14.04.1986
Neðri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3752 í B-deild Alþingistíðinda. (3445)

368. mál, selveiðar við Ísland

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er komið til 3. umr. frv. til laga um selveiðar við Ísland. Ég hef kvatt mér hljóðs m.a. vegna þess að hæstv. sjútvrh. var ekki viðstaddur 2. umr. þegar ég mælti úr þessum ræðustól og ég lét það óátalið, en nú er ráðherra hér við þannig að ég ætla að inna hann eftir nokkrum atriðum og gera örfáar athugasemdir við mál hans um daginn þegar hann síðast tók þátt í umræðum um þetta frv.

Áður en að því kemur vildi ég aðeins minna á að í gær voru stofnuð sérstök áhugamannasamtök um selveiðihlunnindi. Þeir héldu framhaldsstofnfund og sendu alþm. orðsendingu í dag af þessum fundi og ég held að eðlilegt sé að við lítum aðeins á erindi þeirra hér, það er stutt, þar sem minnst er á nokkur helstu atriði úr málflutningi þessara nýju samtaka, með leyfi forseta. Þar segir:

„Á stofnfundi samtakanna 13. apríl urðu snarpar umræður um selveiðimál og lagafrv. það sem nú liggur fyrir á Alþingi. Í umræðum og fundarályktun kom m.a. þetta fram:

Selalátur hafa fylgt bújörðum frá upphafi, verið nytjuð af ábúendum þeirra og selveiðar jafnan talist búgrein. Hefðbundnar nytjar þeirra eru vænlegasti kosturinn til að halda selastofnunum í jafnvægi og hafa af þeim gagn. Til skamms tíma voru landselskópaskinn verðmæt grávara. Ástæða er til að ætla að svo verði aftur þegar menn hafa áttað sig á að lokun skinnamarkaðarins hefur ekki leitt til friðunar heldur ofsókna.

Bent hefur verið á að fækkun sela leysir ekki hringormavanda fiskiðnaðarins og óvíst hve mikið hún dregur úr honum. Kenningar um að fækkun sela mundi auka fiskafla á Íslandsmiðum að ráði hafa náttúrufræðingar talið fjarstæðu og fært rök að.

Á fundinum kom fram hörð gagnrýni á hringormanefnd og veiðiaðferðir sem gripið hefur verið til undanfarið. Má telja víst að selalátrum og verðmætum landnytjum hafi verið stórspillt sums staðar af þeim sökum. Ágreiningslaust er þó að nýta megi sel í loðdýrafóður og fækka útsel, enda sé þá farið eftir ströngum reglum um verndun látra.

Frv. um selveiðar sem nú liggur fyrir Alþingi hlaut harða dóma á fundinum. Það er talið fela í sér fulla hættu á að selveiðihlunnindi verði tekin af bændum í reynd og selalátrum spillt sem jafngildir stórfelldri eignaupptöku. Fundurinn taldi fulla þörf á heildarlöggjöf um sel og selveiðar sem tæki fullt tillit til verndunarsjónarmiða og skynsamlegrar nýtingar selastofnanna. Mikið skortir á að frv. gegni því hlutverki og er það viðurkennt af mönnum sem studdu það áður, en hafa skipt um skoðun eftir að hafa kynnt sér öll sjónarmið.

Samtök áhugamanna um selveiðihlunnindi krefjast þess að frv. verði ekki lögfest í núverandi mynd heldur verði málið tekið upp að nýju og þá haft fullt samráð við bændur og aðra hagsmunaaðila“.

Þetta er það erindi sem stjórn þessara nýju samtaka áhugamanna um selveiðihlunnindi hefur komið á framfæri við Alþingi eftir stofnfund sinn í gær. Hér er vikið að mikilvægum þáttum þessa máls og ekki síst að svo gæti farið, ef fylgt yrði þeirri stefnu sem leiða mætti rök að að hægt væri í sambandi við fækkun sela, að þá verði stefnt í óefni í sambandi við hlunnindabúskap á þessu sviði og það hittir ýmsa þá sem nú þegar eiga mjög í vök að verjast í sambandi við sína hagsmuni, fólk sem býr við hvað erfiðust skilyrði í strjálbýli, en hefur getað nytjað sér þessi hlunnindi á liðnum tíma. Þó að breyttar markaðsaðstæður hafi raskað þeim nytjum verulega um skeið er talið sitthvað sem bendir nú til að þar geti orðið breyting á og þess vegna er eðlilegt m.a. að þessir aðilar reyni að verja þessa hagsmuni og gera vart við sig eins og ert er í þessu erindi.

