05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

68. mál, lán Byggðasjóðs til Flugfisks - Flateyri hf.

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Skiptaráðandinn í Ísafjarðarsýslu, Pétur Kr. Hafstein sýslumaður, hefur kveðið upp gjaldþrotaúrskurð yfir búi fyrirtækisins Flugfiskur - Flateyri hf. á Flateyri. Málið bar að með þeim hætti að framkvæmdastjóri fyrirtækisins óskaði sjálfur eftir því að fyrirtækið yrði lýst gjaldþrota.

Hér er um það að ræða að framkvæmdastjórinn hefur um fárra ára bil stundað plastframleiðslu á Flateyri. 1. febrúar s.l. ár var stofnað hlutafélagið Flugfiskur - Flateyri hf. sem yfirtók þennan rekstur. Félagið var skráð 25. júlí í sumar og stofnendur eru fimm, framkvæmdastjórinn sjálfur, eiginkona hans og þrír einstaklingar á Flateyri. Tilgangur félagsins er framleiðsla og sala vara úr trefjaplasti, bátasmíði og síðan verslun með ýmiss konar vörur.

Félagið var stofnað með 1800 þús. kr. hlutafé og 653 þús. kr. voru greiddar við stofnun með yfirtöku eigna eldra fyrirtækisins. Engin fasteign er þinglýst á þetta hlutafélag. Hins vegar eru þinglýstar eignir framkvæmdastjórans íbúðarhúsið að Hafnarstræti 27, vélsmiðjuhús að Hafnarstræti 27b og iðnaðarhúsnæði að Sólbakka og ég hef leyft mér að dreifa hér myndum af þessum fasteignum. ljóst er af myndum að eignir þessar eru fremur illa farnar og tæplega mikils virði.

Það sem vekur hins vegar athygli er að stærsta þinglýsta skuldin er við Byggðasjóð, sjö lán frá árunum 1980-1985 alls að fjárhæð 2 millj 570 þús., þar af 2 millj. skv. skuldabréfi útgefnu 31. júlí í sumar. Ýmsar aðrar skuldir hvíla einnig á þessum eignum, svo sem við Útvegsbankann, Iðnlánasjóð, sem eru sjö lán samtals 650 þús. og Sparisjóð Þingeyrar. Útistandandi eru söluskattsskuldir og ýmsar aðrar lausaskuldir.

Það sem vekur athygli er að 25. júlí s.l. er þetta hlutafélag skráð sem hlutafélag. Viku seinna eða 31. júlí eru fyrirtækinu lánaðar úr Byggðasjóði 2 millj. kr. Þegar þessi lántaka fer fram, eða lánveiting, eru engar eignir þinglýstar á hlutafélagið. Þar sem ég tel að það sé nokkuð óvenjulegt að svo háar upphæðir séu lánaðar án veðs hlýt ég að leggja fram þá fsp., sem hér liggur fyrir á þskj. 70, til hæstv. forsrh. um lán Byggðasjóðs til þessa fyrirtækis. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvaða lán hefur Flugfiskur - Flateyri hf., sem skrásett var 25. júlí 1985, fengið úr Byggðasjóði og hvenær voru þau lán veitt?

2. Hvaða tryggingar setti hlutafélagið þegar því voru veittar 2 millj. kr. að láni úr Byggðasjóði 31. júlí s.l.?"