14.04.1986
Efri deild: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3768 í B-deild Alþingistíðinda. (3471)

302. mál, veð

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstvirtur forseti. Hér er um að ræða tiltölulega litlar breytingar. Það er annars vegar að bæta við Í gr. þar sem upptalning er á vörum, ýmiss konar afurðum. Þar stendur „sem veðsali á eða eignast kann“ í 1. málsgr. en á eftir því komi: eða hefur til sölu.

Hitt er efnisatriði. Það er varðandi meginefni frv. sem er að gera eldisfisk óumdeilanlega veðhæfan og það var gert í samráði við þá nefnd sem um þetta fjallar og skipuð var á s.l. sumri af hæstv. forsrh. og í samráði við bankana. Menn telja eðlilegt að takmarka nokkuð þann tíma sem þessi lán mega vara og því er bætt við nýjum málslið sem hljóðar svo: Veðsetning á eldisfiski er óheimil til lengri tíma en fjögurra ára í senn. Yfirleitt er fiskur ekki lengur í eldi en fjögur ár og þess vegna á þetta að geta verið alveg skaðlaust fyrir fiskeldisstöðvar þótt þær ali fisk upp alveg frá seiðum og upp í sláturstærð. Mæli ég með að þetta verði samþykkt og hygg að það þurfi ekki að fara fyrir hv. fjh.- og viðskn.