Ég ætla þá, herra forseti, að víkja að nokkrum atriðum úr ræðu hæstv. sjútvrh. hér síðast við 2. umr. og inna hann eftir vissum atriðum sem fram komu í máli hans. Hann kom að því snemma í sinni ræðu að hann vildi skilgreina selinn sem sjávardýr og það var fjallað um það af öðrum ræðumanni, hv. 1. þm. Norðurl. v., að það væri dálítið hæpið, jafnvel eftir barnabókalærdómi í náttúrufræði, að staðhæfa það, þar sem selurinn kæpir á landi. Stundum heyrum við rök færð fyrir því t.d. að laxinn sé ekki sjávarfiskur heldur ferskvatnsfiskur þó svo að hann skreppi í sjó og stækki þar, þannig að hér eru ekki neinar sjálfgefnar skilgreiningar að þessu leyti. Þetta eru skepnur sem ala aldur sinn að hluta til bæði í sjó og á landi og oft hefur það verið dregið fram til skilgreiningar að þar sem fjölgunin fer fram á landi eða í ferskvatni beri að miða við þá skilgreiningu, en hér er vissulega ekkert óyggjandi. En ég tel sem sagt að þessi röksemd hæstv. ráðh. skjóti engum sérstökum fótum undir þá stefnu þessa frv. að taka stjórn þessara mál undir sjútvrn. og að því leyti hafi ráðherrann ekki bætt neinu við með þessu mati sínu á náttúrunni hvað selinn varðar.

Það var hins vegar önnur staðhæfing í máli hæstv. ráðh. sem ég tók sérstaklega eftir og ætla að biðja hann að rökstyðja miklu nánar hér fyrir okkur. Ráðherrann sagði að verði ekki gripið til takmarkana í sambandi við selinn fjölgi selnum um 6% á ári hverju. Hv. 4. þm. Norðurl. e. greip fram í fyrir ráðherranum í sambandi við þetta og eitthvað nefndi ráðherra þá um sveiflur sem þarna gætu verið á ferðinni, en hann bar það sem sagt fram sem sitt viðhorf og hlýtur að hafa fyrir því rök og sannanir, að um sé að ræða 6% fjölgun í selastofnum við landið. Ég vil gjarnan fá frá honum, og tel það reyndar nauðsynlegt þegar bornar eru fram tölur af þessu tagi, að þær séu rökstuddar og þau gögn dregin hér fram og þingdeild tjáð hvað ráðherrann hefur fyrir sér í þessu efni. Þetta er engin smáviðkoma ef það gerist um langt árabil að einni tegund fjölgi um 6%. Ég sagði nú raunar að ráðherranum fjarverandi hér um daginn að ég færi nú að skilja að honum stæði verulegur stuggur af þessari fjölgun því að þetta leiðir til þess sem kallað er veldisvöxtur og menn þekkja slík fyrirbæri, hvert stefnir í þeim efnum.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðh. í þessu sambandi: Er hann að tala hér um útsel, er hann að tala um landsel, er hann að tala um báðar þessar aðaltegundir sels við Ísland og gildir það sama um þær báðar og ef ekki, hvað gildir um hvora, um hvora tegundina er hann að tala þegar hann er að tala um þennan 6% vöxt?

Ég hefði margt um þetta að segja, en ætla að bíða eftir því að hæstv. ráðh. greini okkur frá sínum upplýsingum um þessi efni sem hann vafalaust hefur og vil áskilja mér þá rétt til að fjalla um það frekar. Ég satt að segja hef litið svo til að þær upplýsingar sem menn hafa um þessi efni séu svo ófullnægjandi að það sé mjög hæpið að draga af því víðtækar ályktanir í sambandi við breytingar á fjölda sela við landið undanfarin ár og til lengri tíma litið til baka.

