15.04.1986
Neðri deild: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3807 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

368. mál, selveiðar við Ísland

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þótt skv. 3. gr. þessara laga sé áskilið samráð við tiltekna aðila hefur ráðherra skv. 6. gr. ótvíræðan rétt til setningar reglugerðar, þar á meðal um fækkun sela. En eftir stendur þó við lokaafgreiðslu þessarar deildar að felld er úr gildi 16. gr. tilskipunar frá 20. júní 1849 um veiði á Íslandi sem kveður á um að vöðusel og annan farsel má hver maður veiða og skjóta eða veiða í nótum hvar sem hann vill. Þetta er fellt úr gildi, en eftir stendur skv. sömu tilskipan, 15. gr.: „Sýslumenn skulu ótilkvaddir af eiganda hvert ár á manntalsþingum lýsa friðhelgi þeirra staða þar sem landselaveiði eða útsela nú er tíðkuð með nótum eða öðrum hætti“ og fleiri ákvæði um verndun útsela og landsela halda gildi sínu skv. þessari tilskipun. Mér sýnist því sæmilega fyrir verndun þessara stofna séð þrátt fyrir setningu þessara laga, en segi samt nei við þessu frv.