14.04.1986
Neðri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3755 í B-deild Alþingistíðinda. (3446)

368. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki sérfræðingur um það ágæta dýr sem selur er nefndur, hvort sem menn vilja kalla það sjávardýr eða landdýr, en alla vega lifir selurinn við sjó og ég get alveg fallist á þær skilgreiningar sem hér hafa verið hafðar í frammi, jafnvel þótt ég leyfi mér að nefna hann sjávardýr. Eins má segja með laxinn að hann a.m.k. dvelur meira í sjó en í fersku vatni, en hvort á að kalla hann ferskvatnsfisk eða sjávarfisk skal ég ekki deila við menn um. Ég held að það skipti afar litlu máli.

En það sem ég hafði í huga þegar ég nefndi þessi 6% var það sem ég hafði lesið um þetta mál ásamt ýmsu öðru, m.a. get ég vitnað í 9. tölublað Ægis 1982 þar sem segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Stjórn Fiskifélagsins samþykkti á fundi í janúar á þessu ári að senda skyldi menn út af örkinni til að kanna þessi mál í þessum löndum, þ.e. Noregi og Nýfundnalandi, og landsvæðum, enda einna mest stundaðar selveiðar þaðan á norðanverðu Atlantshafi. Fiskifélagið hefur haft allmikil afskipti af selveiðum og hefur fiskiþing jafnan hvatt til þess að selastofninum verði haldið innan skynsamlegra marka með tiltækum ráðum. Má í þessu sambandi minna á að sett var á laggirnar sérstök selanefnd á árinu 1974 að frumkvæði stjórnar félagsins og með samþykki sjútvrh. til að kanna fjölgun og útbreiðslu sels og fæðuval svo og samband sníkjudýra og sels. Í nefnd þessari áttu sæti fulltrúar framleiðenda sjávarafurða svo og frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Búnaðarfélagi Íslands og Náttúruverndarráði. Formaður nefndarinnar var tilnefndur af Fiskifélaginu. Áþekkar athuganir og nefnd þessi stóð að hafa farið fram bæði í Noregi, á Bretlandseyjum, einkum við norðanvert Skotland, og í Kanada. Niðurstöður þessara rannsókna eru samhljóða: a) Ef selurinn er látinn óáreittur fjölgar honum mjög, allt að 5-6% á ári. b) Hann étur mikinn fisk. c) Staðfest er að selurinn er hlekkur í lífkeðju sníkjudýra.

Í beinu framhaldi af störfum selanefndar tóku samtök framleiðenda sjávarafurða höndum saman um aðgerðir til að hefta enn frekari fjölgun sela og draga þannig a.m.k. úr þeim vanda sem við er að glíma.“

Ég ætla ekki að vitna frekar í þessi orð sem hér standa og eru skrifuð á árinu 1982. Þar kemur skýrt fram að lengi hefur verið fjallað um þessi mál. Ég tel mig ekki þurfa frekari tilvitnana við í sambandi við þessar tölur. Hér stendur allt að 5-6% sem getur að sjálfsögðu verið allmiklu minna eftir því hvaða aðstæður eru, en þetta var sú heimild sem ég hafði sérstaklega í huga þegar þetta kom hér til umræðu og vænti ég þess að það sé fullnægjandi fyrir hv. fyrirspyrjanda og skal gjarnan láta hann hafa ljósrit af þessu greinarkorni.