14.04.1986
Neðri deild: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3750 í B-deild Alþingistíðinda. (3431)

383. mál, siglingalög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. hv. samgn. Nd. með fyrirvara um stuðning við vissa hluti í frv. um breytingar á siglingalögum og er þar helst að ég vildi hafa fyrirvara á um fjölda nefndarmanna. Það er í sjálfu sér mikið álitamál hversu stórar slíkar nefndir eigi að vera eða fjölmennar og hvað er heppilegast í þeim efnum. Það kemur til greina að hafa sem allra fæsta nefndarmenn, en tilnefna þá fulltrúa til vara þannig að ef einhverjir þeirra eru vant við látnir verði nefndin ekki óvirk af þeim sökum. En ljóst er að þriggja manna nefnd er í nokkurri hættu með að verða óvirk ef engir varamenn eru tilnefndir og hér er á ferðinni nefnd sem á að geta tekið viðstöðulaust til starfa þegar þannig tilfelli koma upp og það er að mínu viti ekki hyggilegt að ganga þannig frá hlutunum að það geti torveldað henni að hefja störf fyrirvaralaust ef aðeins einn nefndarmaður er forfallaður eða vant við látinn. Þess vegna hefði ég talið hyggilegra að annaðhvort væru a.m.k. fimm menn í nefndinni eða þessir þrír fulltrúar, sem hér er gerð tillaga um, hefðu varafulltrúa. Ég hyggst því styðja brtt. frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og Stefáni Guðmundssyni um að hafa fimm aðalmenn í nefndinni úr því að ekki var valin sú leið að tilnefna varamenn.

Fyrirvari minn byggðist einnig að nokkru leyti á því að ég vildi athuga nánar hvernig skipan þessarar nefndar og verksvið hennar skaraðist við verksvið þeirra sem framkvæma sjópróf og hvernig ætti að haga samstarfi þessara aðila og yfirtöku sérstakrar rannsóknarnefndar á málum sem hún sæi ástæðu til að fara ofan í. En ég held að það sé öllum fyrir bestu að um þetta séu sem skýrust ákvæði.

Ég hef ekki tillögur um neinar breytingar á þessari tilhögun að athuguðu máli og tel sjálfsagt að stuðla að því að þessi nefnd komist á legg og það fáist reynsla á hvernig start hennar gefst. Ef það kemur í ljós, sem ég vissulega vona að ekki verði, að um erfiðleika verður að ræða í samskiptum nefndarinnar og þeirra aðila sem framkvæma sjópróf skv. lögum þar um verður einfaldlega að bæta úr því. En mér sýnist ekkert því til fyrirstöðu að skipa þessa nefnd og fá reynslu á hvernig það gefst. Það er mjög brýnt og mjög þýðingarmikið að við gerum allt sem í okkar valdi stendur á hv. Alþingi til að stuðla að því að draga megi úr því mikla manntjóni og þeim miklu óhöppum sem verða í þessari atvinnugrein. Ég held að þetta sé tvímælalaust skref í rétta átt og mun því styðja frv., herra forseti, með þeim fyrirvara sem ég hef hér gert grein fyrir.