Þetta var það sem ég vildi koma að sérstaklega af því sem ráðherra vék að. Hann nefndi í sínu máli að ef þetta frv. yrði lögfest mundi ráðuneyti hans að sjálfsögðu, eins og hann orðaði það, sjá til þess að ekki verði skotið, ég vil nú ekki segja hömlulaust á Breiðafirði, en a.m.k. að þar yrði ekki gengið um með þeim hætti sem margir bera ugg í brjósti um að gæti orðið niðurstaðan. Það kann að vera að einhver treysti sér til þess að halda uppi slíkri vörslu að það verði ekki um að ræða þá röskun sem t.d. kom fram í erindi frá hlunnindaráðunaut Búnaðarfélags Íslands, erindi sem sent var alþm., að vegna skotmennsku utan netlaga gæti orðið um slíka röskun að ræða að selur komi alls ekki til kæpingar í hefðbundin látur heldur yrði þar um stórfellda röskun að ræða af þessum sökum. Það er einn þátturinn í þessu máli að menn óttast slíka útgerð eins og hún hefur m.a. verið stunduð á vegum hringormanefndar og ljóst er að knúið verði mjög fast á um í framhaldi af samþykkt þessara laga, að hert verði á, m.a. vegna krafna hagsmunaaðila, jafnt atvinnurekenda og verkalýðsfélaga sem hafa látið til sín heyra um þessi mál og trúa því að það megi með fækkun sela leysa hið margumrædda hringormavandamál. Það er alveg ljóst að það hefur verið knúið á um slíka fækkun. Nú fer eftir því hver á heldur hvað verður heimilað í þeim efnum, en ég óttast verulega að það geti orðið erfitt fyrir þann sama ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál og á að hafa með höndum stjórnun selveiða annars vegar og hins vegar horfa til samhengisins varðandi fiskiðnaðinn á meðan menn trúa því að þetta samhengi við sníkjuorm í fiski sé með þeim hætti sem margir túlka hér, nánast línulegt samhengi á milli fjölda sela og magns af hringormi í fiski. Og þá er mjög hætt við að það verði haldið með þeim hætti á heimildum, sem beðið er um m.a. skv. 6. gr. þessara laga, að menn lendi út í þær ógöngur sem ég tel að hætta sé á ef farið er út í fækkunaraðgerðir, t.d. með þeim hætti sem við höfum séð dæmi um að undanförnu og ég held að hafi í rauninni ekki, a.m.k. liggur ekkert fyrir um það, hamlað gegn þeim vanda sem við er að fást í fiskiðnaðinum sem er vissulega mikill vandi og þarf með rannsóknum að bregðast við eftir því sem frekast er kostur.

Hv. þingdeild hefur greitt atkvæði nýlega um þetta mál og það virðist því miður vera meirihlutafylgi fyrir því hér að hleypa þessu máli áfram án breytinga. Þó er eftir að taka afstöðu til einnar brtt. frá hv. 1. þm. Vesturl. í sambandi við Breiðafjörðinn sérstaklega. Það má vera að menn eigi eftir að sjá að sér því að þar er vissulega um mjög mikilvægan þátt máls að ræða, þó að það taki aðeins til eins svæðis á landinu.

En ég tel sem sagt nauðsynlegt að hæstv. ráðh. greini okkur frá sinni vitneskju um þessi efni, því að það segir okkur kannske eitthvað til um hvernig líklegt sé að hann, á meðan hann gegnir starfi sjútvrh., komi til með að halda á þessum málum verði frv. þetta að lögum. Ég vænti þess að hann hér við umræðuna geri okkur ítarlega grein fyrir þeirri vitneskju sem hann telur sig geta lesið út úr þeim rannsóknum sem hann er að vitna til þegar hann ræðir um líkurnar á 6% fjölgun selastofnanna við landið, verði ekki að gert með sérstökum stjórnunaraðgerðum, sem ég geri ráð fyrir að hann hafi undanskilið sem forsendu þegar hann gat um þessa viðkomu.