14.04.1986
Efri deild: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3766 í B-deild Alþingistíðinda. (3457)

238. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. um Siglingamálastofnun ríkisins hefur fengið mjög vandlega meðferð í nefnd í hv. Nd. Þar voru gerðar á frv. fimm breytingar og eru þær fremur lítilfjörlegar breytingar a.m.k. tvær þeirra. Sú þriðja er einnig breytt orðalag, það er við 5. gr.: Að fjalla almennt um öryggismál skipa báta, þar á meðal að sjá um birtingu á niðurstöðum af rannsóknum sjóslysa, ekki sjaldnar en árlega, í samvinnu við nefnd þá er starfar að rannsóknum sjóslysa skv. 230. gr. siglingalaga með síðari breytingu. En frv. sem hér er á dagskrá á eftir fjallar um þessi mál, breytingu á 230. gr. siglingalaga. Og í síðasta lagi þá er orðalag um það að þessi stofnun hafi umdæmisskrifstofur í tilteknum svæðum á landinu og að ráðherra ákveði að fengnum tillögum siglingamálastjóra mörk umdæma og hvar umdæmisskrifstofur skuli vera.

Ég tel að þær breytingar sem nefndin gerði á frv. séu allar til bóta og tel jafnframt að með þessu frv. sé verið að breyta nokkuð um form og færa í auknum mæli starfsemi Siglingamálastofnunar út um landið. Og þegar á heildina er litið held ég að í því felist bæði hagræðing og sparnaður.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.