05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

68. mál, lán Byggðasjóðs til Flugfisks - Flateyri hf.

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi koma hér upp og segja örfá orð. Ég vil staðfesta að það sem ræðumaður vitnaði til mín úr blaðagrein er allt satt og rétt og ég skammast mín ekki fyrir atkvæði mitt til þessa fyrirtækis. Menn tóku vissa áhættu í þessu efni og hún var alveg augljós. Menn töldu að það fjármagn, sem þarna var lánað, þó lítið væri, mætti hugsanlega verða til þess að þetta fyrirtæki kæmist betur á legg en ella. Þingmenn geta síðan skemmt sér við að dreifa myndum af lélegum húsakosti og annað því um líkt, það er önnur saga.

Efni fyrirtækisins voru lítil, það skal skýrt tekið fram. En menn höfðu trú á því að þessir aðilar, sem í þessu basli hafa staðið, hefðu dottið niður á hugmynd sem mætti verða til þess að gera þetta fyrirtæki betur í stakk búið en áður hafði verið. Við erum að tala hér um 2 millj. kr. Það eru nefnilega smáupphæðirnar sem oftast veltast hér fyrir fólki. Ætli það séu ekki hærri tölur, kannske með dálítið fleiri núllum, sem munu koma hér inn í þingsali innan fárra daga og það mun þá trúlega ekki verða stjórn Byggðastofnunar sem mun verða sótt til saka. Vanskil ýmissa fyrirtækja valda okkur vissulega áhyggjum í stjórn Byggðastofnunar. Það vill einmitt þannig til að fyrirtæki í eigu þess sveitarfélags, sem hv. fyrirspyrjandi er þm. fyrir, er í vanskilum við umræddan sjóð. En við skulum vona að þeir verði menn til að borga það.