05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

68. mál, lán Byggðasjóðs til Flugfisks - Flateyri hf.

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég leitaði eftir upplýsingum frá Byggðastofnun um þessi atriði sem hv. þm. spyr um. Svar Byggðastofnunar er svohljóðandi:

„Á fundi stjórnar Byggðasjóðs hinn 16. júní 1985 var eftirfarandi lánveiting samþykkt samhljóða með atkvæðum sex stjórnarmanna. Einn stjórnarmanna, Ólafur Björnsson, sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Flugfiskur - Flateyri. Samþykkt heimild til forstjóra að lána fyrirtækinu 1 millj. kr. og 1 millj. kr. til væntanlegra hluthafa til að leggja fram sem hlutafé með þeim veðum sem bjóðast. Fyrsta afborgun 1987. Byggðasjóður og aðrir fjárfestingasjóðir gefi eftir og eða semji um vanskil til fjárhagslegrar endurskipulagningar.“

Flugfiskur - Flateyri hf. fékk síðan 31. júlí 1985 lán að fjárhæð 1 millj. kr. úr Byggðasjóði. Þann sama dag, 31. júlí 1985, fengu Hrafn Björnsson og Björk Gunnarsdóttir 1 millj. kr. að láni úr Byggðasjóði til að leggja fram sem hlutafé í Flugfisk - Flateyri.

Spurt er um hvaða tryggingar hlutafélagið setti þegar því voru veittar 2 millj. kr. að láni úr Byggðasjóði 31. júlí s.l. Svarið er svohljóðandi: Til tryggingar báðum ofangreindum lánum, þ.e. til Flugfisks - Flateyri hf. annars vegar og til Hrafns Björnssonar og Bjarkar Gunnarsdóttur til kaupa á hlutabréfum hins vegar, voru 4. og 5. veðréttur í vélsmiðjuhúsi við Hafnarstræti 276, Flateyri og sömuleiðis til tryggingar á sömu lánum 18. og 19. veðréttur í iðnaðarhúsnæði á Sólbakka, Flateyri.

Það skal tekið fram, af því það kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda réttilega, að lán hafa verið nokkuð meiri til þessara aðila, en ekki til Flugfisks hf. heldur til forvera þess fyrirtækis, samtals, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, u.þ.b. 500 000 kr. Ég hef ekki upplýsingar um það á þessari stundu hvernig veð eru á þessum eignum, en ég held að fullyrða megi að heldur litlar líkur séu til þess að þessi skuld fáist greidd af þessum eignum. Hins vegar er ljóst að það sem lánað er einstaklingunum hvílir að sjálfsögðu áfram á þeim.

Ég hef raunar litlu við þetta að bæta en þó get ég upplýst að skv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið gengu ýmsir aðilar í það að endurskipuleggja þetta félag með stofnun nýs hlutafélags. Sú endurskipulagning byggðist m.a. á því að félaginu hafði þá þegar tekist að hefja framleiðslu á bátum sem líkuðu mjög vel, seldust auðveldlega og ýmislegt benti til að sú sala gæti farið vaxandi.

Einnig er mér tjáð að fyrirtækið hafi þá gert samning við Vegagerð ríkisins um framleiðslu á plaströrum í ræsi í vegi sem þóttu mjög athyglisverð og þóttu lofa góðu. Því miður fór samt svo að þessi fjárhagslega endurskipulagning dugði ekki til. Mér er tjáð að tilraunakostnaður fyrirtækisins með þessi rör hafi orðið mjög mikill og þótt ýmislegt benti til þess að þau mundu fullnægja þeim kröfum sem Vegagerðin gerði hafði fyrirtækið, þrátt fyrir þessa endurskipulagningu, ekki bolmagn til að rétta úr kútnum.

Ég held því að þarna hafi verið gerð athyglisverð tilraun og þarna sé athyglisverð framleiðsla sem er enn þá á tilraunastigi en því miður hafi fjárhagslegur stuðningur ekki orðið nægur og ekki getað orðið meiri því að það vantaði veð eins og greinilega hefur komið fram.