auk þess sem getið er um áætlunarferðir sé einnig getið um ferðir með strætisvögnum og svo um það að þessi greiðsla taki einnig til sjúklinga sem þurfa að fara í meðferð á sjúkrastofnunum.

Að lokum er í 1. gr. lögð til sú breyting að þetta taki til greiðslu séu ferðir fleiri en 30 á 6 mánaða tímabili í staðinn fyrir að í frv. var gert ráð fyrir 30 ferðum á 12 mánaða tímabili.

Svo sem heyra má af þessu er greinin þrengd nokkuð og þess vegna má gera ráð fyrir því að kostnaður sé minni en áætlun Tryggingastofnunar gerði ráð fyrir í umsögn stofnunarinnar.

Þá hljóðar fyrri brtt. á þskj. 825 svo: „Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Við 3. tölul. 1. mgr. 32. gr. laganna bætist nýr stafliður er orðist svo:

c. Ferðakostnað að 3/4 hlutum með áætlunarbíl eða strætisvagni, eða samkvæmt kílómetragjaldi ef áætlunarferðir eða strætisvagnaferðir eru ekki fyrir hendi, þegar sjúklingur þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni á sjúkrahúsi eða sjúkrastofnun, svo sem í endurhæfingu eða sjúkraþjálfun, með eða án innlagningar, þótt vegalengd sé skemmri en 15 km, enda séu ferðir fleiri en 30 á sex mánaða tímabili.“

Nefndin leggur einnig til að gerð verði breyting á 2. gr. frv. og varðar það afturvirkni. Þar var lagt til að lögin tækju til allra tilvika frá og með 1. maí 1982, en nefndin varð sammála um að leggja til að greinin orðaðist svo sem segir í 2. brtt. á þskj. 825:

„Lög þessi öðlast þegar gildi“.

Ákvæðið um afturvirknina er þá þar með fellt niður. Eins og ég sagði í upphafi leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem fluttar eru sérstaklega á þskj. 825.